19.12.1974
Efri deild: 33. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1228 í B-deild Alþingistíðinda. (1023)

118. mál, rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Fram. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Sjútvn. hefur haft mál þetta til athugunar, og eins og kemur fram á þskj. 213 mælir n. með samþykkt þess.

Mér er sérstök ánægja að mæla með þessu frv. Ég flutti frv. þetta á 92. löggjafarþingi ásamt Páli Þorsteinssyni og Jóni Helgasyni. Það varð ekki útrætt þá og síðan fluttum við aftur þetta frv. um breyt. á l. um rannsóknir í þágu atvinnuveganna á 93. löggjafarþingi og breyttum því þá lítillega með tilliti til þess sem hafði komið fram áður við meðferð þess í sjútvn. þeirri, sem þá starfaði. Þar kom fram að talið var nauðsynlegt að heimamenn greiddu helming af kostnaði við slíkar rannsóknastofur úti um landsbyggðina. Var það gert þá með tilvísun til þess sem gerst hafði í Vestmannaeyjum. Frv. á þeim tíma fékk ekki framgang nema með þeirri breytingu að heimamenn, þ.e.a.s. fiskiðnaðarmenn á heimasvæðinu greiddu helminginn af stofnkostnaði við að setja upp rannsóknastofur. Þannig var frv. samþ. Nú hefur hæstv. ríkisstj. séð að sér að þessu leyti, vil ég leyfa mér að segja, og fellt brott þetta ákvæði um helming kostnaðar af hendi heimamanna, sem ég fyrir mitt leyti áleit aldrei raunhæft, en féllst þó á sínum tíma á til þess að frv. fengi fram að ganga. því sé ég sérstaka ástæðu til þess að fagna þessu fram komna frv.