19.12.1974
Neðri deild: 31. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1256 í B-deild Alþingistíðinda. (1060)

106. mál, löndun á loðnu til bræðslu

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Það liggur við að maður kinoki sér við að taka þátt í og blanda sér í þær sérkennilegu og skemmtilegu umr. sem hér fara fram. Hér er deilt um eitt atriði í sambandi við þetta mál, þ.e.a.s. um það bráðabirgðaákvæði sem kom inn í Ed. Það er ákaflega einfalt og ljóst og ætti þess vegna ekki að þurfa að hafa langar orðræður um það. Þm. ættu við nafnakall að geta greitt atkv. um það án þess að fram færu mjög miklar umr., því að mér finnst málið liggja svo skýrt fyrir.

Mér er gersamlega ómögulegt að skilja hvernig menn geta blandað þessu ákvæði saman við milliríkjasamninga við aðrar þjóðir um rétt þeim til handa til fiskveiði og halda að með slíkri samþykkt sem þessari verði skapað eitthvert fordæmi eða hún geti veikt eitthvað aðstöðu okkar í þeim efnum. Ég hef ekki getað heyrt þau rök flutt sem hafa breytt skoðun minni í því efni. Hér er tvennu algerlega ólíku saman að jafna, milliríkjasamningi um fiskveiðiréttindi til handa þegnum þeirra þjóða og hins vegar það tilfelli sem hér er um að ræða, undanþágu til einkaaðila um tiltekinn tíma fyrir eitt skip sem gert er út af íslenskum aðila og skipað er íslenskri áhöfn, þannig að ég get ómögulega fallist á þau rök að þetta snerti á nokkurn hátt okkar landhelgismál og við þurfum að gjalda nokkurn varhug við því af þeim ástæðum. Hitt er svo allt annað mál, hvort það eru aðrar efnisástæður sem valda því að menn vilja ekki fallast á þetta mál. Það getur vel verið. En ég get ekki fallist á að það séu efnisástæður sem eru andstæðar því að þessi undanþága sé veitt um það tveggja mánaða tímabil sem þarna er um að tefla.

Ég held, að það hljóti að verða svo, jafnvel þótt skipið sé skráð erlendis, að þá sé það þannig að þegar það er gert út af íslenskum aðila og áhöfnin er íslensk, þá hljóti arðurinn af þeirri veiði að lenda í íslenskum höndum, til íslenskra aðila, svo að ekki getur sú mótbára verið mjög því til fyrirstöðu, jafnvel þó að leigu þurfi að greiða eftir skipíð. Hitt er hins vegar ljóst og hefur verið tekið fram að á því svæði, sem þarna er um að ræða, eru afkastamikil tæki til þess að vinna loðnu — og það jafnvel í eigu ríkisins sjálfs — sem standa ekki allt of sterkum fótum þótt þau fengju möguleika á því að vinna loðnu á þessum tíma. Og fyrir fólkið á þessum stöðum getur það auðvitað haft nokkra þýðingu. Ég geri samt ekki mikið úr þessu og tel þetta ekki stórmál, því að þetta getur ekki skipt neinu verulegu máli í sambandi við atvinnuá þessum stöðum. Þess vegna hef ég nú ekki tekið til máls nema af því að mér fannst og finnst svo fjarstætt að vera að blanda þessu saman við okkar landhelgismál að ég get ekki látið slíku ómótmælt.

Með þessu er sem sagt skýrt að það er Alþ. sem veitir þetta leyfi og undirstrikar þar með að það er auðvitað það sem hefur réttinn yfir þessu svæði og getur veitt slíkt leyfi, undirstrikar því að nokkru sinn yfirráðarétt yfir því.

Að því er það varðar að þetta skapi fordæmi, þá held ég að það sé vart hægt að ræða um slíkt þegar þetta er í höndum Alþ. Það er Alþ. þá í hvert eitt sinn sem á að taka ákvörðunina. Það væri allt öðru máli að gegna ef hér væri nm að raða að veita einhverju stjórnvaldi heimild til þess að veita þessa undanþágu. En Alþ. afsalar sér engum rétti með þessu, og ef önnur þvílík tilfelli kæmu upp hefur Alþ. það auðvitað alveg á sínu valdi að taka þá ákvörðun sem það telur þá rétta miðað við allar aðstæður, óbundið af öllum fordæmum, þannig að ég mun ljá þessu ákvæði, sem samþ. var shlj. í Ed., atkv. mitt, en tel það að öðru leyti ekki stórt mál.

Ég vil þó segja það, að ég vil taka undir með hv. 8. þm. Reykv. að ég kann ekki við þann tón sem kom fram í því bréfi frá Landssambandi ísl. útvegsmanna sem hér var upp lesið. Ég felli mig ekki við að einstakar stofnanir í þjóðfélaginu, hvort heldur það er Landssamband ísl. útvegsmanna eða einhver önnur stéttasamtök eða önnur, tali til Alþ. í þeim tón að í honum felist hótanir eða skipanir. Það hefur þveröfug áhrif á mig við það sem til er ætlast og ég læt ekki skipa mér þannig fyrir verkum á einn eða annan hátt.