19.12.1974
Neðri deild: 30. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1174 í B-deild Alþingistíðinda. (1001)

4. mál, ráðstafanir í sjávarútvegi

Frsm. meiri hl. (Sverrir Hermannsson):

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins áður en ég vik að einstökum þáttum, sem fram hafa komið í umr., benda á að það er prentvilla í brtt. meiri hl. n. á þskj. 190. Það er 3. brtt. undir e-lið, þar á að standa: Til að verðbæta lífeyrisgreiðslur aldraðra, sem fá greiddan lífeyri úr lífeyrissjóðum sjómanna 15 millj. kr., en ekki lífeyrissjóði, þeir eru fleiri en einn lífeyrissjóðir sjómanna.

Það væri auðvitað ástæða til þess að ræða allítarlega ýmis þau atriði sem hér hafa komið fram í máli hv. stjórnarandstæðinga, en með tilliti til þess að tími er mjög af skornum skammti skal ég reyna að stytta mál mitt. Það hefur komið fram hjá hv. minni hl. sjútvn., að þeir hafa gagnrýnt þau vinnubrögð, sem viðhöfð hafa verið í máli þessu, og eins hv. 2. þm. Austf., Lúðvík Jósepsson, síðasti ræðumaður. Þeir hafa kvartað undan því, hv. minnihlutamenn, að þeir hafi ekki haft nægan tíma til þess að fjalla um málið, en fyrir liggur þó, að þetta er 4. mál þingsins, sem lagt er fram. Ástæðurnar fyrir því, að nú er þröngt um tíma á síðustu dögum fyrir jólahlé, eru þær, að allan þennan tíma hefur þetta flókna og viðamikla mál verið í ítarlegri rannsókn, sér í lagi á vegum þess rn. sem um það fjallar. Og alveg sérstaka áherslu ber að leggja á það, að þær nauðsynlegu skýrslur, sem leggja þarf til grundvallar um alla skipan málanna og þ. á m. setningu þeirra reglna, sem eftir verður að fara og eftir verður farið við ráðstöfun gengishagnaðarins, hafa borist mjög treglega þrátt fyrir ítrekaðar auglýsingar þar um. Og enn er svo, að skortir mjög á um að fullnægjandi skil hafi verið gerð. Því var það sérstaklega tekið fram í framsögu minni hér í gær, að menn mættu gera ráð fyrir því að þeir yrðu afskiptir um fjárhagsaðstoð eða lánveitingar í þessu efni, ef þeir brygðu nú eigi skjótt við og gerðu fullnægjandi skil, reikningsskil til viðskiptabanka sinna eða skýrslugerð fyrir Aflatryggingasjóð.

Ég þykist vita, að hv. 2. þm. Austf. geri sér fulla grein fyrir því, hversu viðamikið mál þetta er. Það er ekki vegna þess að menn hafi viljað slá slöku við um framgang málsins, heldur einvörðungu vegna þess að tíminn hefur samt eigi reynst frá byrjun nóv. drýgri en þetta til þess að safna þeim gögnum, sem alveg eru nauðsynleg til þess að skynsamlegur grundvöllur verði fundinn.

Það má segja að gagnrýni sú, sem fram hefur komið frá hv. stjórnarandstæðingum, hafi aðallega verið tvenns konar. Í fyrsta lagi telja þeir, að hér sé um árás á samningsrétt sjómannastéttarinnar að tefla og um verulega skerðingu á kjörum þeirra. Og í öðru lagi er gagnrýnd af þeim sú tilhögun, sem gert er ráð fyrir að verði víðhöfð um ráðstöfun gengishagnaðarsjóðsins, þær reglur sem gert er ráð fyrir að eftir verði farið. Ég þóttist gera nokkra grein fyrir þeim. Að vísu er sá rammi nokkuð rúmur, það skal ég játa, og ástæðurnar fyrir því eru þær, eins og ég tók fram, að enn hafa eigi borist nægilegar upplýsingar til þess að menn geti nákvæmlega lagt það niður fyrir sér, með hvaða hætti að skuli standa. En þó eru þær allar með þeim hætti, það glöggur rammi um þetta, að ástæðulaust er þess vegna að gera sér það upp að mönnum sé með öllu óljóst með hvaða hætti í höfuðdráttum öllum eigi að standa að þessari ráðstöfun.

Um brtt. minni hl. er þetta að segja, að þar er lagt til fyrst að 1.–4. gr. frv. verði felldar. Ég veit að ég þarf ekki sérstaklega að gera hv. 2.

þm. Austf. grein fyrir því hvað raunverulega skeður þegar skráð er nýtt gengi. Nýtt gengi var nú skráð til þess að leiðrétta það að gengið var löngu fallið, og þessar ráðstafanir og gengisskráningin eru einkum og sér í lagi gerð vegna höfuðatvinnuvegar okkar, sjávarútvegsins. Ekki þarf heldur að gera honum grein fyrir ástæðum sjávarútvegsins eins og þær eru og hvernig þeim var komið þegar hann skildi við í sínu embætti. Og ég verð að segja það, að miðað við þá miklu reynslu, sem hv. þm. hefur í útgerðarmálum, og hinn mikla áhuga, sem ég veit að hann hefur á þeim málum, að ég undraðist hversu slaklega honum tókst að standa að þessum málum í sinni fyrrv. ráðherratíð. Og þótt mikið sé sagt, þá má jafnvel segja, að þegar upp var staðið, þá hafi hann ekki staðið upp frá öðru en sviknum loforðum. Þar á ég við um að finna einhvern rekstrargrundvöll fyrir útveginn í landinu. Hann setti á stofn nefnd eftir nefnd til þess að rannsaka og reyna að finna rekstrargrundvöll, t.d. fyrir togaraflotann nýja. Það var beðið um skýrslur eftir skýrslur, en allt kom í einn stað niður. Og það mætti segja mér, að hann hafi gert sér það glögga grein fyrir hinum hörmulegu ástæðum þessara mála á sumardögum, þegar stjórnarmyndunartilraunir fóru fram, að hann hafi ekki haft sérstaka löngun til þess að setjast í þennan stól á nýjan leik, enda lék hann að önglum og í færum í Vopnafirði norður meðan vinstristjórnarhrófatildrið brann.

Það skal ekki dregin dul á það, að að nokkru er um skert kjör sjómannastéttarinnar að tefla, sem fylgir í kjölfar þessa frv. Það liggur alveg ljóst fyrir, að um skert kjör allrar þjóðarinnar er að tefla, eins og ástæður hennar eru í dag efnahagslega. Vitnað var til þess hér, að ég hefði tekið fram í ræðu, haldinni á sjómannadaginn, að ég teldi fráleitt að ætla að finna rekstrargrundvöll togaraflotans með því að skerða hlut sjómannanna. Það er rétt, ég tel ekki, að rekstrargrundvöllur togaraflotans verði fundinn með því arna, enda hefur hann ekki verið fundinn enn. Hér er í raun og veru um byrjunarskref að ræða, sem stigin eru til þess að nálgast einhverja lausn á þeim málum, en þó fjarri lagi að sá grundvöllur sé fundinn.

En hvað er það, sem hv. minnihlutamenn leggja til og hv. fyrrv. sjútvrh. tekur undir? Það er t.d. það að enginn olíusjóður skuli myndast, engar greiðslur skuli vera í olíusjóð, eins og gert er ráð fyrir samkv. a-lið 4. gr. Hvað mundi þetta þýða? Mundi þetta verða til þess að bæta kjör sjómannastéttarinnar? Nú liggur alveg ljóst fyrir, að talið er að verðmætisaukning frá hráefninu og til þess að vera fullunnar útflutningsafurðir er talin vera fjórföld til fimmföld. Ef við gerum ráð fyrir fjórföldun, þá er ljóst, að þessar greiðslur í olíusjóðinn eru aðeins að 1/4 hluta af hráefnisverðinu. Hvað mundu þær verða ef enginn olíusjóður væri myndaður? Ég geri ráð fyrir, að hv. þm. sé það alveg ljóst, að þá mundi útgerðin borga það allt saman, og þá er hætt við, að kjör sjómannanna mundu skerðast, og liggur fyrir, að kjör sjómannanna mundu skerðast miklu meir en þó með þessari aðferð. Hv. 8. landsk. gagnrýndi það, að það væri hærra útflutningsgjald í olíusjóð af saltfiski og skreið.

Og hann þóttist reyna að sanna sitt mál með því að lesa upp úr bréfi frá Sambandi ísl. fiskframleiðenda. Þar kom að því að hann eignaðist hauk í horni til þess að sanna sitt mál. Staðreyndin er hins vegar sú, að þessi grein fiskvinnslu hefur setið við allt annað og betra borð heldur en aðrar greinar framleiðslunnar í landinu, útflutningsframleiðslunnar. Að vísu eru ýmsar blikur á lofti og ástandið hefur versnað. En hann benti á, að það ætti að vera heimild til þess að minnka þetta, ef ástandið versnaði enn að þessu leyti. Þá má auðvitað segja það: Hvers vegna ætti ekki að vera heimild til þess að fella þetta niður á öðru? — því að enn getur þetta versnað í þeim efnum líka, svo að þessi málflutningur er að sínu leyti út í hött.

Það er alveg ljóst, að eins og ástæður eru nú hjá útveginum og fiskvinnslunni, þá ber hina brýnustu nauðsyn til þess að hægt verði þegar í stað að hefja greiðslur úr gengishagnaðarsjóði til þess að ekki dragi til rekstrarstöðvunar hjá svo og svo mörgum aðilum.

Í sambandi við gagnrýni, sem fram hefur komið um skiptingarreglurnar, tók ég það fram í framsögu minni fyrir málinu í gær, að þar væri að finna framkvæmdaramma sér í lagi vegna 9. gr. frv., sem samkomulag hafði náðst um milli sjútvn. og sjútvrn. Það færi allt of langur tími í það hér að lesa þær reglur upp á nýjan leik. Það hefði kannske verið æskilegra að sá rammi hefði verið enn þrengri, en samt er hann þann veg sniðinn að ástæðulaust er með öllu að halda því fram, að hér sé sjútvrn. sjálfu gefið eitthvert sjálfsvald um það hvernig þessi ráðstöfun muni fara fram. Enn fremur vil ég benda á það, að hæstv. sjútvrh. lýsti því yfir, að um alla meðferð málsins yrði haft náið samráð víð ríkisstj. alla. Ég hygg að það hafi verið hv. 8. landsk., sem talaði um að Alþ. hefði átt að hafa áfram með höndum úthlutun þessa fjár t.d. og síðan einhverjir sjóðir, eins og fram kom hjá hv. 2. þm. Austf. En ég vil benda á það, að ríkisstj. fer með framkvæmdavaldið í landinu og ráðh. eru ábyrgir gagnvart Alþ., þannig að ég get ekki séð að það sé nein ástæða til þess að vantreysta frekar málinu í höndum þeirra en hjá einhverjum opinberum sjóðum, án þess að ég sé með neitt vantraust í þeirra garð. Ég tel að mál. sem er í höndum ráðh., sé vissulega í höndum Alþ. áfram, þar sem hann er ábyrgur gagnvart því.

Það kom fram í þeim skýringum, sem ég gaf og lagðar verða til grundvallar því hvernig að þessu skuli staðið, hvernig þetta verður í raun, ekki að vísu í smáatriðum, því að það hefur ekki verið hægt að ákveða enn, en nægjanlega skýrt til þess að menn hafi heildarmynd af því.

Í máli hv. 2. þm. Austf. bar hann fram ýmsar spurningar, t.d. þá, hvernig menn hugsuðu sér að bátaflotinn eða þeir aðilar, sem lána á 400 millj. til skamms tíma, 2–3 ára, yrðu í færum um að endurgreiða það eftir 2–3 ár og með hvaða hætti ætti að tryggja það. Það verður auðvitað að játast eins og er, að þetta yrði kannske meiri vonarpeningur. Það kann vel að vera að mál skipist þannig. Þó færi betur að svo yrði ekki, að erfitt verði um endurgreiðslu. En á það verður að reyna. Vonandi koma betri tímar nú til handa þessum atvinnuvegi, og þá er sjálfsagt, eins og hér er gert ráð fyrir, að þetta fé verði endurgreitt, ef þess er kostur að fá það endurgreitt.

Ég tók skýrt fram í framsögu minni, þar sem ég gerði grein fyrir þeim reglum sem þegar er áformað að setja um þetta, að það væru reglurnar sem yrðu lagðar til grundvallar, þannig að það er ástæðulaust að halda því fram að þetta hafi ekki gildi um framkvæmdina í sjálfu sér, rétt eins og grg. getur haft með lögum, og þótti ekki eðlilegt eða ástæða til að feila allar þessar reglur inn í lögin sjálf.

Það voru ýmsar spurningar, sem hv. 2. þm. Austf. lagði hér fram, t.d. eins og það, hvort loðnuskip væru með í þessu og rækju- og humarskip, og ég hygg að það hafi ekki verið fleiri. En eftir því sem mér er best kunnugt um, þá hefur ekki verið gert ráð fyrir því varðandi þessar 250 millj., sem þarna er átt við, að þessi skip væru þar með eða það úthald sem þau hafa haft.

Varðandi stærðargráðuna, þá var fyrst miðað við að það yrðu 20 smálestir minnstu skipin og miðað við 40 smál. afla á hvoru úthaldi frá 1. jan. til 15. maí og síðan frá 15. maí til 15. sept. En með tilliti til þess að sanngjarnt væri, að minni skip, allt að 12 lestir, gætu átt rétt til aðstoðar, þá var þessu breytt, og því var breytt í samkomulagi milli n. og sjútvrn. Um það hvort öll skip, allt ofan í smæstu trillur, ættu þarna að vera með, það leyfi ég mér að draga í efa að sé framkvæmanlegt í sjálfu sér, en vil þó ekki leggja neinn endanlegan dóm á það. En þetta varð þó niðurstaðan eftir vangaveltur í þessu efni. Trillum og smærri bátum en þetta er ekki haldið úti nema e.t.v. örskamman tíma á ári og þá til handfæraveiða t.d. mest. Ég er ekki fær um að dæma um þetta atriði sérstaklega, en það varð niðurstaðan að það væri ófært að hafa ekki lágmarksviðmiðun í þessu, og þess vegna var þessi 12 smálesta tala valin.

Ég verð að segja það varðandi þessa gagnrýni, sem fram hefur komið, að ég held að það sé ástæðulaust vantraust, sem hv. stjórnarandstæðingar hafa hér í frammi, vegna þess að þetta verði meira og minna á snærum sjútvrn. sjálfs, ráðstöfun á þessum gengishagnaði sem hér um ræðir. Það er alveg ljóst, að bæði verður þetta í höndum sjóða eins og Aflatryggingasjóðs, og vitað er eftir hvaða reglum hann fer, og eins að því leyti sem þetta verður beint í höndum sjútvrn. sjálfs, þá verður ljóst að það mun fara eftir þeim reglum sem hafa eftir reynslunni um árin sýnt sig vera eðlilegar og þær réttlátustu. Ég vil leggja áherslu á það, að ég þykist þekkja það vel til bæði í hópi þessarar stéttar og eins um málefni hennar, að það verði erfitt að setja þær reglur sem ekki væri hægt að sýna fram á að væru í einhverju óréttlátar, þó alveg sér í lagi að þeir, sem stéttina skipa, mundu ekki telja að væri meir og minna ranglátar.

Fjölmargt annað kom fram, sem auðvitað hefði verið ástæða til þess að fjalla um. Það var gagnrýnt að ætlaðar eru um 50 millj. til handa fiskmjölsverksmiðjum. Það liggur þó fyrir að þær hafa orðið sannanlega fyrir gífurlegum áföllum á þessu ári. Ég held að það verði ekki um það deilt. Og það er vegna þeirra áfalla sem þetta er áformað og gert er ráð fyrir að til þeirra verði veittar 50 millj. kr. Ég hef ekki hér í höndunum niðurstöður af reikningsskilum þeirra, en mér er fullkunnugt um að þau áföll, sem þær hafa legið undir á þessu ári, eru gífurlega mikil og þess vegna fullkomin ástæða til þess á þessum miklu þrengingatímum að gera þeim einnig úrlausn.

Þetta eru tvö atriði, eins og ég segi, sem gagnrýnd hafa verið og bitastæð eru. Það er um það að hér sé um skerðingu á kjörum sjómannastéttarinnar að tefla og svo einnig um það að hann sé óljós og að engu hafandi, sá rammi sem settur er ráðstöfunina varðandi.

Svo að ég víki aðeins að því aftur um hin skertu kjör, þá vil ég nú minna á það, og það hefur verið minnt á það áður að sjómannastéttin hefði ekki fengið fram eftir öllu ári neinar launabætur þrátt fyrir hinar gífurlegu launahækkanir, sem urðu í febr. s.l. Ég vil minna á það, að vissulega áttu sjómenn rétt á hækkuðu fiskverði miklu fyrr en gert var með þessum lögum. En hver var sá sem stöðvaði það? Hver ákvað með lögum um viðnám gegn verðbólgu að engin fiskverðshækkun skyldi verða? Það var hæstv. fyrrv. ríkisstj., og frumkvæðið um þetta atriði hlýtur hv. 2. þm. Austf., Lúðvík Jósepsson, að hafa haft, þannig að það er holhljómur í málflutningi þessara hv. stjórnarandstæðinga í þessu efni. Það er verið með gengisfellingunni eða hinni nýju gengisskráningu og réttu gengisskráningu, því að hún var orðin röng áður, með henni og þessum ráðstöfunum er verið að vinna öfluglega að því að rétta við þennan aðalundirstöðuatvinnuveg íslensku þjóðarinnar. Samt sem áður leyfa þeir sér að leggja til að meginefni þess frv., sem liggur til þessa máls, verði fellt. Slíkur málflutningur dæmir sig sjálfur. En með tilliti til þess, þótt mjög margt hafi komið fram sem ástæða væri til að orðfæra, — með tilliti til þess að hér er um knappan tíma að ræða, sem ég vænti að aðrir taki einnig tillit til, þá læt ég nú lokið máli mínu.

Tómas Árnason: Virðulegi forseti. Það styttist nú óðum starfstími Alþingis fyrir jólaleyfi. Með tilliti til þess að mörgum málum þarf að hraða, sem nauðsyn her til að verði afgreidd, skal ég láta nægja hér örfá orð um þetta mál. þó að vissulega væri ástæða til að ræða í þaula mörg smærri atriði málsins.

Það má lengi deila um það, hvernig á að skipta gengishagnaðinum. Hér er um að ræða 1650 millj. kr. að því er menn ætla, og það eru um 400–600 fiskiskip sem væntanlega koma til með að eiga kröfu um hlutdeild í sjóðnum. Það er því mikið vandaverk og þarf að taka tillit til margs, þegar þessari upphæð er deilt niður. En það, sem ég vildi sérstaklega víkja að hér, er að gefnu tilefni. Hv. 2. þm. Austurl. gerði að umræðuefni í talsvert löngu máli, framkvæmd málsins. Ég vil vekja athygli á því, sem kemur fram í nál. sjútvn. á þskj. 189, þar sem segir um það atriði svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Við meðferð málsins hefur náðst samkomulag við sjútvrn. um meðferð ýmissa þátta og mun þess sérstaklega getið í framsögu.“

Ég veit ekki hvort það hefur farið fram hjá hv. 2. þm. Austurl. við 1. umr. málsins, að hæstv. sjútvrh. gaf alveg sérstaka yfirlýsingu varðandi þetta atriði. Þessi yfirlýsing var nálægt því að vera á þá leið: Allar reglur, sem settar kunni að verða um ráðstöfun gengishagnaðar, verði settar í fullu samráði við ríkisstj. og formenn sjútvn. Alþ. eða þeirra fulltrúa, sem þær fela að fara með málið fyrir sig.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem gengishagnaði er ráðstafað,og áður mun það hafa verið þannig í lögum að það hafi sérstaklega verið tilgreint að ríkisstj. fjallaði um það mál. En ég tel að þessi yfirlýsing hæstv. sjútvrh. jafngildi fyllilega því ákvæði, vegna þess að þetta snertir framkvæmd málsins, og ég tel að eftir þessa yfirlýsingu sé hann búinn að skuldbinda sig til þess að með málið verði farið í framkvæmd á þann veg, að höfð verði full samráð við ríkisstj. alla, og enn fremur, sem áður hefur þó ekki verið gert, höfð samráð við formenn sjútvn, beggja þd. eða fulltrúa sem n. tilnefna. Ég get því ekki verið sammála hv. 2 þm. Austurl. um að ráðh. hafi hér óbundnar hendur í sambandi við framkvæmd málsins.

Það er mjög þýðingarmikið atriði í sambandi við þetta mál að það nái sem fyrst fram að ganga, til þess að unnt sé að ráðstafa greiðslum úr gengishagnaðarsjóðnum hið fyrsta. Tíminn er raunverulega að hlaupa frá mönnum í þessu efni. Meginmálið er auðvitað það, að ástand sjávarútvegsins, rekstrargrundvöllur sjávarútvegsins er með þeim hætti um þessar mundir, eins og öllum er kunnugt, að það liggur við stöðvun. Það er sá alvarlegi þáttur í þessu máli.

Það væri freistandi að gera að umræðuefni Aflatryggingasjóðinn, vegna þess að hann kemur hér dálitið við sögu, en ég mun ekki gera það að þessu sinni að öðru leyti en því, að ég er á þeirri skoðun að það þurfi að endurskoða lög og reglur um Aflatryggingasjóð og vildi benda á í þessu sambandi hvort ekki kæmi til greina að setja sérstaklega til þess mþn., því að það er mjög vandasamt verk. Ég legg áherslu á að endurskoða þurfi lög um Aflatryggingasjóð og reglur sem gilda um starfsemi hans.