20.12.1974
Sameinað þing: 29. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1332 í B-deild Alþingistíðinda. (1123)

1. mál, fjárlög 1975

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Enda þótt það komi ekki minni litlu till. við, þá gríp ég tækifærið til að leiðrétta það sem fram kom í ræðu hv. 5. þm. Norðurl. e., að ekki yrði lítið til báta undir 20 smálestum í þeim ráðstöfunum sem gerðar verða vegna gengishagnaðar. Talan var 12 smálestir. Það var margtekið fram í framsögu sem gilda á sem grg. með þeim lögum. Eftir því verður farið. (Gripið fram í: Ráðh. Sjálfstfl. hafa lofað mörgu í mörg ár sem þeir hafa ekki efnt.) Hér er ekkert um loforð að tefla. Þetta er bókað á hinu háa Alþ., hvort sem hv. þm. treystir því eður eigi, og ef hann treystir því ekki, þá á hann hingað ekkert erindi.

Ég á hér örlitla till. ásamt með hv. þm. Tómasi Árnasyni, Halldóri Ásgrímssyni og Helga F. Seljan, og má heita að hún sé stafsetningaratriði, og er það ekki í fyrsta skipti sem ég þarf að þræta um þau mál hér. Hún á sérstöðu að því leyti, ef hún verður samþ., að hér er ekki lögð til hækkun fjárl. Það bar til í fjvn. sökum anna að niður féll að veita til íþróttahúss við Nesjaskóla í Austur-Skaftafellssýslu 300 þús. kr. sem byrjunar- eða undirbúningsframlag til framkvæmda þar. Til þess nú að bjarga heiðri hv. fjvn. greip ég til þess ráðs að lækka framlag í fjárl. til Nesjaskóla, 1. og 2. áfanga úr 3 millj. 407 þús. ofan í 3 millj. 107 þús. og að þær 300 þús., sem með þessum hætti eru þar frá dregnar, verði veittar til undirbúnings íþróttahúss. Þetta geri ég allt, eins og menn sjá strax í hendi sinni, til þess að leiðrétta afglöp hv. fjvn.