19.12.1974
Efri deild: 33. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1223 í B-deild Alþingistíðinda. (1020)

4. mál, ráðstafanir í sjávarútvegi

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég mun kappkosta að efna fyrirheit sem við gáfum, stjórnarandstæðingar í sjútvn., á fundi í gærkvöld um að tefja ekki afgreiðslu þessa frv., vera stuttorðir. Ég mun jafnvel leggja mig allan fram um að verða enn stuttorðari en hv. síðasti ræðumaður um þetta frv. Svo stuttorður má ég aftur á móti ekki vera að ég láti hjá líða að gera grein fyrir andstöðu minni við frv. þetta og tilorðningu þess og rökstyðja andstöðu mína að nokkru.

Það hefur þegar komið fram við umr. um þetta mál að það væri það 4. málið sem lagt var fram á þingi er það kom saman nú í haust, og ég tek ekki mark á þeim afsökunum sem færðar hafa verið fram fyrir ýmsum ágöllum þess, ég tek ekki mark á þeirri afsökun, að ekki hafi gefist tími til þess að vinna betur að þessu máli. Loðin svör, sem við höfum fengið frá starfsmönnum sjútvrn. við ýmsum mjög svo brennandi spurningum varðandi ýmsa liði frv., hafa verið afgreidd með tíma skorti, skorti á skýrslum og skorti á upplýsingum. Það er liðinn allt að því hálfur mánuður frá því að okkur var fyrst greint frá þessum skorti á upplýsingum af hálfu rn., og í síðasta samtali við þá ágætu menn kemur í ljós að sami skortur er enn í aðalatriðum óhættur. Nú vill ég síður en svo kasta rýrð á þessa ágætu menn, sem hæstv. sjútvrh. hefur sent okkur til uppfræðslu úr rn. Mér er kunnugt um að þeir eru bæði hæfir í starfi og ólatir. En svo virðist sem ekki hafi verið lögð á það megináhersla að afla upplýsinga fyrir Alþ. áður en það fjallaði um þetta frv. Nú vil ég ekki ætla hæstv. sjútvrh. slíkt hugarfar, að nokkurt kvik hans á setu hér í hv. Ed. stafi af því, að honum sé gersamlega sama um álit d. á frv. Mér er kunnugt um að hann hefur í mörgu að snúast, þarf m. a. nú að fara í síma, sem ég tel löggilt erindi. En hitt staðhæfi ég, að frv. sjálft beri þess ekki merki, eins og það liggur nú fyrir okkur, að unnið hafi verið að því af röskleika að búa þessu máli afgreiðslu á eðlilegan hátt.

Hæstv. ráðh. gat þess í framsöguræðu sinni áðan, að hagur togaranna, skuttogaranna, væri sérstaklega slæmur, jafnframt því sem afkoma sjómannanna á skuttogurunum væri sérstaklega góð. Hvort hæstv. ráðh. gat þessa tveggja í sömu andránni til þess að réttlæta þá ráðstöfun að leysa fjárhagsvanda útgerðarinnar svo til eingöngu á kostnað sjómannanna veit ég ekki. Hitt veit ég, hitt er ljóst, að yfirlýsingin um mjög slæman fjárhag togaranna núna er aðeins staðhæfing og hefur ekki verið rökstudd af hæstv. ráðh.

Það kann vel að vera að afkoma skuttogaranna í heild sé slæm. Ég er því miður hræddur um að það sé rétt. En hún er misjafnlega slæm eftir því hvernig þeir eru reknir. Hagur útgerðarfyrirtækjanna er misjafn eftir því, hvernig þau hafa verið rekin. Sem dæmi um þetta vil ég geta þess að hinn 1. okt. s.l., þegar lagðir voru fram reikningar Bæjarútgerðarinnar á Norðfirði, þá kom í ljós að hagur Norðfjarðarskuttogaranna var að vísu slæmur, en ekki verri en það að sá þeirra, sem verr hafði staðið sig, var þó kominn með 16 millj. kr. hagnað 1. okt. í haust. Hinn var með í kringum 17 millj. kr. hagnað. Við skulum taka smábátaútgerðarstöðina á Húsavík, sem engan skuttogara hefur, og huga lítils háttar að efnahagsafkomu sjávarútvegsins þar. 1. júlí, að loknum hálfs árs rekstri fiskiðjuversins þar var hagnaðurinn náttúrlega ekki mikill, en hann var þó eitthvað í kringum 17 millj. Ég veit, að ég tek hér tvö sérstök dæmi. Ég hef hér tekið dæmi frá bæjarútgerðinni á Norðfirði sem lengi hefur verið vel rekin, þar sem ágóðinn hefur verið notaður til þess að byggja upp fyrirtækið á löngum tíma, þar sem þeir hafa nú góð skip sem skulda tiltölulega lítið. Ég veit að fiskiðjuverið á Húsavík hefur verið byggt upp á sama hátt með góðri og hyggilegri stjórn. Ég nefni hér tvö fyrirtæki, útgerðarfyrirtæki og fiskvinnslu, sem hafa verið vel rekin um langan tíma . Þau standa þannig að þau þurfa ekki á aðstoð að halda. Að vísu er mér kunnugt um að báðir Norðfjarðartogararnir, sem voru með þessa afkomu, sem ég nefndi áðan, — ég ætla að endurtaka þetta, vegna þess að hæstv. sjútvrh. þurfti að fara í síma: togarar sem annar hafði skilað 16 millj. kr. hagnaði, en hinn 17 millj. kr. hagnaði þegar eftir voru 4 mánuðir af árinu, — þeir fengu báðir sendan sunnan úr Reykjavík styrk sem hæstv. sjútvrh. gat um áðan að útdeilt hefði verið til togaranna. Þeir fengu sendar sunnan úr Reykjavik 7 millj. kr. Ég geri fastlega ráð fyrir því að auðmennirnir á Norðfirði kunni að nota þessa 7 millj., sem þeir fengu þarna, en þeir þurftu ekki á þeim að halda.

Nú liggur fyrir okkur frv., sem er þann veg samið að hæstv. sjútvrh. er ætlað að ráðstafa allfrjálslega og ég vil ekki segja að eigin geðþótta, — í þessu eiga ekki að felast neinar aðdróttanir, ekki neins konar aðdróttanir um persónulega hæfileika eða velvilja ráðh., ég slæ því föstu að hann hafi hvort tveggja til að bera í nógu ríkum mæli til að gegna embætti sínu, — en eigi að síður er hér um það að ræða að honum er ætlað að ráðstafa, hafa frjálsar hendur til að ráðstafa hundruðum millj. kr. til þess að bæta slæman hag sjávarútvegsins. Að vísu lýsti hæstv. ráðh. yfir því, að hann mundi um þetta hafa samráð við ríkisstj. í heild. Þá má segja að hann sé búinn að koma að nokkru leyti eða eigi möguleika til þess að koma að nokkru leyti af sér glæpnum yfir á meðráðh. sína. Það breytir ekki þeirri staðreynd að í lagafrv. eru ekki skýr ákvæði um það, ekki óyggjandi ákvæði um það, með hverjum hætti þessu fé verði yfirleitt varið. Og ég trúi að að því leyti sé þetta frv. allmjög frábrugðið því sem gengur og gerist um lagafrv. um háar fjárveitingar og jafnvel lágar.

Ég vildi í þessari ræðu minni víkja sérstaklega að b-lið frv., þar sem fjallað er um óafturkræfa fjárframlagið til bátaflotans, 250 millj. kr. handa bátum 20 lesta og þar yfir með ákaflega óljóst orðuðu fyrirheiti hæstv. sjútvrh. um að skoðuð verði sérstaklega einstök tilvik sem varða báta undir þessari stærð, og þá skilst mér sérstaklega á þeim svæðum þar sem slíkir bátar standa að mjög verulegu leyti undir öflun sjávarfanga til fiskiðjuveranna. Þetta fyrirheit hæstv. ráðh. er ákaflega óljóst og í því kemur ekki fram hvort þessi athugun á að ná til allra báta undir þessari stærð. Aftur á móti hafa starfsmenn rn. hans tjáð okkur í sjútvn. þessarar hv. d. að til greina komi að athuga sérstaklega vandamál báta allt ofan í 12 tonn, þar sem svo ber undir, að þessir litlu bátar standi að verulegu leyti undir hráefnisöfluninni á þeim svæðum.

Nú ætla ég ekki að neita að það er ákaflega misjafnt hversu miklu hlutverki þessir smærri bátar gegna í útveginum. Það er rétt sem starfsmena sjútvrn. hafa sagt okkur í sjútvn. þessarar d., að hér við Faxaflóann á Suðvesturlandi hafa þessir bátar að verulegu leyti verið notaðir til þess að afla neyslufisks handa þéttbýliskjörnunum hér, handa íslendingum, afla fyrir fisksalana, einnig að þeir hafa m.a. af þeim sökum skilað illa skýrslum varðandi afla sinn. En þetta á aðeins við um það svæði þar sem vélbátaútvegurinn er að öðru leyti verst rekinn á landinu, svæðið hér við Faxaflóa og suðvestanlands, aðeins það svæði þar sem vélbátaútvegurinn og sjávarútvegurinn er yfirleitt verst rekinn. Þessir smábátar gegna miklu stærra hlutverki, sérstaklega á Norðausturlandi, en einnig á Austfjörðum og fyrir vestan. Og ástæðan fyrir því, að þeir gegna stærra hlutverki, er e.t.v. fyrst og fremst sú að afkoma þeirra hefur yfirleitt verið miklu betri, rekstur þeirra hefur gengið miklu betur, af því m. a., eins og hæstv. sjútvrh. veit, — ég er ekki að segja honum neitt sem hann veit ekki, — af því m.a. að þessir bátar hafa verið greiddir niður fyrir löngu, þetta eru orðnir ódýrir bátar, þeir hafa verið greiddir talsvert mikið niður fyrir löngu á sama hátt og skuttogararnir, á sama hátt og aflaskipin þeirra Norðfirðinga hafa verið greidd niður fyrir löngu. Og þeir hafa verið greiddir niður vegna þess að þeir eru svo litlir, af því að eigendur þeirra hafa yfirleitt unnið við þá sjálfir, af því að velflestir þessara báta eru í eigu mannanna sem vinna á þeim. Þeir hafa sinnt þeim þarna fyrir austan, norðan og vestan, þessum bátum sínum, þeir hafa greitt þá niður, af því að skipstjóri og vélstjóri og jafnvel hásetarnir eiga persónulega afkomu sína undir því að rekstur þeirra gangi, af því að persónulegur hagur þessara sjómanna er tengdur bátunum.

Vegna smábátanna sérstaklega langar mig að víkja að upplýsingum hæstv. ráðh. varðandi niðurgreiðsluna é olíunni til fiskiskipaflotans. Hann sagði okkur að áætlað væri að flotinn mundi eyða olíu fyrir 2:6 milljarða á árinu, sem verður þá eitthvað í kringum 600 millj. umfram það sem áætlað var á árinu sem leið. Einmitt í sambandi við olíunotkunina kemur það fram hversu hagstætt það er fyrir okkur, hversu hagstætt það er fyrir þjóðina að stuðla að því að smáu bátarnir verði notaðir, að það sé hægt að reka þá, að ýta undir rekstur einmitt smábátanna fremur en ýta undir kaup á fleiri skuttogurum. Línubátarnir, einmitt þessir bátar frá 20 tonnum og niður úr, munu hafa skilað okkur í fyrra um það bil 10 kg af fiski fyrir hvert kg af olíu sem þeir eyddu. Ríkisstyrkurinn til olíukaupann.a til þessara báta kemur ekki nema tæpum 1100 kr. á hvert fisktonn, á hvert tonn sem þessir bátar afla. Skuttogararnir aftur á móti munu ekki hafa gert betur en skila einu kg af fiski fyrir kg af olíu sem þeir notuðu. Ríkisstyrkurinn á hvert tonn, olíustyrkurinn á hvert tonn, sem þeir afla, nemur 11 þús. Skuttogari, sem nær 3000 tonnum yfir árið, fær 33 millj. næstum því í ríkisstyrk á olíuna.

Húsavíkurbátarnir, sem öfluðu 6 þús. tonn af afbragðshráefni árið sem leið, hráefni sem þannig var um fjallað í fiskiðjuveri þeirra að fiskiðjuverið gat borgað 15 millj. kr. ofan á umsamið fiskverð til sjómanna árið sem leið, — Húsavíkurbátarnir, sem öfluðu þessara 6 þús. lesta, fá í ríkisstyrk fyrir olíuna 6.0 millj. samtals fyrir þessi 6 þús. tonn. En skuttogararnir tveir, sem ná því að afla samtals 6 þús. tonn, fá 66 millj. í niðurgreiðslu á olíu. Og fyrst við tölum um olíukostnaðinn, kostnað hins opinbera af olíuniðurgreiðslunum, kostnað fiskiflotans af olíunni, þá má geta þess í leiðinni að tilraunir, sem gerðar hafa verið á vegum svartolíunefndar með notkun svartolíu á íslensku skuttogurunum, benda til þess að miðað við það verð, sem var á svartolíu og gasolíu fyrri hluta þessa árs, þá sé hægt að spara a.m.k. 5 millj. á hvern minni skuttogaranna á ári með því að nota svartolíuna meira á stærri togarana, þannig að unnt ætti að vera að spara með þessum hætti 200 millj. kr. og ríflega það fyrir togaraflotann allan, og mundi sannarlega muna um það þegar verið er að gera neyðarráðstafanir í sambandi við hag sjávarútvegsins.

Einn liður er það enn sem ég vil nú við 1. umr. drepa aðeins á. Það er fyrirhugað framlag, 50 millj., til fiskmjölsverksmiðjanna, sem hæstv. ráðh. sagði að hefðu farið illa út úr framleiðslunni á þessu ári. Þessa staðhæfingu rökstuddi hann ekki nánar, en fiskmjölsverksmiðjurnar, sem hér um ræðir, hafa undanfarin ár yfirleitt verið kallaðar flestar hverjar loðnumjölsverksmiðjur, hétu síldarverksmiðjur áður sumar hverjar. Í hittiðfyrra, úrið þar áður og næsta ár þar áður rökuðu þessar verksmiðjur saman of fjár. Það liggja engar tölur fyrir um að þær hafi tapað árið sem leið á loðnuvinnslunni né hversu miklu þær hafa tapað á vinnslu á fiskúrgangi í ár. Ég trúi því ekki að það hafi verið of fjár. En ég vildi gjarnan að hæstv. ráðh. útskýrði fyrir okkur eftir hvaða reglum peningum verður úthlutað til fiskmjölsverksmiðjanna. Ég get tekið dæmi um tvær fiskmjölsverksmiðjur í sama plássi. Önnur hefur sennilega haft sæmilega útkomu árið sem leið, og vel að merkja er sú fiskmjölsverksmiðja reist sem slík. Hin hefur vafalaust haft mjög slæma afkomu árið sem leið. Þetta eru fiskmjölsverksmiðjurnar í Grímsey. Annars vegar er stóra fiskmjölsverksmiðjan, og vel að merkja, hún var ekki reist sem síldarverksmiðja, heldur sem fiskmjölsverksmiðja. Stóra síldarverksmiðjan, sem reist var í Grímsey í tíð viðreisnarstjórnarinnar, hefur 30 tonna afköst á sólarhring, en hráefnið, sem til fellur í Grímsey og til féll í þann mund, sem verið var að reisa þessa verksmiðju, mun hafa verið um 30 tonn á ári. Þessi verksmiðja hefur aldrei verið sett í gang og er alveg vafalaust að á hana hlýtur að hlaðast geysilegur kostnaður, bæði í vöxtum og öðru slíku. Hún hefur aldrei verið sett í gang til þess að vinna úr þessum 30 tonnum á ári. Í staðinn kom Kaupfélag Eyfirðinga þarna upp lítilli kvörn, sem hefur að mig minnir 250 kg afköst á sólarhring. Hún hefur annað því sem til hefur fallið af hráefni í Grímsey, og ég hef ástæðu til þess að halda að afkoma hennar kunni að vera rétt sæmileg.

Nú er spurningin hvor þessara verksmiðja í Grímsey kemur til með að fá styrkinn frá hinu opinbera, sú sem stendur sig vel eða sú sem stendur sig illa.

Ég ætla ekki að lengja þetta mál mitt að sinni. Ég mun taka til máls aftur er málið kemur úr n. En ég hlýt í lokin að lýsa yfir þeirri skoðun minni, að alls ekki komi til mála að leysa þennan vanda sjávarútvegsins, eins og hann er skilgreindur, á kostnað sjómanna eða verkafólks við fiskiðjuverin. Það hefur ekki komið fram rökstuðningur fyrir því að þetta fólk hafi of háar tekjur, að það hafi hærri tekjur en nægja til þess að halda því víð þessi þjóðnytjastörf, að það hafi meiri tekjur en það þarf sér til framfærslu. Ég tel að það liggi í augum uppi að hlutarsjómennirnir, sem eiga hlut í þeim fiski sem hér um ræðir, fái bætur að sínum hluta. En um þessi atriði verður fjallað í brtt. minni hl. þegar þar að kemur.

Af hálfu flokks míns hefur verið ákveðið, þrátt fyrir það þótt Alþb. hljóti að standa gegn frv. í þeirri mynd sem það er og greiða atkv. gegn þessari afgreiðslu málsins, þá hefur verið ákveðið, að flýta heldur fyrir því að þetta meingallaða frv. fái þinglega afgreiðslu. Yfirlýsing hæstv. sjútvrh. um að hann muni leggja reglur varðandi úthlutun þessa fjár fyrir ríkisstj. í heild, yfirlýsing hans í þessa átt er til nokkurra bóta. Ég vildi gjarnan að hann kvæði skýrara að orði en hann gerði varðandi fyrirhuguð afskipti sjútvn. beggja þd. af þessu máli. Ég vildi gjarnan að það kæmi frá hans eigin brjósti, hann hafði það aðeins eftir formanni sjútvn. í Nd., að formaður sjútvn. í Nd. hefði haft það eftir sér að hann mundi leita til fulltrúa sjútvn. í þessu máli. Ég vildi gjarnan, ef hann vildi segja frá eigin brjósti að hann ætlaði að gera þetta, þannig að það yrði alveg lýðum ljóst. En eins og ég sagði, sjútvrh. hefur lýst yfir því að hann ætli að koma þessu máli — og ég lái honum það ekki neitt — að vissu leyti um hálsinn á meðráðh. sínum líka, og við munum ekki bregða fæti fyrir það. Það er skylda okkar að gera það ekki, forðast það, m.a. samkv. lögum frá 1817, skylda manna að bjarga mönnum sem sýnast dauðir, stendur í þessum lögum. Og í 2. gr., sem er vikið beint að hæstv. sjútvrh. í þessu sambandi, í 2. gr. þessara l. segir: „Það skal vera einnig almenn skylda að annast um að hengdir menn séu skornir niður án tafar.“