22.08.1974
Efri deild: 6. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 77 í B-deild Alþingistíðinda. (89)

3. mál, happdrættislán ríkissjóðs til að fullgera Djúpveg

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Mér þykir rétt að gera nokkra grein fyrir afstöðu minni í n., en þar greiddi ég atkv. gegn því, að þetta frv. yrði samþykkt. Það er ekki byggt á því, að ég sé að einu eða neinu leyti á móti lagningu umrædds vegar eða umræddri vegagerð, heldur eingöngu af því, að ég álít, að þessi fjáröflunarleið til framkvæmda á vegum ríkisins sé röng. Bankar landsins og peningastofnanir eru þeir einu aðilar, sem fara með það vinnutæki þjóðarinnar, sem við köllum almennt peninga, og þeir peningar, sem þar eru í veltunni til þess að halda einstaklingum og fyrirtækjum og þjóðfélaginu gangandi að öðru leyti en því, sem opinberir skattar og tekjur ríkissjóðs gefa, eiga að vera lausir almenningi til brúks, en ekki fara í fjárfestingar á vegum ríkisins. Ég álít, að með því að draga þessi vinnutæki, sem peningarnir eru í bönkunum og eiga að vera frjálsir, inn í ríkisbáknið og festa þá þar, þá skapist vandræðaástand í þjóðfélaginu, eins og raun ber vitni, að þegar er orðið, einmitt vegna þess, að peningar eru dregnir í síauknum mæli inn í það bákn, sem ríkið er orðið. Ég álít, að ríkissjóður og ríkisbáknið eigi að halda sér innan þess ramma, sem eðlilegt er, í sínum fjárfestingum, og tel óeðlilegt, að það fari inn á þennan frjálsa markað, þann markað, sem á að vera fyrir einstaklingana, þannig að athafna- og framkvæmdaþrá þeirra fái útrás. Það er öllum ljóst, að með slíkum aðgerðum sem þessum, — og þá er ég með þær aðgerðir í huga, sem þegar hafa átt sér stað í þessa átt, — eru bankarnir fjárvana og þar af leiðandi er vágesti boðið heim, því að við vitum allir, að þeir eru ekki færir um að veita þá fyrirgreiðslu eða starfa á þann eðlilega hátt, sem bankar eiga að gera.

Ég held, að það sé kominn tími til, að við gerum okkur ljóst, að undanfarið hefur ekki aðeins verið þrengt að fyrirtækjum og einstaklingum með því að hefta fyrst erlendar lánafyrirgreiðslur, síðan að minnka úr 120 dögum niður í 90 daga og síðan 45 daga lánamöguleika einstaklinga og verslana og fyrirtækja, heldur er nú búið að loka á alla útlánastarfsemi til einstaklinga og fyrirtækja, og til viðbótar þessu öllu hefur verið tekinn 25% skattur af fyrirtækjum sem eigið fé inn á lokaða reikninga á 3% vöxtum, þegar útlánafé bankanna er 14–16% eða 17% eða hvað það nú er í augnablikinu. Ég held, að allir hljóti að skilja, að við slíkt má ekki sitja. Og þegar til viðbótar þessu kemur svo enn ein happdrættisframkvæmdin, þá held ég, að bankarnir hljóti að finna enn meir fyrir þessum, því miður nauðsynlegu ráðstöfunum, sem eru þó bara til að fresta hinum eiginlega vanda, sem þarf að taka á á allt annan hátt en gert er.

Ég skal ekki segja, hvort framkvæmdaprógramm ríkisins er orðið of mikið, hvort við erum að reyna að gera of mikið á of skömmum tíma, en alla vega erum við að gera of mikið fyrir of litla peninga. Ef við eigum að standa í þessum framkvæmdum, sem ég er alveg sammála um, að eru nauðsynlegar, þá verðum við að gera það á allt annan hátt og fjárfesta á þann hátt, að það komi niður á meira en einni kynslóð. Við verðum að reyna að fá erlent lán til að fjárfesta í þessum stórframkvæmdum, sem eru vegaframkvæmdirnar almennt, og það verður þá að reyna að fá þá fyrirgreiðslu erlendis og dreifa henni yfir á miklu lengra tímabil, eina til tvær kynslóðir, en ekki að reyna að hrúga öllu á það fólk, sem nú byggir landið. — Ég sem sagt er á móti þessari fjáröflunaraðferð, en mun styðja framkvæmdina sjálfa.