19.12.1974
Neðri deild: 31. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1249 í B-deild Alþingistíðinda. (1056)

106. mál, löndun á loðnu til bræðslu

Tómas Árnason:

Herra forseti. Þetta mál, sem hér er til umr., fjallar raunverulega um tvö atriði. Annars vegar er frv. um breyt. á l. nr. 97 27. des. 1973, um löndun á loðnu til bræðslu, og hins vegar er aftur ákvæði til bráðabirgða, sem tekið var inn í málið í Ed., en upphaflega frv. er stjfrv. sem flutt var án þessa bráðabirgðaákvæðis.

Ég vil taka það fram varðandi hið fyrra frv., um löndun á loðnu til bræðslu, að það var yfirleitt álit nm. í sjútvn. að það væri fullsterkt til orða tekið í grg. fyrir frv. Það segir svo í niðurlagi 1. gr. frv.:

„Fiskiskipi er óheimilt að leita löndunar hjá verksmiðju þar sem n. hefur stöðvað löndun eða ekki auglýst laust móttökurými.“

Um þessa gr. segir svo í aths., „að fiskiskipi er undir öllum kringumstæðum óheimilt að leita löndunar hjá verksmiðju, ef loðnunefnd hefur ekki auglýst laust móttökurými“. Nm. í sjútvn. voru sammála um að það væri heldur sterkt til orða tekið í þessu efni, því að auðvitað getur staðið þannig á, sérstaklega þegar um er að ræða langsiglingu, vegna öryggis, að nauðsynlegt sé fyrir skip að leita hafnar skyndilega. Þessar veiðar fara fram á versta tíma ársins hvað snertir veðurfar og getur verið nauðsynlegt fyrir skip, sem þannig er ástatt um að það þarf að sigla langa leið með farm sinn, e.t.v. fullfermi, að leita hafnar til þess að létta á sér áður en það hefur langsiglinguna. Á þessu vildi ég aðeins vekja athygli.

Varðandi hitt málið, ákvæði til bráðabirgða, klofnaði sjútvn. Nd. Það voru uppi tvö sjónarmið. Annars vegar var það sjónarmið að hér væri um að ræða málefni sem snerti fiskveiðilögsöguna og væri þess vegna varhugavert að samþykkja það. Hins vegar var það sjónarmið að hér væri um að ræða alveg afmarkað tilfelli sem ekki veitti neitt fordæmi. Um þetta var ágreiningurinn.

Ég er þeirrar skoðunar að það séu tvö atriði, sem þarna skipta höfuðmáli. Í fyrsta lagi er hér um að ræða málefni sem varðar undanþágu frá l. um rétt til fiskveiða í landhelgi frá 1922, fiskveiðilögunum, og þar af leiðandi snertir málið landhelgismálið sem slíkt. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það, að það eru viðkvæmir tímar um þessar mundir í landhelgismálinu, fiskveiðilögsögudeilunni. Við eigum í styrjöld við vestur-þjóðverja sem er óútkljáð, innan skamms renna út samningar við breta varðandi þetta mál, og á næsta leiti er lokalotan á hafréttarráðstefnunni um þessi málefni. Ég er þeirrar skoðunar að það sé ekki hyggilegt fyrir íslendinga að vera að rjála við þetta mál, eins og ástatt er. Þess vegna hef ég lagst á móti því.

Í öðru lagi hefur LÍÚ sent sjútvn. Alþ. og sjútvrn. bréf sem varðar þetta mál sérstaklega. Þetta eru heildarsamtök útgerðarmanna í landinu sem auðvitað láta sig miklu varða slík mál sem þessi. Í fyrsta lagi mótmælir LÍÚ harðlega að umrætt leyfi verði veitt. Í öðru lagi telur Landssambandið að ef svo verði gert væri það nýtt fordæmi sem gæti haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir sjávarútveginn, eins og þar er tekið fram. Ég viðurkenni að vísu að þetta er talsvert takmarkað tilfelli eins og kemur fram í þskj. 197 frá Ed. Í þriðja lagi segir svo í bréfi Landssambandsins með leyfi hæstv. forseta: „Lög um löndun á loðnu til bræðslu eru sett að beiðni stjórnar LÍÚ og fleiri samtaka þar sem samkomulag hafði náðst milli þeirra um efni þeirra. Ef hið háa Alþ. fer nú að setja ákvæði um allt annað efni í lög þessi án nokkurs samráðs við þá aðila sem eiga að stjórna löndun á loðnu til bræðslu, lítum vér svo á að verið sé af opinberri hálfu að rjúfa það samkomulag sem gilt hefur um þetta efni, og munum vér í því sambandi íhuga að draga fulltrúa vorn út úr n. þeirri sem stjórna á löndun á loðnu til bræðslu.“

Ef þessi mál eru íhuguð og þær röksemdir sem ég hef fært fram fyrir því að varhugavert sé að samþykkja þetta eins og ástatt er, þá finnst mér þau vera þyngri á metaskálum en hin röksemdin, að leyfa þessa undanþágu frá fiskveiðilögsögunni frá 1922.