20.12.1974
Sameinað þing: 29. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1303 í B-deild Alþingistíðinda. (1110)

1. mál, fjárlög 1975

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs vegna brtt. sem ég stend að ásamt allmörgum öðrum hv. þm. Þessi brtt. varðar heiðurslaun listamanna skv. ákvörðun Alþingis. Þessi brtt. er í fyrsta lagi í því fólgin að liðurinn, sem um þetta fjallar í fjárl., verði hækkaður um 200 þús., úr 4 millj. í 4 millj. og 200 þús., og síðan kemur sundurliðun sem ætlað er að birt verði á sérstöku yfirliti, en eins og hv. þm. vita er gert ráð fyrir því og hefur verið svo um mörg undanfarin ár, að allmargir listamenn, nú 12, hljóti sérstök heiðurslaun á fjárlögum.

Þannig háttar núna til, að 3 listamenn, sem nutu þessa heiðurs á yfirstandandi ári, hafa látist á árinu, þ.e.a.s. Guðmundur Böðvarsson skáld, Þórbergur Þórðarson rithöfundur, og Páll Ísólfsson tónskáld. Af þessum sökum eru skörð þessara manna opin og þau þarf að fylla. Það hlutverk hefur verið falið menntmn. þingdeildanna að fjalla um tilnefningu manna í þennan heiðurslaunaflokk og mun það skipulag hafa gilt nú í 2–3 ár.

Menntmn. beggja d. hafa haldið sameiginlega fundi um þetta mál og rætt það á fundum sínum. Þar var gerð að sjálfsögðu tilraun til þess að ná samkomulagi um tilnefningu um menn í þennan heiðursflokk. Ég sé ekki ástæðu til að rekja umr. sem fram fóru á þessum fundum nm., ég held þó að segja megi að þær hafi farið vinsamlega fram, þó að sitt hafi sýnst hverjum í ýmsum þeim atriðum sem þarna var um að ræða. Niðurstaðan af þessum fundum menntmn. var sú, að menn urðu ekki á eitt sáttir um tillögugerð.

till., sem hér liggur fyrir, er flutt af 9 mönnum sem sæti eiga í menntmn. Alls eiga sæti 14 menn í þessum n, samanlagt, en 13 mættu á fundunum, þannig að 9 standa að þessari till., en 4 eiga ekki aðild að þessum tillöguflutningi. Það kemur fram raunar á þskj. 240 hverjir að þessu standa ásamt mér. Það eru hv. þm. Steinþór Gestsson, Steingrímur Hermannsson, Ellert B. Schram, Eyjólfur K. Jónsson, Ingi Tryggvason, Þorv. Garðar Kristjánsson, Sigurlaug Bjarnadóttir og Gunnlaugur Finnsson. En þeir nm., sem ekki standa að þessari tillögugerð eru Ragnar Arnalds, Svava Jakobsdóttir, Magnús T. Ólafsson og Jón Árm. Héðinsson.

Þannig var háttað störfum þessarar n., að eftir að við höfðum rætt þetta á við og dreif, menn höfðu lýst viðhorfum sinum til þessa verkefnis, fór fram skoðanakönnun innan n, um það, hvaða listamenn skyldi tilnefna í stað þeirra þriggja sem látist höfðu. Niðurstaðan varð sú eftir þá skoðanakönnun, að flest atkv. fengu 3 listamenn, þ.e.a.s. Indriði G. Þorsteinsson rithöfundur, Guðmundur Daníelsson rithöfundur og Þorvaldur Skúlason listmálari. Það var skoðun okkar, sem stöndum að þessari till., að rétt væri að láta þessa skoðanakönnun gilda um þá tilnefningu sem hér liggur nú fyrir. Við höfum því lagt til, og í rauninni er breyt. sú fyrst og fremst efnislega, fyrir utan þá hækkun á fjárveitingu sem þarna er lagt til, — hún er sú fyrst og fremst að rithöfundarnir Indriði G. Þorsteinsson og Guðmundur Daníelsson og Þorvaldur Skúlason listmálari verði teknir í þennan heiðurslaunaflokk.

Ég sé ekki ástæðu til þess, herra forseti, að ræða þetta frekar og legg þessa till. fram hér og vænti þess að hún hljóti stuðning hv. þm.