20.12.1974
Sameinað þing: 29. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1324 í B-deild Alþingistíðinda. (1120)

1. mál, fjárlög 1975

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Eins og fram kemur á þskj. 221, í nál. frá samvn. samgm., þá hef ég ritað undir það nál. með fyrirvara og ég vil aðeins með örfáum orðum gera grein fyrir því, vegna hvers ég hef undir þetta skrifað með fyrirvara. Það er vegna þess framlags, sem þarna er gert ráð fyrir vegna Djúpbátsins hf., Fagraness. Þetta fyrirtæki hefur nú um tveggja eða þriggja ára skeið átt í nokkrum erfiðleikum að því er varðar fjárhagshlið rekstrarins. Þarna er um að ræða aðila sem hefur verið nokkuð mörg undanfarin ár með tiltölulega lægri styrkveitingu á þessum lið en aðrir sambærilegir bátar, og mér fannst því eðlilegt að það mætti hafa til hliðsjónar þá sérstöku erfiðleika sem þetta fyrirtæki á nú í, þess vegna gerði ég þennan fyrirvara. Málið stendur þannig nú að þetta fyrirtæki er með um 7 millj. kr. skuld vegna rekstrartaps fyrri ára. Ég hef rætt þetta bæði við hæstv. samgrh. og hæstv. fjmrh. og ég veit ekki annað en að þeir báðir séu jákvæðir í þessu máli og séu til þess reiðubúnir að veita því lið. Ég tel a.m.k. á þessu stigi að það sé sú viðunandi lausn sem ég get sætt mig við. Ég vildi samt sem áður hafa allan fyrirvara á því, að vera ekki bundinn, ef illa til tækist að því er þetta varðar.

Ég ætla ekki frekar að ræða þetta, en fyrirvari minn byggðist á þessu, að það er þarna mikið vandamál á ferðinni sem þarf að fá lausn. En þar sem mér er um það kunnugt að báðir þessir hæstv. ráðh., sem ég hef hér nefnt, eru jákvæðir við að veita þessu máli lið, þá mun ég ekki frekar ræða það eða gera frekari aths. þar við,

Það fór reyndar eins og ég reiknaði með, að hæstv. samgrh. yrði til þess að koma mér hér upp enn einu sinni, og það var vegna þeirra orðakasta sem við áttum í víð 2. umr. fjárl. Mér fannst nú hæstv. samgrh. taka heldur óstinnt upp þau tiltölulega meinlausu orð sem ég viðhafði. Okkur greindi fyrst og fremst á í þremur atriðum sem þá voru rædd — og þó einkanlega tveim.

Það er í fyrsta lagi í sambandi við afgreiðslu á láni frá Atvinnuleysistryggingasjóði til Hafnabótasjóðs. Hæstv. ráðh. sagði orðrétt að þetta lán hefði verið afgr. í þessum mánuði. Ég leyfði mér að draga í efa að svo hefði verið og orðaði það þannig vegna þess, eins og ég sagði þá, að í síðari hluta septembermánaðar hafði á fundi í undirnefnd fjvn. verið um þetta rætt og þar hefði komið fram önnur vitneskja. En ég ætla að sleppa henni. Staðreyndin er sú, að þetta lán var afgr. úr Atvinnuleysistryggingasjóði 6. nóv. s.l. Ég held því að það fari ekkert milli mála að það var ekki í þessum mánuði, heldur var það í byrjun nóv., sem þetta lán var afgr. frá Atvinnuleysistryggingasjóði, formlega samþ. þar og staðfest, þannig að ég held að ég hafi ekki sýnt neina óbilgirni í því að draga í efa að réttar væru þær upplýsingar sem hæstv. ráðh. hafði. Nóg um það.

í öðru lagi greindi okkur allmiklu frekar á um hinn margnefnda stað nú hér síðustu daga, Súðavík. Ég hélt því fram að ég drægi stórlega í efa einnig að það væru réttar upplýsingar sem hæstv. samgrh. var þá með um að ekki lægju fyrir nógu ljósar till. um framkvæmdir í Súðavík sem þyrfti að veita fjárveitingu til á árinu 1975. Ég taldi, að það lægju fyrir nægilega undirbúin verkefni til þess að vinna það verk sem við vorum að gera till. um fjárveitingar til, og dró þess vegna í efa að það væri rétt sem hæstv. samgrh. hélt fram, að þetta væri allt svo óljóst að ekki mundi þýða að að veita fjárveitingu til þess að þetta verk yrði unnið. Hæstv. ráðh. endurtók þetta í kvöld og sagði orðrétt: „Allt er óljóst eins og fyrr í Súðavik,“ en sagði þó í áframhaldi af því: „Ég mun þó sjá til þess að súðvíkingar fái 3 millj. kr. greiðslu til framkvæmda á árinu 1975.“ Nú þykir mér slæmt að hæstv. ráðh. skuli ekki vera hér við til þess að segja bæði mér og öðrum hv. þm. á hvern hátt hann ætlar að afgr. þessa 3 millj. kr. greiðslu.

Það hefði mér þótt gott að vita. En hvað um það, síðan þessar umr. áttu sér stað við 2. umr. málsins hér hafa mér borist tvö símskeyti, bæði frá Súðavík. Og þar sem mér er um það kunnugt, að hæstv. samgrh. hefur einnig borist skeyti þessa efnis og hann veit hvernig mál standa að áliti heimamannanna, þá tel ég rétt með hliðsjón af því sem áður hefur verið sagt, að mér fannst hæstv. ráðh. taka þetta heldur óstinnt upp og ásakaði mig fyrir að vera með óbilgirni og óréttmætar ásakanir í hans garð að því er þetta varðaði, með leyfi hæstv. forseta, að lesa úr þessum tveim skeytum, því að ég tel að það sé nauðsynlegt að það komi hér fram vegna áður nefndra umr., hvert álit heimamanna í þessum efnum er. Hið fyrra er þannig:

„Halldór E. Sigurðsson, samgrh.

Alþingi,

Reykjavík.

Vegna ummæla yðar um mjög nauðsynlegar hafnarbætur í Súðavík leyfi ég mér að upplýsa að allar rannsóknir og áætlanir vegna framkvæmdanna eru fyrir hendi og vísa nánar til yfirverkfræðings Hafnamálastofnunarinnar, Daníels Gestssonar, varðandi málið, samkv. símtali við hann í dag.

Oddviti Súðavíkurhrepps,

Halldór Magnússon.“

Ég geri ráð fyrir að hæstv. samgrh. sé búinn að fá þessar upplýsingar, sem hér er vitnað til, hjá yfirverkfræðingi Vita- og hafnamálaskrifstofunnar, þannig að það ætti nú að liggja ljóst fyrir. Það hefði átt að liggja ljóst fyrir hér í dag þegar hæstv. ráðh. flutti sitt mál, en hann endurtók eigi að síður að allt væri enn óljóst.

Hið síðara skeyti er til vita- og hafnamálastjóra Aðalsteins Júlíussonar, og ég ætla að leyfa mér að lesa það líka, með leyfi hæstv. forseta:

„Vita- og hafnamálastjóri Aðalsteinn Júlíusson,

Seljavegi 32, Reykjavík.

Geri hér með ákveðna kröfu til að þér leiðréttið nú þegar ummæli samgrh. á Alþ. 16. des. s.l. varðandi ófullnægjandi undirbúning og rannsóknir að fyrirhugaðri hafnargerð í Súðavík 1975.

Oddviti Súðavíkurhrepps.“

Ég held að þeir, sem heyra þetta, hljóti að sannfærast um að það var til þess fullkomin ástæða hjá mér við þessar umr., sem ég hef nú hér vikið að, að draga í efa réttmæti þeirra upplýsinga sem hæstv. samgrh. var hér með við 2. umr. fjárl. að því er varðaði þennan stað.

Ég skal ekki frekar fara um þetta orðum, en ég taldi sjálfsagt og nauðsynlegt að þetta álit oddvita viðkomandi hrepps, sem er þar að auki flokksbróðir hæstv. samgrh., lægi hér fyrir. Ég efast ekkert um það, að ef málið væri ekki svona, eins og hann segir til um, þá léti hann ekki fara frá sér staðfest símskeyti eins og þau sem ég hef hér vitnað til, þannig að ég tel að ég hafi hér með fært sönnur á að það er að áliti heimamanna og að ég hygg að áliti yfirverkfræðings Vita- og hafnamálaskrifstofu fullljóst hvað á að gera í Súðavík á árinu 1975. Þess vegna er full ástæða til og full þörf á fjárveitingu til þess staðar.