19.12.1974
Efri deild: 35. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1238 í B-deild Alþingistíðinda. (1039)

4. mál, ráðstafanir í sjávarútvegi

Frsm. minni hl. (Stefán Jónsson):

Herra forseti. Eins og hv. formaður sjútvn. þessarar d., Steingrímur Hermannsson, greindi frá, klofnaði n. um þetta frv. og við Jón Árm. Héðinsson, hv. þm., skilum minnihlutaáliti, sem ég mun nú lesa:

„Frv. þetta er með þeim hætti að til einsdæma hlýtur að teljast í þingsögunni. Það hefur ekki skeð fyrr að einstökum ráðh. væru fengin hundruð millj. til úthlutunar án þess að kveðið væri á um það, svo að óyggjandi væri, á hvern hátt fénu væri ráðstafað að lögum. Þrátt fyrir óskýr fyrirheit af hálfu starfsmanna sjútvrn., sem hníga þó í þá átt að leitað verði álits ýmissa stofnana, sem fyrir eru, um ráðstöfun þessa fjár, og enda þótt kveðið sé á um það að sumu leyti hvernig fénu skuli ráðstafað, þá liggur við að lesa megi milli línanna í lagafrv. þessu að geðþótti ráðh. skuli ráða. Tekur minni hl. sjútvn. ekki gildar afsakanir um tímaskort við undirbúning frv.

Frv. það, sem hér um ræðir, er tvíþætt og fjallar annars vegar um ráðstafanir í sjávarútvegi vegna afkomuerfiðleika sem m. a. stafa af gengisfellingu hægri stjórnarinnar, en á hinn bóginn fjallar það um ráðstöfun gengishagnaðar af völdum gengisfellingarinnar.

Ráðstafanir, sem gerðar eru vegna afkomuörðugleikanna, miðast einvörðungu við tilfærslu fjármuna innan sjálfrar atvinnugreinarinnar og þá fyrst og fremst frá launþegunum til atvinnurekendanna. Samkv. 2. og 3. gr. frv. skal þannig stækka þann hlut, sem tekinn er af óskiptum aflahlut, mjög svo verulega og ráðstafa honum til Stofnfjársjóðs fiskiskipa, þ.e.a.s. einvörðungu í þágu atvinnurekenda. Með þessu verða kjör sjómannastéttarinnar skert verulega og þar með vegið að sjálfum grundvellinum að frjálsum kjarasamningum þeirra. Sjómannasamtökin hafa mótmælt þessu gerræði ríkisstj. harðlega og lýst yfir því að það eitt sé fullnægjandi ástæða til að segja upp gildandi kjarasamningum.

Minni hl. sjútvn. Ed. lýsir yfir samþykki við þessa afstöðu sjómanna og vekur jafnframt athygli á því, að þegar svo er að unnið í kjaramálum má teljast sennilegt, að ráðstafanir þessar, sem ætlaðar eru til þess að bæta úr afkomuerfiðleikum, verði raunar til þess að auka erfiðleikana að mun og stefna jafnvel til algjörrar stöðvunar fiskiskipaflotans, ef sjómenn verða neyddir til þess að leggja út í verkfallsbaráttu til þess að rétta hlut sinn.

Minni hl. n. leggur til, að frvgr. verði felldar niður.

Í 1. gr. gerðist það í fyrsta skipti, að ráðin eru tekin af Verðlagsráði sjávarútvegsins með því að heimila ekki nema óverulega fiskverðshækkun á sama tíma og reynt var að ná samkomulagi um fiskverðið í Verðlagsráðinu og áður en séð yrði hvort það mundi geta tekist. Þegar þetta gerðist hafði engin hækkun fengist fram á fiskverðinu frá áramótum 1973–74 og sjómenn því ekki fengið launahækkanir á tímabilinu til samræmis við aðra launþega. Þeim mun tilfinnanlegri hafði þessi seinkun á launabótum sjómannastéttarinnar orðið þar sem afli hafði farið rýrnandi. Auk þess sem hér var um að ræða ráðstöfun sem kom í veg fyrir það, að sjómenn gætu fengið launahækkanir til jafns við aðrar stéttir, er hér um hættulegt fordæmi að ræða, þ.e.a.s. það fordæmi að ríkisstj. grípur með brbl. inn í atriði frjálsrar samningsgerðar launastéttar á meðan sú samningsgerð stendur yfir og ekkert bendir til annars en hún hefði getað tekist án afskipta ríkisvaldsins.

Með 4. gr. frv. er kostnaði vegna verðhækkunar á olíu velt yfir á sjómenn að miklu leyti, vegna þess að þessar tilfærslur fjármuna innan atvinnugreinarinnar koma í veg fyrir hækkun fiskverðs, sem ella hefði getað orðið. Með þessari grein er sjávarútveginum í rauninni sjálfum gert að standa undir olíuverðhækkuninni og stór hluti þeirra byrða lagður á launþegana í atvinnugreininni — sjómennina.

Um 5., 6., 7. og 8. gr. frv. er ekki ágreiningur í sjútvn. Þó vill minni hl. n. benda á nauðsyn þess, að vátryggingamál fiskiskipa verði tekin til gagngerðrar endurskoðunar.

Svo sem fyrr segir telur minni hl. n. óeðlilegt að ráðh. verði falið að ráðstafa hundruðum millj. kr. í lán og styrki eftir svo óljósum reglum. Því leggjum við til á sérstöku þskj., að ákveðnar reglur verði markaðar í lögum um þessi efni og framkvæmdin falin þeim aðilum, sem eðlilegt er að um hana fjalli.

Við teljum eðlilegt að úthlutun gengishagnaðar sé miðuð jafnt við sumar- sem vetrarúthald og fellum okkur ekki við neins konar takmarkanir varðandi stærð þeirra báta, sem rétt hafi til síns hluta af gengishagnaðinum. Teljum við að hlutur smábátaútvegsins í verðmætasköpuninni sé miklu stærri en svo, að sjómenn þeir og útvegsmenn, sem við hann vinna, verði algjörlega sniðgengnir með nokkrum rétti. Teljum við fráleitt að vitna í rekstur smárra þilfarsbáta í þeim landshlutum þar sem hann er verstur, því til sönnunar, að ekki beri að úthluta einhverjum af gengishagnaði til báta undir 20 lestum í þeim. landshlutum og verstöðvum, þar sem rekstur litlu bátanna og þjóðhagsleg þýðing þeirra skarar jafnvel fram úr því sem best gerist um stærstu fiskiskipin.“

Undir þetta nál. skrifum við Stefán Jónsson og Jón Árm. Héðinsson.

Ég tók fram við 1. umr. um frv. fyrr á þessum degi, að ég vildi ekki tefja afgreiðslu málsins. Þetta mál er komið í eindaga, eitthvað verður að gera, og þetta eitthvað felst í frv. þessu til l. um ráðstafanir í sjávarútvegi sem við fjöllum um nú í kvöld. Öllu nánar verður efni frv. raunar ekki skilgreint. En tíminn er naumur og frv. verðum við að afgreiða fyrir jólaleyfi og við munum ekki tefja það með málþófi. Ég hlýt þó að kvarta um það nú, er ég tek til máls öðru sinni um frv., að hæstv. sjútvrh. skyldi ekki svara fsp. sem ég bar fram í fyrri ræðu minni og ekki heldur formaður sjútvn., sem mælti þó með nokkrum semingi með samþykkt frv. Ég tel, að með ákvæðinu um að taka hér út úr bátana undir 20 smálestum sé raunverulega stefnt út á nýjar brautir í sjávarútvegi okkar. Hér er verið, ef svo má segja, að löggilda smábátaútveginn sem annars flokks útgerð, þrátt fyrir þá staðreynd að þjóðhagslega séð mun þessi útgerð, þar sem hún er sæmilega stunduð, vera arðbærust, þrátt fyrir þá staðreynd að útgeð þessara smáu báta, línubátanna, kostar ríkisheildina langminnst.

Ég gat þess í ræðu minni áður, að hið opinbera verður að borga niður olíueyðslu hvers skuttogara, sem aflar 3000 tonna af fiski, með um það bil 33 millj. kr. En bátafiskur, fiskur línubátanna er svo miklu ódýrari í framleiðslu hvað orkueyðslu snertir, að fyrir 3000 lestir af línufiski þarf ríkissjóður aðeins að greiða niður olíu um það sem nemur 3.3 millj.

Þá er hitt ótalið enn, hversu miklu betri vara það er sem litlu bátarnir færa að landi, þeir sem róa að morgni og koma að kvöldi yfirleitt, með hvaða hætti gæði þeirrar vöru hafa haldið uppi verðinu á togarafiskinum og netafiskinum sem aflað hefur verið hérna á Faxaflóasvæðinu, þar sem ástandið er nú orðið þannig að ekki er hægt að gera litlu bátana út. 20 tonna bátar, sem skila ágætum hagnaði fyrir Norðurlandi, verða ekki gerðir út á svæðinu hér við Faxaflóa.

Það er svo annað mál, sem hægt er að ræða seinna, hvernig á því stendur að útgerðin á Faxaflóasvæðinu er komin í slík óskapavandræði sem raun ber vitni um. Má geta þess aðeins í fljótu bragði, að ein af ástæðunum er sú að bátaútvegurinn hér við Faxaflóa hefur orðið að keppa við Keflavíkurflugvöll og álverksmiðjuna í Straumsvík um vinnuaflið. Nú er svo komið að bátaútvegurinn við Faxaflóa, sem áður flutti inn vinnuafl, flutti suður vinnuafl úr verstöðvunum að vestan, austan og norðan, fékk þaðan vinnuafl á vetrarvertíðina, hann fær ekki þetta vinnuafl lengur, vegna þess að sjómennirnir hafa vinnu allt árið í þeim verstöðvum, vegna þess að útvegurinn er betur rekinn þar. Þetta er ein af meginástæðunum fyrir því hvernig komið er fyrir sjávarútveginum við Faxaflóa.

En víkjum aftur beint að frv. Við flm. nál. minni hl., við hv. þm. Jón Árm. Héðinsson, flytjum brtt. við frv. á þskj. 216 og ég ætla aðeins að renna yfir þessar brtt.

1. brtt. er, að 1. gr. frv. falli niður, 2. brtt. er sú, að 2 gr. falli niður, 3. gr. falli niður og 4. gr. falli niður.

5. brtt. er sú, að stafliðir í 9. gr. orðist svo: „a. Til þess að greiða hluta gengistaps vegna erlendra skulda eigenda fiskiskipa 600 millj. kr. — Fiskveiðasjóði er heimilt að ráðstafa 300 millj. kr. af þessari fjárhæð, samkv. reglugerð er hann setur og ráðh. staðfestir, til lánveitinga í sjávarútvegi til 2–3 ára til að bæta lausafjárstöðu fyrirtækja, enda verði krafist öruggra trygginga fyrir lánum þessum.

b. Styrkur til bátaflotans vegna rekstrarerfiðleika á tímabilinu frá 1. jan. til 1. sept. 1974 250 millj. kr. — Styrkupphæðinni verði skipt þannig, að 40% hennar verði ráðstafað einvörðungu með tilliti til mannúthaldsdaga og 60% í samræmi við reglur er Aflatryggingasjóður setur, þar sem tekið verði tillit m. a. til aflamagns og lágmarkstekna, sem skipið þarf að hafa til að geta greitt kauptryggingu, enda hafi kaupgreiðslur til sjómanna forgang. — Allir fiskibátar, án tillits til stærðar, skulu hljóta styrk samkv. ákvæðum þessa stafliðs.

c. Styrkur til skuttogara verði 230 millj. kr. og miðist við fjölda úthaldsdaga.

d. Til lífeyrissjóða sjómanna 80 millj. kr., m.a. til þess að verðbæta lífeyrisgreiðslur til aldraðra sjómanna og ekkna samkv. reglum, er stjórn sjóðanna setja.

e. 20 millj. kr. til sjómannasamtakanna til byggingar orlofshúsa og annarra félagsmála, eftir nánari ákvörðun stjórnar samtakanna.

f. Eftirstöðvum verði ráðstafað með sérstökum lögum af Alþ. síðar, þegar nákvæmari upplýsingar liggja fyrir um stöðu sjávarútvegs og fiskvinnslu.“

Ég ræði svo ekki frv. frekar og tel mig ekki þurfa að gera frekari grein fyrir afstöðu minni hl. sjútvn. en þá sem fram kemur í áliti n. og brtt.