19.12.1974
Neðri deild: 30. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1181 í B-deild Alþingistíðinda. (1004)

4. mál, ráðstafanir í sjávarútvegi

Frsm. minni hl. (Garðar Sigurðsson):

Virðulegi forseti. Ég skal hafa þetta stutt að þessu sinni og ekki verða til þess að tefja fyrir afgreiðslu málsins.

Það er að mínum dómi varla hægt að komast hjá því að fara nokkrum orðum um málflutning hv. þm. Sverris Hermannssonar þegar hann þykist vera í ræðu sinni nú áðan að finna að tillögugerð okkar stjórnarandstæðinga og þykist vera að taka till. í gegn lið fyrir lið. Svo þykist þessi hv. þm. vera þess umkominn að tala um að það sé holhljómur í okkar rökstuðningi. Það er alveg furðulegt að maðurinn skuli leyfa sér að láta slíkt út úr sér þar sem af ræðu hans varð ljóst að hann hrakti ekki rök okkar að nokkru einasta leyti og fór í kringum aðalatriðin eins og köttur kringum heitan graut.

Þar er fyrst til að taka að hv. þm. Sverrir Hermannsson gagnrýndi það, að við í minni hl. n. höfðum fundið að því að við hefðum ekki haft nægan tíma til þess að rannsaka málið, það hefði nú heldur betur verið nægur tími, þetta væri aðeins 4. mál þingsins og lagt fram í upphafi þings. Sannleikurinn er hins vegar sá að það lágu engar útskýringar fyrir frá rn. hálfu fyrr en á allra síðustu dögum þingsins og síðan á að pressa þetta í gegn skýringarlaust á nokkrum klukkutímum.

Hv. þm. sagði sjálfur að það hefði ekki verið hægt að fá nánari upplýsingar um þetta fyrr en svona seint vegna þess að málið hefði allan tímann verið í rannsókn hjá rn., og hann staðfesti það einnig sem ég hélt fram hér í ræðu minni í gær, að setningu reglna um úthlutun gengishagnaðarsjóðs væri ekki lokið. En samt á Alþ. að samþykkja þetta án þess að vita nokkuð hvað þetta þýðir nema rétt í höfuðatriðum.

Hv. þm. Sverrir Hermannsson var mikið hneykslaður á því að minni hl. hv. sjútvn. hefði lagt til, að l., 2., 3. og 4. gr. frv. væru felldar niður. Þessar gr. allar hafa það sameiginlegt, að þær eru bein árás á kjör sjómannastéttarinnar. Í 1. gr. er fiskverðið bundið, í 2. og 3. gr. er tekið af óskiptum afla og það þýðir bæði, að kjör sjómanna eru rýrð stórkostlega og kaup þeirra bókstaflega lækkað í krónutölu, og eru auk þess bein árás á frjálsa samningagerð stéttarfélaga. Það er þetta sem hann, þessi hv. þm. og togaraeigandi, er svo hneykslaður yfir.

Varðandi úthlutun gengishagnaðarsjóðsin~s þá þóttist hann hafa gert skýra grein í sinni framsöguræðu fyrir því hvernig úthluta ætti sjóðnum. Ég er alveg viss um að það hefur enginn hv. þm. getaá lesið nokkuð slíkt út úr hans ræðu. Hann nefndi það að ramminn, sem kæmi í till. sjútvrn., væri rúmur og hann væri jafnvel glöggur. En ég sé ekki betur en þessi rammi sé eingöngu utan um hæstv. sjútvrh. sem á að fá að úthluta þessu fé upp á milljarða kr. upp á eindæmi. (Gripið fram í.) Ég er alveg víss um það að hæstv. forseti mun gefa hæstv. sjútvrh. orðið á eftir ef hann vildi gera svo vel að leyfa öðrum óbreyttum þm. að tala augnablik ótrufluðum.

Hv. þm. Sverrir Hermannsson lýsti því sem ánægjulegri lausn og traustvekjandi að hæstv. ráðh. mundi hafa samráð við aðra ráðh. um setningu reglnanna, og hann talaði margoft um það í sinni ræðu að það hefði verið samkomulag milli n. og sjútvrn. í ýmsum málum. Ég neita þessu alfarið. Það hefur verið samkomulag milli stjórnarliða í n. við rn. kannske og þó ekki alla, gæti ég trúað. En við höfum aldrei gert neitt samkomulag í þessum efnum við rn. á neinn hátt.

Við í minni hl. n. vorum ákaflega (Gripið fram í.) — já, við vorum bæði hógværir og skynsamir í okkar tillögugerð, það er rétt ábending hjá hv.þm. Pétri Sigurðssyni. En við vildum hafa fyrirvara á því, hvernig ráðh. ætti að útbýta í lánum 400 millj. af þeim 600 sem getur um í a-líð. Það er eitt af því sem ráðh. og rn. á að hafa algerlega í sínum höndum. Við lögðum til í okkar till. að Fiskveiðasjóður setti um þetta reglugerð, sem ráðh. síðan staðfesti, og jafnframt að öruggar tryggingar yrðu settar fyrir þessu, en það væri ekki undir hælinn lagt hvort þeir peningar skiluðu sér á þann stað sem þeir eiga endanlega að fara. Hv. þm. sagði að peningarnir yrðu endurgreiddir ef þess væri nokkur kostur.

Hv. þm. Sverrir Hermannsson var í rauninni alveg orðinn ánægður með málið í heild þegar hann sá að framlagið til skuttogaranna var komið í höfn. En hann þurfti sérstaklega að geta þess, að við hefðum lagt til að þær 50 millj., sem atti að skammta fiskmjölsframleiðendum, yrðu teknar út. Þessir aðilar, eigendur fiskmjölsverksmiðja, hafa grætt stórkostlegt fé mörg undanfarin ár. Þar hafa komið upp mörg feit ár og ár eftir ár en nú á árinu kemur í fyrsta sinn magur tími og þá á að fá óafturkræft framlag frá ríkissjóði upp á marga tugi millj. Hv. þm. sér ekki eftir þessum 50 millj. handa þessum gróðaaðilum, en hann sér eftir því að við í minni hl. n. skulum hafa ætlað að sjómannastéttin fengi að njóta þessara peninga. (Gripið fram í.) Það vissu nú fleiri.

Hv. þm. minntist aftur á fyrstu fjórar gr. og hann samþykkti það og viðurkenndi, að kaup sjómanna og fiskverð hefur ekki hækkað síðan um áramót, og hann lýsti því réttilega að nú væri þessi hækkun bundin við 11%. En hann er alveg jafnánægður með að samþykkja þessar fyrstu fjórar gr., sem hver fyrir sig og allar í senn ráðast að kjörum sjómanna og beinlínis skerða þau geysilega að krónutölu miðað við óbreyttan afla, en ofan á það bætist að afli hefur rýrnað stórkostlega í landinu á tíma bilinu.

Ég vil að lokum vitna í orð hv. 3. þm. Sunnl. þótt ég sé ekki vanur því, en hann sagði í sinni stuttu ræðu hér í gær m. a., að meiri hl. í hv. n. hefði deilt nokkuð um, hvernig ætti að skipta 250 millj. til bátaflotans, og lýsti þá till. Landssambands ísl. útvegsmanna, sem voru þess efnis að helmingur þessarar upphæðar skyldi fara til bátaflotans miðað við úthaldsdaga. Þá lagði hann sérstaka áherslu á það, þessi hv. þm., að það væri nú eins og áður ástæða til þess að taka verulegt tillit til álits Landssambands íslenskra útvegsmanna í þeim málum sem þau samtök snerta. Hv. þm. Pétur Sigurðsson skaut því fram rétt þar á eftir, meðan hv. þm. Sighvatur Björgvinsson var að lesa upp úr áliti Sölusambands ísl. fiskframleiðenda, hvort það mætti ekki lesa upp fleiri umsagnir, hvort það mætti ekki vitna í fleiri umsagnir sem hefðu borist n. Það er rétt að það bárust ekki nema tvær skriflegar umsagnir, frá Sölusambandi ísl. fiskframleiðenda, sem mótmælti hækkun á útflutningsgjaldi, og frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna, en óbeint hafði n. fengið umsagnir frá öllum sjómannasamtökunum, sem mótmæltu þessum liðum, sem ég taldi hér áðan, fyrstu fjórum, mjög harðlega. En í umsögn Landssambands ísl. útvegsmanna kemur þó ýmislegt fram sem ég skal gera hv. þm. og ágætum samstarfsmanni í n. þann greiða að leyfa honum og öðrum hv. þm. að heyra. Það er ekki vist að aðrir hv. þm. hafi haft svo mikinn áhuga á þessu máli að þeir hafi lesið þessar umsagnir.

Landssamband ísl. útvegsmanna mótmælir harðlega lögbindingu fiskverðs. Landssambandið lítur svo á að 11% hækkunin nægi útgerðinni alls ekki, og við og þeir vitum jafnframt að þessi hækkun nægir sjómönnum þaðan af síður. Í öðru lagi segir í umsögn Landssambands ísl. útvegsmanna að það mótmæli harðlega að sjávarútvegurinn beri einhliða kostnað af olíuhækkun. Ég gerði nána grein fyrir þessu í framsöguræðu minni í gær. Við í minni hl. erum alveg sammála þessu. Við mótmælum því harðlega að stórkostlegur hluti af hækkun olíuverðs sé lagður á herðar sjómannanna sem þegar í fyrri gr. frv. hafa fengið nægilega illa meðferð af hæstv. hægri stjórn í landinu.

Og að lokum vil ég leyfa mönnum að heyra það, að Landssamband ísl. útvegsmanna telur augljóst að útflutningsgjöldin komi algerlega í veg fyrir eðlilega fiskverðshækkun. Þetta er ein. mitt nákvæmlega sama og minni hl. n. hefur margsinnis tekið fram.

Ég lofaði að tefja ekki tíma þingsins um of við umr. um þetta mál, en það væri þó sannarlega ástæða til þess að lesa þessum herrum og þó sérstaklega hæstv. ráðh. í gyllta rammanum hans Sverris Hermannssonar pistilinn, þótt ekki væri nema nokkra klukkutíma í viðbót.