19.12.1974
Neðri deild: 31. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1250 í B-deild Alþingistíðinda. (1057)

106. mál, löndun á loðnu til bræðslu

Frsm. minni hl. (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Eitt undrast ég stórlega og það er það þegar gapuxar meðal okkar sem hafa haldið því fram og jafnvel getað gert samninga við erlenda aðila, heilar þjóðir, um það að við ráðum og eigum okkar landhelgi, skuli svo hræðast að þeir séu jafnvel að detta upp úr sinum eigin skóm þegar verið er að tala um eitt skip, sem er að miklu leyti í eigu íslendinga og er að komast algerlega í eigu þeirra. Ég skil ekki þá röksemdarfærslu þegar við erum að tala um okkar eign, sem við erum að ráðstafa, sem er auðvitað landhelgi íslendinga, að við getum ekki leyft íslenskri skipshöfn í íslensku skipi, sem er íslenskt að hluta þótt það vanti kannske nokkur formsatriði þar á, að koma hér og landa á þeim stöðum þar sem hráefni vantar, um leið og við tölum um það sí og æ að við viljum auka okkar þátttöku í aflamagni Norður-Atlantshafsins sem við mundum ekki ná í annars vegar. Það hefur aldrei hvarflað að neinum manni sem mælir með veiðileyfi þessa skips að það taki neitt frá öðrum íslenskum skipum, hvorki úr flutningasjóði né olíustyrktarsjóði. Það hefur aldrei komið til mála. Þessir aðilar eru ekki að biðja um það. Þeir eru að biðja um það fyrst og fremst, vegna þess að áhöfnin er íslensk, að fá að koma hingað til þess að starfa yfir loðnuvertíðina, að sjálfsögðu með hagnaðarvon í huga. Ég álít að það geti líka verið hagnaðarvon fyrir íslensku þjóðina og Síldarverksmiðjur ríkisins og aðra aðila, sem koma til með að taka aflann frá þessu skipi. Þetta er gamall þrælsótti, að vera alltaf með þennan ótta við samninga við útlendinga og nú um eitt skip, sem er að mestu leyti í eigu íslendinga. Ég spyr þá sem eiga tvö skip og skulda meiri partinn af þeim fyrir austan tjald, hvar er sjálfstæði þeirra?

Ég hef ásamt hv. þm. Guðlaugi Gíslasyni mælt með því að þessi bráðabirgðaákvæði verði samþ., og stend fast við það, auk þess sem ég vil mjög undirstrika hér á Alþ. og látra koma fram í þskj., að þann frekjutón, sem kemur fram hjá LÍÚ — og það er ekki í fyrsta skipti sem hann kemur þannig fram nú á síðustu dögum, eigum við að sjálfsögðu að fordæma og kannske bara vegna þess eigum við að samþykkja þetta ákvæði til bráðabirgða, einfaldlega til þess að sýna LÍÚ að það ræður ekki yfir Alþ., þótt það geti kannske tekið einn og einn þm. með sér til svefns og svæft þá svefnþorni. Ég mæli sem sagt með að þetta ákvæði til bráðabirgða verði samþ.