19.12.1974
Neðri deild: 31. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1245 í B-deild Alþingistíðinda. (1050)

118. mál, rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Forseti. Þetta frv. um breyt. á l. um rannsóknir í þágu atvinnuveganna er gert í þeim tilgangi að útibú Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins verði rekin að öllu leyti af ríkissjóði í stað þess, sem er í gildandi lögum, að stofnkostnaði við útibúin eigi að skipta á milli ríkis og viðkomandi sveitarfélags. Þykir rétt að afnema það og að ríkissjóður kosti útibúin að öllu leyti, eins og ríkissjóður kostar aðalstofnunina, Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins hér í Reykjavík. Sömuleiðis kostar ríkissjóður Hafrannsóknastofnunina og útibú þau sem hún kann að setja á stofn, og hún hefur nú þegar sett sitt fyrsta útibú á stofn, sem er tekið til starfa á Húsavík. Enn fremur má minna á það að allar rannsóknastofnanir í öðrum greinum eru kostaðar að öllu leyti af ríkissjóði, Því er eðlilegt að gera þessa breytingu, að því er ég tel.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta frv., en legg til að því verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.