29.08.1974
Sameinað þing: 5. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 85 í B-deild Alþingistíðinda. (99)

Tilkynning frá ríkisstjórninni

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Alþingi situr nú sinn fyrsta fund með nýrri ríkisstjórn. Hægri stjórn hefur tekið við af vinstri stjórn, og fyrr en margan grunar mun fólkið í landinu verða þess vart með misjafnlega notalegum hætti, að orðin eru mannaskipti í stjórnarstólum. Íhaldsstefna hefur tekið við af vinstri stefnu. Ég tala hér um hægri stjórn og íhaldsstefnu vegna þess, að flest bendir til þess, að sú verði stefnan. Reynslan kennir okkur, að samstjórnir Sjálfstfl. og Framsfl. eru einkar hægri sinnaðar og hægri öflin í báðum þessum flokkum magnast þá um allan helming, er þeir koma saman. Hitt skal játað, að alþm. og aðrir þeir landsmenn, sem hlýða á þessar umræður í útvarpi, eru litlu nær um stefnuna og það, sem framtíðin ber í skauti sér, þótt þeir hafi hér hlýtt á hæstv. forsrh. flytja fyrsta boðskap hinnar nýju stjórnar. Satt best að segja verður mönnum ljóst eftir að hafa hlustað hér á yfirlýsingu stjórnarinnar, hvernig á því stóð, að flokkarnir tveir voru svo óvenjulega fljótir, aðeins fáa daga, að ná endanlegu samkomulagi um stefnuskrá stjórnarinnar, en aftur á móti stóð allt fast í 10 daga út af deilum um ráðherrastóla. Þessi ríkisstj. er augljóslega ekki mynduð utan um heillega stefnu, hún er mynduð utan um stólana.

Stefnuyfirlýsingin, sem við höfum hlýtt hér á, er að mestu leyti almennt spjall um sjálfsagða hluti, þar sem drepið er á eitt og annað, sem taka þurfi til athugunar, eins og það er orðað, án þess að sagt sé, hvað gera skuli eða hvernig það skuli gert. Á þeim fáu stöðum í þessari loðnu yfirlýsingu, þar sem einhver stefna virðist mörkuð, er hún augljóslega hægri sinnuð. Og þó virðist stefnuskráin vera fróðlegust fyrir það, sem þar er ekki nefnt. Lítum t.d. á landhelgismálið. Í yfirlýsingu þeirri, sem hæstv. forsrh. las hér áðan, er að sjálfsögðu minnst á útfærslu í 200 mílur á næsta ári, sem allir flokkar eru sammála um. Aftur á móti vekur það sérstaka athygli, að í yfirlýsingunni virðist ekki minnst á það einu orði, hvernig á málum skuli haldið, þegar bráðabirgðasamkomulagið við Breta fellur niður. Þar er ekki að finna neitt fyrirheit um það, að ekki skuli gerður nýr samningur við Breta, svo sjálfsagt sem það virðist, að því sé nú slegið föstu, að frekari samningar við erlenda aðila, Breta eða aðrar þjóðir, um veiðar innan 50 mílna markanna verði ekki gerðir. Vera má, að tímafrekar deilur um ráðherrastóla hafi hindrað samninganefndir þessara tveggja flokka í að hugleiða til fulls þetta mikla hagsmunamál þjóðarinnar og móta þar sameiginlega stefnu. En óneitanlega hlýtur þögn yfirlýsingarinnar í þessum efnum að ýta undir þann ugg, að nú verði aftur horfið frá hinni djörfu og markvissu stefnu í landhelgismálinu, sem mótuð var í tíð fyrri stjórnar.

Um utanríkismálin er fátt eitt sagt í þessari yfirlýsingu, sem hönd á festir, en það sem það er, virðist fyrst og fremst í anda Sjálfstfl. og stefnu þeirra, sem aðhyllast varanlega hersetu. Fyrir um það bil 5 mánuðum sendi hæstv. utanrrh., Einar Ágústsson, Bandaríkjamönnum till. sínar og fyrri stjórnar, í herstöðvamálinu. Bandaríkjastjórn hefur orðið nokkuð sein til svars, að ekki sé meira sagt. og hefur enn ekki látið svo lítið að svara. Nú er hæstv. utanrrh. allt í einu kominn á annað skip, með öðru föruneyti og hefur vent kvæði sínu í kross. Líklega verður það hans fyrsta verk, svo ánægjulegt sem það er fyrir hæstv. ráðh., að biðja Bandaríkjastjórn að senda sér till. aftur með fyrstu ferð.

Sá, sem leitar að efnahagsstefnu í yfirlýsingu hinnar nýju stjórnar, fer í geitahús að leita ullar. Þar virðist ekkert sagt, sem máli skiptir og talist getur nýmæli. En eins og við heyrðum hér áðan, er á það minnst í nokkrum óljósum orðum, að gera þurfi ráðstafanir, sem ekki þola neina bið og framkvæmdar skulu þegar í stað. Ráðstafanirnar sjálfar voru hins vegar ekki nefndar á nafn, hvaða skýring sem kann að vera á því. Þjóðin hefur þó lengi haft rökstuddan grun um, hverjar þessar ráðstafanir eru. Sá, sem lesið hefur dagblöðin Vísi og Morgunblaðið undanfarna mánuði, þarf ekki að vera í vafa um, hvað Sjálfstfl. ætlast fyrir í efnahagsmálum. Mánuðum saman hafa vandamál efnahagslífsins verið ýkt á hinn tröllslegasta hátt. Reynt hefur verið með kerfisbundnum áróðri að telja fólki trú um, að þjóðin sé orðin gjaldþrota og nánast að drukkna í sukki og fjárhagslegum ólifnaði. Í hvaða tilgangi eru allar þessar ýkjur á borð bornar? Tilgangurinn er augljós. Þær eru fyrst og fremst ætlaðar til að réttlæta og undirbúa fólk undir miklu harkalegri aðgerðir en nokkur þörf er á frá efnahagslegu sjónarmiði.

Í tíð fráfarandi stjórnar hafa almennir launamenn, sjómenn og bændur, fengið stærri hlut í þjóðartekjum en áður var, og þetta hefur að sjálfsögðu orðið á kostnað atvinnurekenda. Það er vissulega vandasamt að stjórna efnahagsmálum þjóðarinnar, þegar leitast er við að viðhalda sem bestum lífskjörum, um leið og séð er til þess, að atvinnulífið haldist í blóma og eflist jafnt og þétt. En þetta hefur tekist í tíð fráfarandi stjórnar. Að vísu hafa ýmsir atvinnurekendur kvartað og kveinað sáran, enda er enginn búmaður, sem ekki kann að berja sér. En við skulum ekki láta okkur til hugar koma, að unnt sé að varðveita þolanleg lífskjör á Íslandi, ef hverju sinni er hlaupið eftir ýtrustu kröfum atvinnurekenda um arðsemi fyrirtækja.

Atvinnureksturinn þarf ekki síður aðhald en aðrir þættir efnahagslífsins. Árangurinn hefur hins vegar orðið sá, að lífskjör hér á landi hafa loksins í tíð fyrri ríkisstj. orðið sambærileg við það, sem í nálægum löndum. Ísland er ekki lengur láglaunasvæði, þar sem fólksflótti og atvinnuleysi herja. En jafnframt hefur ríkt betri vinnufriður í landinu s.l. 3 ár en verið hefur um mjög langt skeið.

Nú eru blikur á lofti enn á ný. Sjálfstfl. er aftur kominn til valda og efnahagsleg kolsteypa í aðsigi. Peningaöfl þjóðfélagsins eru staðráðin í því að rétta hlut og breyta nú aftur tekjuskiptingu þjóðfélagsins sér í vil. Þess vegna er nú gripíð til þess ráðs að draga upp þessa ýktu mynd af ástandi efnahagsmálanna. Eða hvað skyldi vera hæft í öllum þessum staðhæfingum, að atvinnurekstur sé dauðvona, ríkissjóður á hausnum og þjóðin gjaldþrota, eins og eitt af málgögnum Sjálfstfl. fullyrti í forustugrein fyrir fáum dögum? Skyldu ekki vera fleiri en vinstri menn, sem eiga erfitt með að kyngja svo hráum áróðursblekkingum?

Staðreyndin er að sjálfsögðu sú, að vandamálin eru síst stærri eða fleiri en oft áður. Þjóðin hefur aldrei haft í höndum jafnafkastamikil framleiðslutæki og einmitt nú. Átvinnuleysi er nánast ekki til, og allt framleiðslukerfið er í eins röskum gangi og hugsast getur. Þjóðartekjur Íslendinga, reiknaðar í dollurum, eru nú þrefalt meiri en þær voru árið 1970. Ástandið í atvinnu- og efnahagsmálum er því raunverulega mjög gott, þegar á allt er lítið.

En eru þá engin vandamál á ferðinni? Er þá allt í besta lagi í efnahagslífi þjóðarinnar? Nei, vissulega ekki. Því hefur enginn haldið fram. Við Alþb.- menn höfum hiklaust tekið undir það, að í efnahagsmálum sé við ýmsan vanda að etja. Þessi vandamál verður að sjálfsögðu að leysa. Við höfum verið reiðubúnir að taka þátt í lausn vandans og bent á skynsamlegar leiðir til þess. Efnahagsvandamál á Íslandi er ekkert það, sem snögglega hefur fallið af himnum ofan og kemur öllum á óvart. Sérhver Íslendingur, sem kominn er til vits og ára og sæmilega fylgist með, veit, að á hverju ári um áratugaskeið hefur þurft að gera nokkrar efnahagsráðstafanir. En nú hefur svo óvenjulega staðið á í meira en heilt ár, að ekki hefur verið fáanlegur nauðsynlegur meiri hluti í báðum deildum þingsins til að koma í gegn lagafrumvörpum um efnahagsmál. Fráfarandi stjórnarandstaða Sjálfstfl. og Alþfl. lagði metnað sinn í það að vera á móti öllum tilraunum fyrri stjórnar til að koma á jafnvægi í efnahagsmálum, og því er nú margt úr lagi gengið, sem vanda veldur. En aðgerðir í efnahagsmálum geta að sjálfsögðu verið gjörólíkar eftir því, hvernig á er haldið. Það er vissulega þörf á auknu aðhaldi í fjármálum þjóðarinnar. Það verður að draga úr hinni gegndarlausu gjaldeyriseyðslu og auka almennan sparnað. En það er hrein blekking og ekkert annað, að nú sé þörf á því að sökkva launafólki í landinu niður á annað og verra lífskjarastig með efnahagslegri kollsteypu og öðrum þeim aðferðum, sem þjóðin þekkir vel frá fyrri tíð. Með því er vísvitandi stefnt að því að kollvarpa núverandi tekjuskiptingu í þjóðfélaginu og kalla yfir þjóðina nýtt og háskalegt ófriðartímabil á vinnumarkaðinum. Ríkisstjórn, sem setur sér að fyrsta takmarki að heyja styrjöld við lágtekjufólk og stéttasamtökin í landinu, eins og virðist vera um þá ríkisstj., sem hér er að taka við völdum, enda þótt það hafi enn ekki komið nægilega skýrlega fram, slík ríkisstj., ef svo reynist sem marga grunar, veður beint af augum út í ófæruna, og hætt er við, að það ferðalag geti orðið þjóðinni nokkuð dýrt.

Herra forseti. Alþingiskosningunum í sumar lauk með jafntefli stjórnar og stjórnarandstöðu. Það var von okkar Alþb.- manna, að ósigur Alþfl. í þessum kosningum hefði kennt forustumönnum hans, hversu háskalegt er fyrir Alþfl. að standa gegn vinstri stjórn. Og svo mikið er víst, að Alþfl: menn um land allt óskuðu þess af heilum hug, að flokkurinn gengi nú til vinstra samstarfs. En forustan reyndist mjög treg að breyta til, og er þó ekki víst, hvað ofan á hefði orðið, ef nægur tími hefði gefist til þess að koma saman endurnýjaðri vinstri stjórn. Hefði þurft meiri þolinmæði og einbeittari vilja af hálfu fráfarandi forsrh. Að okkar dómi hætti hann við hálfnað verk. En hvað um það, þetta er liðin tíð og heyrir sögunni til. Hin sterku öfl innan Framsfl. og utan, sem unnið hafa að því, allt frá því að úrslít kosninganna lágu fyrir, að grafa undan samstarfi á vinstri væng í þeim tilgangi, að flokkurinn myndaði stjórn með Sjálfstfl., fagna nú loksins langþráðum sigri.

Alþb. styður ekki þessa ríkisstjórn. Flokkurinn mun að sjálfsögðu taka afstöðu til mála hér á þingi eftir efni þeirra og eðli og fagna því, sem vel er gert. En það er skoðun okkar, að yfirlýst stefna, að því leyti sem hún er komin í ljós, sé í mikilvægum atriðum hættuleg og röng, og við lýsum því yfir andstöðu okkar við þessa nýju ríkisstjórn.