19.12.1974
Neðri deild: 30. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1203 í B-deild Alþingistíðinda. (1011)

33. mál, samræmd vinnsla sjávarafla

Guðmundur H. Garðarsson:

Herra forseti. Frv. það, sem hér um ræðir, lætur ekki mikið yfir sér við fyrstu sýn. Ég hef litið þannig á að þm. væru óbundnir þangað til kæmi að atkvgr. í sal, burtséð frá því hvað rætt er um í þingflokkum. Ég hef litið þannig á að þegar frv. eru kynnt, hvort sem er hér í sat eða á þingflokksfundum, þá gæfist þm. tími til umhugsunar og ákvörðunar síðar, eftir því sem þeir hafa getað kynnt sér efni frv. betur og þá e.t.v. öðlast aðra skoðun eða staðfest betur sína fyrri skoðun á því hvaða afstöðu bæri að taka við atkvgr.

Við nánari athugum sést að það frv., sem hér um ræðir, er raunverulega þess efnis að hér er um stórmál að ræða. Það er mjög stefnumarkandi og það getur haft mjög örlagaríkar afleiðingar til hins verra ef það verður samþ. í sinni upprunalegu mynd.

Hv. þm. Austurl., Lúðvík Jósepsson, lýsti hér ágætlega áðan hve slæmar afleiðingar hvað fordæmi snertir það hefði ef umrætt frv. næði fram að ganga. Hv. þm. lýsti vel göllum einokunarkerfisins og einkavinnsluaðstöðu ríkisrekinna fyrirtækja í fiskiðnaði, og þarf ég ekki að tíunda það frekar. Ég vil taka undir orð hans hvað þetta áhrærir og undirstrika að áætlunarbúskapur eða þröngt skipulag og leyfisveitingar eiga sérstaklega illa við í sjávarútvegi og fiskiðnaði. Sjómenn, skipstjórar, útgerðarmenn og fiskframleiðendur verða að hafa fullt athafnafrelsi ef vel á að vera. Það er grundvallarforsenda góðs árangurs í útgerð og fiskiðnaði að svo sé. Margur hefur farið til sjós vegna þess að hann hefur gert sér vonir um að síðar gæti viðkomandi orðið sjálfstæður atvinnurekandi í útgerð og fiskiðnaði, ekki endilega í stórrekstri, heldur í smáum stíl. Þannig hefur útgerð og fiskiðnaður byggst upp á Íslandi, og ég veit að hv. þm. eru sammála mér um að þeir ágætu menn, sem hafa byggt upp okkar sjávarútveg og fiskiðnað með þeim hætti, því frjálsræði sem ríkt hefur, hafa unnið gott starf og þjóðhollt. Ég er hræddur um og sannfærður um að ef möguleikar til takmörkunar á þessu sviði hefðu verið fyrir hendi í lagaformi á svipaðan hátt og það frv. gerir ráð fyrir sem hér er til umr., þá hefði það torveldað mjög alla uppbyggingu sjávarútvegs og fiskiðnaðar og útilokað það að margur hæfur sjómaðurinn, skipstjórinn og útgerðarmaðurinn hefði lagt út á þær brautir sem þeir hafa gert.

Ég get nefnt dæmi um það hvað leyfisveitingar geta haft slæmar afleiðingar, að hér á árunum, þegar einn af íslensku stórútgerðarmönnunum vildi hefja fiskvinnslu hér í Reykjavík, það var á bannárunum eða leyfisveitingaárunum, þá var honum synjað um leyfi fyrir því að reisa frystihús í Reykjavík. Þetta er líklegast eini útgerðarmaðurinn sem hefur hætt atvinnurekstri þannig að segja mætti að hann hafi staðið upp úr. Sá maður, sem hér um ræðir, er Tryggvi Ófeigsson. Þegar hann vildi hefja rekstur hraðfrystihúss í Reykjavík um 1956 og 1957 átti að neita honum um það að mega gera slíkt. Ég held að enginn maður geti haldið því fram með rétti að þessi maður hafi ekki skilað góðum árangri, bæði sem útgerðarmaður og fiskframleiðandi. Hann mun hafa verið einn af þeim fáu sem ekki sóttu styrkinn sinn á sínum tíma og rak sitt fyrirtæki hallalaust. En ef það kerfi sósíalismans, sem hv. 2. þm. Austurl. lýsti sig mjög andvígan hér áðan, hefði verið ráðandi þá hefði sá rekstur ekki hafist með þeim hætti sem til sóma hefur verið fyrir viðkomandi aðila og Reykjavík, og ég tala hér sem þm. Reykv. (Ljós: Veistu, hver veitti honum leyfi til þessi) Ja, mér kæmi það ekki á óvart að það hefði verið hv. 2. þm. Austurl., þáv. sjútvrh. í fyrstu vinstri stjórninni. Það sýnir að eitthvað gott getur komið út úr vinstri stjórnum. En sem sagt, að mínu mati og margra annarra er hér um grundvallaratriði að ræða, þ.e. að ekki séu sett lög sem þrengja athafnasvið manna meir en orðið er í sjávarútvegi og fiskiðnaði.

Ég tek einnig undir það sem sagt var hér áðan, að ámælisvert er að ekki skuli lesnar umsagnir aðila, sem látið hafa í ljós álit sitt í veigamiklu „prinsip“-máli og hér um ræðir. Það ætti raunverulega að vera venja að lesa upp umsagnir. Ekki svo að skilja að hv. þm. þurfi endilega að breyta samkv. þeim umsögnum, sem Upp eru lesnar, það er annað mál. Hins vegar á að gera það hv. þm. til upplýsingar um afstöðu þeirra aðila sem leitað er umsagna til. Það var skýrt frá því að stjórnir Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna og Landssambands ísl. útvegsmanna hefðu lýst sig andvígar þessu frv. vegna þess að það væri mat þessara aðila að þetta stríddi á móti æskilegu athafnafrelsi. Ég er sannfærður um að sú afstaða í þessum umsögnum er rétt, vegna þess að verði athafnasvið manna þrengt með þeim hætti sem hér um ræðir, þá mun án nokkurs vafa verða afturför í útgerð og fiskiðnaði á Íslandi í framtíðinni með þar af leiðandi lífskjaraskerðingu fyrir alla landsmenn. Ég er á móti slíkri þróun. Ég er einnig andvígur því að gefa embættismönnum og stjórnmálamönnum það vald að þessir aðilar ráði algerlega yfir lífi og örlögum manna. Ég ítreka, að í fyrrgreindum umsögnum stærstu samtaka útgerðar og fiskiðnaðar í landinu er lögð áhersla á þá stefnu, að frjálsræði ríki í þessum efnum, svo sem verið hefur hingað til. Ég vil að endingu láta í ljós þá von mína í sambandi við þetta mál, sem er nú komið jafnlangt og raun ber vitni, og ég trúi ekki öðru en hæstv. sjútvrh. og þeir þm., sem hafa tjáð sig fylgjandi frv., endurskoði afstöðu sína til þessa máls eða geri á því þær lagfæringar að meginreglan um athafnafrelsi í sjávarútvegi og fiskiðnaði verði ekki brotin. Haldi málið hins vegar enn áfram óbreytt mun ég greiða atkv. gegn frv.