29.08.1974
Sameinað þing: 5. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 82 í B-deild Alþingistíðinda. (98)

Tilkynning frá ríkisstjórninni

Forsrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Forseti Íslands gaf í gær, 28. ágúst 1974, út svo hljóðandi forsetaúrskurð:

„Forseti Íslands gjörir kunnugt:

Samkv. till. forsrh. og með skírskotun til 15. gr. stjórnarskrárinnar, laga nr. 73 frá 1969, um Stjórnarráð Íslands, og reglugerðar samkv. þeim frá 31. des. 1969, er störfum þannig skipt með ráðherrunum:

Geir Hallgrímsson fer með forsætisráðuneytið og Hagstofu Íslands.

Einar Ágústsson fer með utanríkisráðuneytið.

Ólafur Jóhannesson fer með dóms- og kirkjumálaráðuneytið og viðskiptaráðuneytið.

Gunnar Thoroddsen fer með iðnaðarráðuneytið og félagsmálaráðuneytið.

Halldór E. Sigurðsson fer með landbúnaðarráðuneytið og samgönguráðuneytið.

Matthías Á. Mathiesen fer með fjármálaráðuneytið.

Vilhjálmur Hjálmarsson fer með menntamálaráðuneytið.

Matthías Bjarnason fer með sjávarútvegsráðuneytið og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið.

Með úrskurði þessum falla úr gildi eldri ákvæði um skipting starfa ráðherra.

Gjört á Bessastöðum, 28. ágúst 1974.

Kristján Eldjárn.

Geir Hallgrímsson.

Forsetaúrskurður um skipun og skipting starfa ráðherra.“

Herra forseti. Þá vil ég leyfa mér að gefa svo hljóðandi stefnuyfirlýsingu af hálfu ríkisstjórnarinnar.

Ríkisstj. mun nú þegar beita sér fyrir nauðsynlegum tímabundnum ráðstöfunum til að koma í veg fyrir rekstrarstöðvun atvinnuvega, tryggja atvinnuöryggi, bæta gjaldeyrisstöðu, treysta hag fjárfestingarsjóða og ríkissjóðs, sporna við hinni öru verðbólguþróun og tryggja sem best lífskjör almennings. Við aðgerðir þessar verður lögð áhersla á, að þær komi sem minnst við þá, sem lægst laun hafa og lakast eru settir í þjóðfélaginu. Samkomulag er um að framkvæma þegar í stað þær ráðstafanir, sem ekki þola neina bið, en að tekinn verði nokkurra vikna tími til nánari athugunar öðrum ákvörðunum, sem flóknari eru. Þessi tími verði jafnframt notaðir til samráðs við aðila vinnumarkaðarins og samtök atvinnuvega. Stefnt sé að því, að þessar ákvarðanir séu teknar fyrir í lok septembermánaðar.

Ríkisstj. mun taka ýmsa þætti efnahagsmála til gagngerrar endurskoðunar í því skyni að tryggja afkomu atvinnuveganna, atvinnuöryggi og vaxandi almenna velmegun samfara réttlæti í tekjuskiptingu og aðstöðu manna.

Ríkisstj. mun hefja þegar í stað athugun þessara málaflokka með það fyrir augum, að till. um frambúðarstefnu og umbætur, sem ákveðnar yrðu, gætu komið til framkvæmda svo fljótt sem auðið er. Þeir málaflokkar, sem hér um ræðir, eru fyrst og fremst eftirfarandi:

1. Skipan kjaramála: Þar kemur til skoðunar m.a. fyrirkomulag á greiðslu vísitöluuppbótar og vinnuaðferðir við gerð kjarasamninga. Stefnan í þessum málum sé jafnframt samræmd stefnunni í skatta- og tryggingamálum og umbótum í þessum greinum. Stefnt verði að sameiningu algengustu bóta almannatrygginga og tekjuskattsins, er tryggi þjóðfélagsþegnunum lágmarkstekjur og horfi til skýrari áhrifa á tekjuskiptingu í réttlætisátt og aukinnar hagkvæmni. Sérstök könnun fari fram á stöðu lífeyríssjóða og lífeyrisþega. Jöfnun húsnæðiskostnaðar og aðstöðu við öflun húsnæðis verði þáttur í slíkri frambúðarstefnu. Haft sé náið samráð við aðila vinnumarkaðarins og komið fastri skipan á samráð ríkisstj. við þá. Verðlagning búvöru verði tekin til athugunar í samráði við hagsmunasamtök þau, sem hlut eiga að máli.

2. Útgjöld ríkisins og annarra opinberra aðila: Gætt sé ítrasta sparnaðar í rekstri ríkisins og opinberra stofnana og ríkisútgjöldum sett ákveðin takmörk miðað við þjóðartekjur. Komið verði á sem haganlegustu fyrirkomulagi opinberrar þjónustu jafnhliða eðlilegri verkaskiptingu á milli ríkis og sveitarfélaga og aukinni yfirsýn og aðhaldi að útgjaldaáformum.

3. Tekjuöflun ríkis og sveitarfélaga: Haldið verði áfram athugunum, sem staðið hafa yfir á þessu sviði. Á almennar launatekjur skal ekki lagður tekjuskattur. Skattar fyrirtækja séu miðaðir við það, að þau búi við hliðstæð skattakjör og gerist í nágrannalöndum okkar. Tekin sé upp virðisaukaskattur í stað söluskatts og stefnt að staðgreiðslukerfi skatta svo fljótt sem verða má.

Réttarstaða landshlutasamtaka verði ákveðin og sveitarstjórnarlög endurskoðuð. Sveitarfélögum séu falin aukin verkefni og fjárhagslegur grundvöllur þeirra endurskoðaður til þess að tryggja sjálfstæði þeirra og framkvæmdagetu.

4. Skipan lánamála: Endurskoðað sé skipulag og starfsemi fjárfestingarsjóða og lánastofnana í því skyni að tryggja eðlilega og samræmda starfsemi þeirra og hagkvæmni í rekstri. Í því sambandi komi notkun verðbréfamarkaðar, verðtryggingar og vaxta til athugunar, m.a. í því skyni að auka fjáröflun til þeirra innanlands, jafnframt því sem dregið verði úr erlendum lántökum.

5. Verðlagsmál: Undirbúin sé ný löggjöf um verðmyndun, viðskiptahætti og verðgæslu. Stefnt sé í átt til almenns eftirlits neytenda með viðskiptaháttum til að tryggja heilbrigða samkeppni og eðlilega verðmyndun verslunar og iðnfyrirtækja til bættrar þjónustu fyrir neytendur. Haft sé samráð við hagsmunasamtök þau, sem hlut eiga að máli.

Byggðasjóður verði efldur og verkefni hans endurskoðuð í því skyni að samræma aðgerðir í byggðamálum og sett veri heildarlöggjöf um þau efni. Framlag til sjóðsins nemi 2% af útgjöldum fjárlagafrv.

Endurskoðuð verði lög um Framkvæmdastofnun ríkisins og í því sambandi mörkuð stefna um það, hvernig haga skuli áætlanagerð og framkvæmdum m.a. í eftirtöldum greinum:

Endurnýjun fiskiskipaflotans.

Endurbætur hraðfrystihúsanna.

Uppbygging vinnslustöðva landbúnaðarins.

Þróun iðnaðar.

Skipan ferðamála.

Opinberar framkvæmdir.

Byggðaþróun í samráði við sveitarfélög og samtök þeirra.

Lögð verði áhersla á aukinn hraða í virkjun íslenskra orkugjafa, bæði til iðnvæðingar og í því skyni að gera Íslendinga óháðari innfluttri orku en nú. Meðal brýnustu verkefna eru:

1) Að hraða stórvirkjunum og gera áætlun um virkjun vatns- og varmaorku landsins, þannig að næg orka verði fyrir hendi til almenningsþarfa og aukins iðnaðar og iðju.

2) Að tryggja sem fyrst með nýjum virkjunum næga raforku á Norðurlandi og öðrum landshlutum, sem eiga við orkuskort að búa.

3) Að koma upp hitaveitum, hvar sem aðstæður leyfa, en tryggja öðrum sem fyrst raforku til húshitunar.

4) Endurskoða skal skipulag, stjórn og eignaraðild orkuöflunar- og dreifingarfyrirtækja. Ríkisstj. mun fylgja fram ályktun Alþingis frá 15. febr. 1972 um útfærslu landhelginnar í 50 sjómílur.

Stefna ríkisstj. er að færa fiskveiðilandhelgi Íslands út í 200 sjómílur á árinu 1975 og hefja þegar undirbúning þeirrar útfærslu. Jafnframt verði áhersla lögð á nauðsynlega friðun fiskimiða og fiskistofna með skynsamlega nýtingu veiðisvæða fyrir augum.

Ríkisstj. mun fylgja því meginmarkmiði í utanríkismálum að varðveita þjóðerni, sjálfsákvörðunarrétt og efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar.

Við framkvæmd utanríkisstefnunnar skal lögð áhersla á þátttöku Íslands í starfi Sameinuðu þjóðanna, samstarf norrænna þjóða, varnarsamstarf vestrænna þjóða, samstarf þjóða Evrópu og þátttöku Íslands í þeim aðgerðum, sem ætlað er að bæta sambúð austurs og vesturs.

Þá styður ríkisstj. eindregið alla viðleitni til að vernda auðlindir, umhverfi og mannréttindi með alþjóðlegri samstöðu.

Öryggi landsins skal tryggt með aðild að Atlantshafsbandalaginu. Hafa skal sérstakt samstarf við Bandaríkin, meðan starfrækt er hér varnar- og eftirlitsstöð á vegum Atlantshafsbandalagsins.

Haldið skal áfram viðræðum um fyrirkomulag varnarmálanna með það fyrir augum, að Keflavíkurstöðin geti gegnt hlutverki sínu í samræmi við öryggishagsmuni Íslands á hverjum tíma.

Stefnt skal að því, að Íslendingar taki við þeim verkefnum af varnarliðinu, sem ekki eru hernaðarlegs eðlis. Öllum aðgerðum í þá átt skal hraðað svo sem kostur er.

Varnarliðsmenn verði búsettir á vallarsvæðinu, strax og aðstæður leyfa. Greina skal á milli starfsemi varnarliðsins á flugvellinum og almennrar flugvallarstarfsemi.

Stjórnarskráin verði endurskoðuð á kjörtímabilinu.

Auk þess, sem hér hefur verið sagt, mun ríkisstj. beita sér fyrir endurbótum á löggjöf og stjórnarframkvæmd, eftir því sem þörf krefur.

Ég hef nú greint frá stefnuyfirlýsingu ríkisstj. Af ásettu ráði er hún ekki í löngu máli, enda verður frekari grein gerð fyrir þeim málum, er ríkisstj. mun beita sér fyrir, í stefnuræðu forsrh. þegar reglulegt þing kemur saman í haust.

Herra forseti. Ríkisstj. væntir þess að eiga gott samstarf við alla þm. Það er von mín og ósk, að viðtæk samstaða megi takast innan þings og meðal þjóðarinnar allrar um lausn aðkallandi vandamála, svo að öllum landsmönnum verði til hagsbóta og heilla.