19.12.1974
Neðri deild: 31. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1251 í B-deild Alþingistíðinda. (1058)

106. mál, löndun á loðnu til bræðslu

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Ég vil fyrst taka það fram að ég er samþykkur þessu frv. eins og það var flutt hér og liggur fyrir sem heild, fyrir utan það bráðabirgðaákvæði sem hér hefur verið rætt nokkuð sérstaklega um, og ég skal lýsa afstöðu minni til þess. Ég get að vísu tekið undir fyrirvara sem hér koma fram frá hv. 4. þm. Austurl., Tómasi Árnasyni. Ég tel hið nýja orðalag, sem tekið er upp í 1. gr. varðandi skyldur fiskiskipa, mjög vafasamt og það sé í rauninni ekki til bóta. En ég vona að enginn fari að túlka það þannig að hægt sé í rauninni að lögsækja skipstjóra fyrir að hafa leitað hafnar, jafnvel þó að það sé sagt í grg. þessa frv. að það sé í rauninni óheimilt, hafi loðnunefnd ekki veitt sitt leyfi. Ég tel að þetta orðalag sé ekki vel æskilegt en set það ekki fyrir mig og er samþykkur frv.

En þá er spurningin um bráðabirgðaákvæði það sem kom inn í frv. í Ed. Ég skal segja það strax að ég er andvígur þessu bráðabirgðaákvæði. Ég held að það sé alveg rangt að samþykkja það. Hér er um mjög viðkvæmt mál að ræða, en ekki nýtt. Það hefur verið á ferðinni um margra ára skeið. Ég veit að það er auðvelt að segja að við íslendingar höfum verið í þessum efnum mjög íhaldssamir. Við höfum haft mjög strangar reglur og haft uppi mikinn varnað við öllum undanþágum í ,sambandi við okkar fiskveiðilandhelgi. Og ég held að þessi tiltölulega íhaldssama afstaða okkar hafi verið nauðsynleg. Auðvitað hafa mjög margir aðilar, bæði innlendir og útlendir, haft ákveðna tilhneigingu til þess að geta komist inn í okkar fiskveiðilandhelgi og notið réttindanna hér. Erlendir aðilar hafa reynt að ná samningum við innlenda menn um að taka að sér að reka þeirra skip hér þannig að þau nytu réttinda í okkar fiskveiðilandhelgi. Um þetta hefur margsinnis verið sótt. En lög okkar eru svo stíf í þessum efnum að það er ekki hægt að veita slíkar heimildir nema til komi sérstök lög í hverju einstöku tilfelli.

Ég vil benda á það í sambandi við þetta atriði að á s.l. ári lá t.d. fyrir umsókn frá nokkrum íslendingum þar sem þeir óskuðu eftir því að fá heimild til að leggja hér innan íslensku landhelginnar stóru vinnsluskipi, verksmiðjuskipi, sem hafði mikla möguleika til þess að frysta í stórum stíl loðnu. Þeir fluttu sitt mál þannig að ef þeir fengju leyfi til þess að leggja þessu skipi inn í íslenska fiskveiðilandhelgi, þá mundu íslenska veiðiflotanum veitast meiri möguleikar til þess að selja aflann og fá meira fyrir hann en ella. En eftir að þessi mál höfðu verið gaumgæfilega athuguð, bæði í samráði við félagssamtök sjómanna, útgerðarmanna og vinnslustöðvanna í landinu og þá landhelgismálið sem heild haft í huga, þá voru menn á þeirri skoðun, yfirgnæfandi meiri hl., að það væri ekki rétt að fara fram á að fá undanþágu fyrir slíkt skip sem þetta þó að það væru íslendingar sem tækju það á leigu og ættu að reka það hér.

Það hafa einnig legið fyrir nú síðustu ár óskir frá ýmsum landsmönnum um að mega taka á leigu færeysk skip og reka þau til loðnuveiða, — skip sem eru sérstaklega hagkvæm til þess. Færeyingar eiga nokkur slík skip, mjög stór og góð skip, og þeir vildu gjarnan koma skipunum hingað til veiða, og þeir fundu auðvitað fljótlega íslendinga sem vildu gjarnan komast í félagsskap með þeim. En niðurstaðan varð ævinlega sú að neita um þessar heimildir. Það var ekki vegna þess að það væru eingöngu samtök útgerðarmanna sem þarna væru á móti. Það er rétt að samtök útgerðarmanna hafa staðið á móti þessu, en samtök sjómanna í landinu ekki siður. Ástæðurnar eru einfaldlega þær að samtök sjómanna líta þannig á, eins og samtök útgerðarmanna, að aukinn skipakostur hér á miðunum hefði auðvitað þau áhrif að veikja nokkuð aðstöðu íslensku sjómannanna og íslensku útgerðaraðilanna, því að auðvitað mundu þessi viðbótarskip, sem kæmu inn á þennan hátt, keppa um sömu veiðitorfurnar sem menn eru að sækjast eftir að veiða. Og auðvitað mundu þau einnig leiða til þess að það Yrði þrengra um möguleika að koma aflanum fyrir til vinnslu. Við höfum staðið frammi fyrir því iðulega að það hafi verið um löndunarstöðvun að ræða. En fyrst og fremst óttast menn auðvitað, fyrir utan þetta að allar svona undanþágur geti leitt til þess, að það verði lítið á þetta sem fordæmi og þar komi eitt á eftir öðru. Það er þetta sem ég fyrir mitt leyti tel vandasamast í þessu máli, það eru fordæmin. Út af fyrir sig er hægt að segja: Það er ekki mikið atriði að veita einu skipi undanþágu á þennan hátt, — Og það er vissulega verulegur kostur ef það skip vill binda sig því skilyrði að landa aflanum á þeim stöðum á landinu þar sem ekki er líklegt að íslensku skipin fáist til þess að landa miklum afla á komandi vertíð. En eigi að síður, þó að þetta sé nokkur kostur í málinu, er ekki hægt að neita því að hér er um fordæmi að ræða og það eru verulegar hættur á því að aðrir leiti á eftir og það geti orðið nokkuð örðugt að neita einum þegar öðrum hefur verið veitt leyfi.

Vegna þessa er það skoðun mín að við eigum að fara mjög gætilega í þetta framvegis og ekki veita leyfi eins og þetta. Ég játa að það ræður svo alveg úrslitum hjá mér þegar samtök útvegsmanna í landinu hóta svo að segja stríði út af þessu viðkvæma máli. Þau tilkynna með bréfi til Alþ. að þau líti þetta mjög alvarlegum augum og muni hætta samstarfi um skipulag á loðnulöndun ef þetta leyfi verði veitt. Ég tel fyrir mitt leyti að það sé mjög óhyggilegt fyrir stjórnvöld að ætla sér að fara að taka upp slag við þessi samtök út af þessu viðkvæma máli, og ég er sannfærður um að þessi deila verður ekki bara við Landssamband ísl. útvegsmanna sem er vissulega sterk samtök, heldur verður þessi deila ekki siður við sjómannasamtökin. Það er enginn vafi á því, eins og þeirra afstaða hefur verið til þessara mála hingað til.

Ég held því að það sé ekki hyggilegt að taka upp baráttu út af þessu máli, og af þessum ástæðum er ég á móti því að bæta þessu bráðabirgðaákvæði við. Hitt vil ég segja, að það hlýtur auðvitað að koma að því fyrr eða siðar að við teljum að þessi mál séu orðin þannig með okkar landhelgi að við slökum eitthvað á þeim ákaflega ströngu reglum, sem við höfum haft varðandi þessi mál, og metum þar aðstæður eitthvað léttar en við höfum gert. En ég held að það sé rétt, sem hér hefur verið sagt, að það sé ekki ástæða til þess að veita þetta leyfi í þessu tilfelli.

Hér hefur verið sagt í nokkurri vonsku um málið að víð séum svo hræddir við útlendinga og útlenda samninga í öllum tilfellum, að við þorum þar ekki neitt, og höfð uppi stór orð um það. Hér er enginn ótti við útlendinga á ferðinni eða útlenda samninga. Það er ekki um það að ræða. Hér er hreinlega ótti við að það liggi fyrir fleiri mjög hliðstæðar beiðnir fljótlega sem erfitt verði að neita ef þetta fordæmi verður gefið.

Ég skal svo ekki hafa um þetta fleiri orð. Ég gæti nefnt mörg dæmi varðandi þetta mál þar sem við höfum gengið ótrúlega langt í því að sýna gætni um það að hleypa ekki erlendum skipum inn í okkar landhelgi á neinn hátt. Ég minnist t.d. í einu tilfelli að það þótti æðihart þegar íslenskir útvegsmenn og sjómenn misstu skip sitt í byrjun vertíðar, að þá skyldi þeim ekki heimilað að taka á leigu erlent skip og halda útgerðinni áfram á þeirri vertíð. En slík dæmi eru fyrir hendi. Sem sagt, mín afstaða er sú að ég styð frv., eins og það var flutt og liggur hér fyrir, en er á móti því bráðabirgðaákvæði sem var sett inn í Ed. Ég sé þó enga ástæðu til þess að segja neitt ljótt um þá í Ed., þó að þeim hafi sýnst að þetta væri óhætt. En ég held að að athuguðu máli og eins og málið liggur núna fyrir sé óhyggilegt að samþykkja þetta bráðabirgðaákvæði.