19.12.1974
Efri deild: 35. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1243 í B-deild Alþingistíðinda. (1041)

4. mál, ráðstafanir í sjávarútvegi

Frsm. minni hl. (Stefán Jónsson):

Herra forseti. Ég lái ekki hv. þm. Oddi Ólafssyni þó að hann stæði upp til andmæla, fyrst honum heyrðist ég segja beinlínis að á Suðurnesjum væri verst rekin útgerð á Íslandi. Ég hef þetta að vísu ekki skrifað, en mig minnir endilega að ég hafi orðað það svo: þar sem útgerð 20 tonna báta og minni væri verst. (OÓ: Þú staðfestir það við mig.) Ja, hafi ég staðfest það, þá átti ég við þetta atriði. Ég hygg að þetta muni koma fram þegar við sjáum ræðu okkar skrifaða, svo að við skulum ekki bítast um það.

Það er alveg rétt að það er algengt hér á Suðurnesjum að sjómenn eigi bátana sína sjálfir eða hluta í þeim eins og fyrir norðan. En mismunurinn liggur í því að sjómennirnir hér á Suðurnesjum eiga ekki fiskiðjuverin sjálfir eins og sjómennirnir á Húsavík, sem eiga beina eignaraðild að fiskiðjuverinu þar, sem greiddi þeim s.l. ár 15% ofan á umsamið fiskverð, á sama tíma og eigendur frystihúsanna hér við Faxaflóa og á Suðurnesjum gengu hágrátandi undan því að borga umsamið fiskverð. Munurinn liggur í því, að á þessum stöðum víða útí á landi eiga menn slíka aðild að fiskiðjuverunum, annars staðar með nokkrum öðrum hætti, eins og t.d. á Hornafirði, þar sem um er að ræða samvinnufyrirtæki, þ.e. frystihús kaupfélagsins, sameignarfyrirtæki á Norðfirði og viðar á Austfjörðunum. Munurinn liggur aðallega í þessu, að sjómennirnir halda áfram að eiga þennan afla á meðan verið er að fjórfalda hann í verði og njóta síðan arðsins af sölunni, samtímis því sem fiskverkunin, sem ég vil enn þá telja til útgerðar, á sama tíma sem fiskverkunin hér við Faxaflóa og á Suðurnesjum hefur einkennst miklu meira af braski.

Það tæki of langan tíma að fara að rekja þá sögu eftir heimildum og skemmtilegum — allt að því dýrðlegum frásögnum frá þeim tíma þegar útvegsbændurnir hér við Faxaflóa voru kóngar í ríki sínu, þegar fiskverkunin eftir vetrarvertíðina var heimilisiðnaður. Ég sé þann tíma, ég sé það tímabil, ég verð að játa það, í hillingum hérna við flóann. Við eigum örlitið eftir af þessu enn þá í Garðinum, þar sem rekin eru smáfiskverkunarfyrirtæki, allt að því með heimilisiðnaðarsniði, enn þá og eru til hinnar mestu fyrirmyndar. En þessi fyrirtæki borga ekki sjómönnunum verðuppbætur á fiskinn.

Það eru frystihúsin hér við Faxaflóa sem æpa á efnahagslega hjálp, samtímis því sem fiskiðjuverið á Húsavík borgar 15% verðuppbætur ofan á umsamið fiskverð. Hvernig skyldi standa á því?

Svo að við víkjum að olíunotkuninni, þá get ég aðeins tilgreint frumheimildir mínar fyrir tölunum sem ég nefndi. Ég hef það eftir skrifstofu Fiskifélags Íslands að dagseyðsla á minni togurunum sé 7–8 tonn, 8–9 tonn á stærri togurunum og að áætlaður dagsafli rökstuddur með reynslu sé 8–10 tonn. Meðalolíueyðsla flotans á árinu sem leið var eitt tonn af olíu á móti 5 tonnum af fiski, ef mig minnir rétt.