19.12.1974
Neðri deild: 30. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1204 í B-deild Alþingistíðinda. (1012)

33. mál, samræmd vinnsla sjávarafla

Frsm, minni hl. (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð að þessu sinni. Ég vil aðeins vekja athygli á því að þeir, sem talað hafa í þessu máli, að undanskildum hv. 8. þm. Reykv., sem var frsm. meiri hl. sjútvn., hafa allir mælt gegn samþykkt þessa frv. Við umr. er hæstv. sjútvrh., sem flutti þetta frv., ekki viðstaddur. Við umr. hefur ekki heldur hv. frsm. meiri hl. n. verið viðstaddur. Og það hefur enn enginn tekið til máls víð þessar umr. úr þeim meiri hl. sem styður það að þetta frv. verði samþ.

Það var verið að velta vöngum yfir því hér áðan hvort hér væri um sósíalisma að ræða eða ekki sósíalisma með þessu frv. Ég vil rifja það upp, mönnum meira til gamans heldur en hitt, að svona lagað hefur verið framkvæmt einu sinni áður hér á Íslandi. Mönnum hefur áður verið skipað hvar þeir ættu að selja sínar afurðir og hvert þeir mættu ekki selja þær. Það var með tilskipun sem danskur einveldiskonungur gerði. Hann skipaði mönnum fyrir hvert þeir mættu sigla með afla sinn og hvar þeir mættu selja. Væntanlega held ég að engum manni blandist hugur um það að sá danski einvaldskóngur var ekki að framkvæma sósíalisma með því.

Það er sagt í 1. gr. þessa frv. að sjútvrn. eigi m.a. að hafa á hendi heimild til þess að skipta aflanum milli vinnslustöðva, þ.e.a.s. að fyrirskipa sjómönnum hvar þeir megi selja, þeir megi bara selja afla sinn kaupmanni, ja, faktor eða rækjuverksmiðjueiganda A, en þeir megi alls ekki selja svo mikið sem eina rækju kaupmanni, faktor eða rækjuverksmiðjueiganda B. Þetta er ákaflega svipað og menn þekkja úr Íslandssögunni þegar íslenskir sjómenn máttu selja faktornum hér sinn afla, en ekki faktornum þar. Og ég vil benda mönnum á það til gamans að það er sagt frá einum slíkum manni í þeirri ágætu bók, Íslandsklukkunni, Hólmfasti, að mig minnir Guðmundssyni, sem varð fyrir því óláni að selja tvo fiska röngum kaupmanni. Sennilega hefur hann keypt sér snæri í staðinn. En þessum manni var refsað, eins og gert er ráð fyrir að refsa mönnum í 4. gr. þessa frv., að vísu ekki með því að láta hann greiða sektir, heldur var honum varpað í þrælakistuna fyrir.

Þessi Hólmfastsákvæði virðast eiga að gilda í þessu ágæta frv., því að hér er verið að fara út á sömu braut. Og þá vaknar spurning um það, hvort okkar ágæti einvaldskóngur, hæstv. sjútvrh., vill nú ekki framfylgja Hólmfastsákvæðunum í öllum greinum frv. og gera þá breyt. á 4. gr. að 1. mgr. orðist svo: „Hver sá sem sekur gerist um brot á lögum þessum eða fyrirmælum samkv. þeim skal sæta opinberri flengingu, nema þyngri viðurlögum varði samkv. öðrum lögum.“ Þetta er auðvitað í fullum anda hinna ágætu Hólmfaetsreglna.

Sjálfsagt mun sjútvrh. lýsa því yfir, eins og hann gerði í umr. hér fyrr í dag, að hann muni við framkvæmd málsins hafa mjög náið samstarf við formenn sjútvn. Það er vissulega svo að það eru fáir betur í stakk búnir til slíkra framkvæmda en ágætur form. sjútvn. okkar ágætu d., hv. 8. þm. Reykv., og það verður ekki lítið gaman fyrir okkur alþm., þótt það verði minna gaman fyrir aðra, þegar opinberlega verður auglýst að einhver Hólmfastur norðan, sunnan eða vestan af landi verði tekinn til opinberrar hýðingar af sjútvrn. með aðstoð form. sjútvn. beggja d. hv. Alþ. á þessum eða hinum deginum. Það verður ansi gaman fyrir okkur að vera viðstaddir slíka athöfn, þótt Hólmfasti rækjuveiðisjómanni finnist það kannske minna gaman.