19.12.1974
Neðri deild: 31. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1263 í B-deild Alþingistíðinda. (1065)

106. mál, löndun á loðnu til bræðslu

Garðar Sigurðsson:

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa um þetta langt mál. En ég verð að segja það að mér finnst dálítið einkennilegur málflutningur hv. þm. Sverris Hermannssonar, þegar hann er búinn að flytja hér hverja ræðuna af annarri í dag, að svo og svo miklu leyti rakalausan þvætting, þá leyfir hann sér að tala um að það sé holhljómur í ræðum annarra manna og talar um að aðrir menn sýni ekki af sér hógværð, — þessi maður, sem böðlast hér um í stólnum eins og naut í flagi og eys svívirðingum yfir annan hvern hv. þm. Röksemdirnar, sem hann tínir til — (SvH: Þú varst mér sammála í gærkvöld, og varst tilbúinn að skrifa undir nál. um það.) Þegar þessi hv. þm. er að þykjast vera með einhverjar röksemdir hér í málinu, sem hann kallar svo, og fer að líkja þessu litla máli við það að við flyttum inn í stórum stíl erlend skip til veiða í íslenskri landhelgi, flyttum inn erlenda togara o.s.frv., þá er auðvitað komið svo að menn hætta að hlusta á röksemdir slíkra manna.

Ég var dálítið smeykur við það þegar við fengum þetta mál, eins og mörg önnur mál sem við höfum fengið nú undanfarið fyrirvaralaust til meðferðar, svo sem á síðasta fundi þegar við vorum kallaðir með tveggja mínútna fyrirvara á fund í hv. sjútvn. til þess að afgreiða tvö býsna stór mál án þess að hafa fengið tækifæri til að sjá þau áður. Þá var ég, þegar við fengum þetta mál á fundi í gærkvöld, dálítið smeykur við að það kynni að skapa fordæmi. Eftir að sá fundur var haldinn hef ég hugsað þetta mál dálítið meira og betur, því að þetta mál er óneitanlega dálítið sérstakt. Þarna er um að ræða eitt skip sem er að talsverðum hluta í eigu íslenskra aðila og það er ekki nein eign að nafni til. Það er hver einasti maður í áhöfn skipsins íslendingur og það, sem farið er fram á, er einnig mjög takmarkað, þ.e. að fá að stunda loðnuveiðar hér í eina tvo mánuði á tilteknu ári. Það er ekki verið að gefa þessu skipi leyfi til þess að veiða hér loðnu yfir höfuð eins og öðrum skipum framvegis, heldur eru tilteknir tveir mánuðir á árinu 1975, og það er ómögulegt að fallast á að í því geti verið mikil hætta.

Varðandi fordæmið er hægt að segja það, að ef einhverjir aðilar kæmu hér og sæktu um að fá að stunda veiðar hér við land og landa afla sínum hér í höfnum, þá kemur auðvitað til kasta Alþ. hverju sinni vegna þess að til þess þarf lagabreytingu, eins og verið er að gera nú, og þá getur Alþ. stöðvað hvert eitt það mál, ef því sýnist svo. Ég er ekki viss um að þau erindi væru svipuð og þetta, með öllum þeim sérkennum sem þetta mál býr yfir.

Mönnum hefur orðið nokkuð tíðrætt um svokallaða umsögn Landssambands ísl. útvegsmanna. Þessi umsögn er byggð á erindi eiganda Ísafoldar sem við höfum verið að ræða um hér í kvöld. En þegar þeir eru að skrifa þetta svar, þá lítur erindið allt öðruvísi út en það gerir hjá okkur hér í hinu háa Alþ. Og svörin eru auðvitað miðuð við það sem það bréf fól í sér, m.a. um það að verða undanþegin eða fá úr öllum sjóðum eins og önnur íslensk skip. Nú er aðeins farið fram á að fá brúttóverð af loðnunni, en ekki út úr neinum sjóðum. hvorki olíusjóði, flutningasjóði né öðrum. Þess vegna falla fyrstu greinar úr umsögn Landssambands ísl. útvegsmanna algerlega um sjálfar sig. Í 3. gr. þessarar umsagnar segir berum orðum með miklum frekjugangi — og það mætti halda að hv. þm. Sverrir Hermannsson væri alinn upp þar á skrifstofunni — að ef ekki verði farið skilyrðislaust eftir kröfum þeirra, þá séu þeir hættir, þá taki þeir mann sinn út úr n. Þeir fara sem sagt í fýlu eins og smákrakkar. Þessi grein í umsögninni er rituð af slíkum dónaskap að það er eins og formaður samtakanna, Kristján Ragnarsson, líti á sig sem eins konar yfirmann og stjórnanda hæstv. sjútvrh. En það er sem betur fer ekki orðið enn.

Það er, eins og ég segi, ekki ástæða til að vera að eyða mjög löngum tíma í að skeggræða þetta mál miklu lengur. En það má þó lesa hér síðustu greinina í nál. Ed., ég er með það hér, en þar segir að rn. muni setja alveg sérstakar reglur um hvernig þessu leyfi verði háttað.

Hvort sem hv. þm. Sverrir Hermannsson tekur efasemdir mínar í þessu máli í gærkvöldi sem eitthvert fylgi við skoðun sína í málinu eða ekki, það er hans að bera ábyrgð á því sem hann segir. Ég var aðeins hugsi yfir því hvort þetta kynni að skapa fordæmi, en við nánari skoðun er ég kominn inn á að vera samþykkur því að veita þetta leyfi.