20.12.1974
Sameinað þing: 29. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1332 í B-deild Alþingistíðinda. (1124)

1. mál, fjárlög 1975

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Það er komið að lokum þessarar 3. umr. fjárl. og skal ég ekki lengja umr. um of, en mig langar þó til að víkja nokkuð að væntanlegri afgreiðslu frv. eins og það dæmi sýnist nú líta út .

Ég get þó ekki látið hjá líða að svara nokkrum orðum ræðu hv. 11. landsk. þm., Geirs Gunnarssonar, frsm. minni hl. fjvn., sem bæði í ræðu sinni við 2. umr. fjárlfrv. svo og nú við 3. umr. gerði að umræðuefni sérstaklega þá ofþenslu og þær tölur sem nú er fjallað um í fjárlfrv. En það var þó með dálítið einkennilegum hætti sem þessi hv. þm. ræddi um þessa hluti, því að í hans augum var þetta allt of hátt sem hér var lagt til, en samt ekki nærri nóg. Við 1. og 2. umr. fjárl. frv. vék hv. þm. að því að nú væri um að ræða stefnubreytingu, það væri komin að völdum í landinu ríkisstj. sem hygðist standa að samdrætti og Alþ. yrði að sporna við því. Millikaflinn var annars vegar að tekist hefði að breyta um af hálfu fjvn., en engu að síður væri um að ræða samdrátt og það gæti Alþ. ekki liðið. Þegar kom svo að 3. umr. var allt í einu orðin ofþensla og fjárl. aldrei verið hærri og verið að stefna öllu saman í voða. Mig langar til að vekja athygli á því að fari eins og sýnist, þá verður hækkun frv. til fjárl. ársins 1975 aðeins 5.5%. Gerum okkur grein fyrir því að fjárlfrv. fyrir árið 1975 er samið í septembermánuði, örfáum vikum eftir að hv. 11. landsk. þm. er kominn úr stjórnarandstöðu, að það er grundvallað á þróun mála í tíð fyrrv. ríkisstj. og niðurstöður þess því að kenna, ef um er að kenna, efnahags- og fjármálapólitík þeirri sem fyrrv. ríkisstj. rak. Þegar 3. umr. fjárl. fer nú fram og gerður er samanburður á hækkun frv. fá 1. umr. þar til það mun verða samþ. sem lög, eins og sýnist horfa, þá er um að ræða 5.5% hækkun eða hækkun um 2.5 milljarða.

Nú vill svo til að þessi ágæti þm. hefur verið form. fjvn. s.l. 3 ár og er þess vegna ekki úr vegi að borið sé saman fjárlfrv. og fjárl. þeirra ára sem hann veitti fjvn. forustu og hver hækkunin hefur orðið frá frv. til laganna. Árið 1972 hljóðar fjárlfrv. upp á 13 milljarða 971 millj., fjárl. upp á 16 milljarða 550 millj. eða 18.5% hækkun. 1973 hljóðar frv. upp á 19 milljarða 868 millj., en fjárl. upp á 21 milljarð 457 millj. Hér er um að ræða 8%. 1974 er fjárlfrv. upp á 27 milljarða 437 millj., fjárl. upp á 29 milljarða 402 millj. Hér er um að ræða 7.2% hækkun, En það var vitað að inn í frv. vantaði útgjaldaliði upp á a.m.k. 800 millj. og er þá varlega áætlað, sem þýtt hefði að fjárl. hefðu orðið 30 milljarðar og 200 millj. og hækkunin því frá frv. til fjárl. 10%. Þeir aðilar, sem standa að slíkum vinnubrögðum geta varla að mínum dómi komið til þess að gagnrýna fjvn. og Alþ. fyrir þær till. sem hér hafa verið samþ., enda þótt mér sé ljóst að fullspennt er.

Upphafleg tekjuáætlun frv. var sem kunnugt er í aðalatriðum reist á verðlagi og kaupgjaldi eins og það var í septembermánuði s.l. Meginforsenda þess um magnbreytingar helstu veltustærða á árinu 1975 var sú að almenn þjóðarútgjöld héldust svipuð á næsta ári og spáð var að þau yrðu í ár og að nokkuð dragi úr innflutningsmagni á næsta ári. Nú liggur að sjálfsögðu fyrir nánari vitneskja um ýmsa þætti þjóðarbúskaparins og um innheimtu ríkistekna í ár en menn höfðu þegar frv. var samið. Enn ríkir þó veruleg óvissa um ytri skilyrði þjóðarbúsins og þróun verðlags og launamála innanlands á næsta ári.

Þjóðhagsstofnunin hefur nýlega sett fram frumdrög þjóðhagsspár fyrir næsta ár og eru þau lögð til grundvallar við endurskoðun tekjuáætlunar. Helstu niðurstöður þessara frumdraga, sem skoða má e.t.v. fremur sem undirstöður fyrir skoðanamyndun á þjóðhagshorfum og lýsingu viðfangsefna á sviði efnahagsmálanna á næsta ári en sem beina spá um niðurstöður, eru þessar: Að vænta megi þess að þjóðarframleiðslan geti aukist nokkuð 1.5–2.5% að magni á næsta ári, en jafnframt, vegna versnandi viðskiptakjara muni þjóðartekjur fremur minnka en aukast að raunverulegu verðgildi, e.t.v. svo að nemi 1%. Að í þessu felist að nokkuð muni draga úr eftirspurnarþrýstingi á vinnumarkaðnum í heild, þó ekki þannig að atvinnuástand bili. Að draga muni verulega úr verðhækkunum innanlands á árinu, en það er aftur á því byggt að heldur hægi á alþjóðlegri verðbólgu og kjarabreytingar innanlands verði hóflegar. Að viðskiptajöfnuður við útiönd verði áfram allóhagstæður og að horfur um þróun gjaldeyrisstöðunnar séu nokkuð tvísýnar, þó megi ætla að ekki gangi frekar á gjaldeyrisvarasjóðinn.

Þetta síðasta mat er þó ýmsu háð. Þannig setti stofnunin fram í grg. til fjmrh. og fjvn. tvær meginhugmyndir um minnkun innflutningsmagns, 4% eða 6% minnkun almenns vöruinnflutnings, sem undirstöður tollaspár næsta árs. Í frv., eins og það liggur fyrir, er nú reiknað með 4% minnkun. Óvissa ríkir einnig um getu okkar til að afla nægilegs lánsfjár erlendis á næsta ári, m.a. til þess að mæta olíuverðshækkun svo að ekki sé minnst á óvissar aflahorfur og útflutningsverðlag á fiskafurðum. Vonandi getur þó úr öllu þessu ræst fremur betur en miður en menn þora nú að ætla. Þessi spá, eins og allar slíkar, er að sjálfsögðu ekki eingöngu háð óvissum ytri aðstæðum heldur einnig því hvernig við hér heima bregðumst við þeim en í heild verður hún að skoðast reist á varfærinni bjartsýni.

Niðurstaða endurskoðaðra tekjuliða frv. fól að mati Þjóðhagsstofnunar í sér 1470–2096 millj. kr. hækkun almennra tekna frá upphaflega frv., eins og fram hefur komið. Þá er í reynd miðað við sem næst óbreytta fjárhæð tekjuskatts einstaklinga 1975 frá upphaflegri áætlun, þrátt fyrir það að nú liggur fyrir áætlun um 51% í stað 45% hækkun tekna milli ára 1973 og 1974, Þessu er náð með því að hækka skattvísitöluna í 151 stig til jafns við tekjur og auka hina sérstöku lækkun í sambandi við fyrirhugaða skattkerfisbreytingu úr 500 millj. í 700 millj. kr. Hér er tekið mið af því að bein skattbyrði einstaklinga, þ.e.a.s. við álagningu tekju- og eignarskatts, útsvars og fasteignaskatts, verði sem hlutfall af tekjum liðins árs svipuð því sem reiknað var með í fjárlfrv. Bein skattbyrði einstaklinga er í ár áætluð 16.6% af tekjum ársins 1973, en yrði á næsta ári skv. framansögðu 16–16.5% af tekjum ársins 1974, eftir því hvort miðað er við álagningu útsvars með álagi eða ekki á næsta ári. Munurinn á þeim tveimur dæmum liggur þannig eingöngu í óbeinum sköttum og ekki síst í tollum og þar með tollum af bílum.

Til þess að gefa hugmynd um þær breyt., sem hér er um að ræða, má geta þess að í ár er búist við að bílainnflutningur verði milli 10 þús. og 11 þús. bílar. Í tekjuáætlun, eins og hún liggur hér fyrir, er reiknað með 6 000 bílum 1975, en í lægra dæminu, sem nefnt var 5 000 bíla innflutningi. Hér er því um mikla sveiflu í hátollavöruinnflutningi að ræða í spám fyrir næsta ár, sem auðvitað dregur úr ríkistekjum. Eftir atvikum þótti rétt að reikna með 2 096 millj. kr. hækkun almennra tekna, þótt það skuli fúslega játað að þar kunni að vera um nokkra bjartsýni að ræða. En hér er þó á því byggt að breyt. á næsta ári verði mun hófstilltari en verið hefur. Bregðist þessi tekjuáætlun verður við því brugðist eftir því sem efni standa til þegar þar að kemur, því að ekki er rétt að tefla á tæpasta vaðið.

Vegna þessarar endurskoðunar tekna þótti mér rétt, eins og ég hafði raunar lýst yfir við 1. umr. frv., að auka fjárveitingu til þess að innleysa fyrstu spariskírteini ríkissjóðs frá 1964 um 215 millj. í 715 millj. kr. þannig að fé sé ætlað fyrir öllu andvirði útgáfunnar með vöxtum og verðbótum, og kemur það fram í till. fjvn.

Í framsögu form. fjvn. hefur þegar verið gerð grein fyrir breyt. milli umr. Ég ætla aðeins að fara nokkrum orðum um þá auknu útgjaldaliði sem orðið hafa í meðförum frv. frá því að það var lagt fram.

Fjárlagagerðinni voru af hálfu ríkisstj. í upphafi sett þrjú meginmarkmið: Í fyrsta lagi að sporna við útþenslu ríkisbúskaparins miðað við önnur svið efnahagsstarfseminnar í landinu. í öðru lagi að stilla opinberum framkvæmdum svo í hóf að ekki leiði til óeðlilegrar samkeppni um vinnuafl, án þess að atvinnuöryggi sé stefnt í hættu eða það komi niður á þjóðhagslega mikilvægustu framkvæmdum. Í þriðja lagi að styrkja fjárhag ríkissjóðs og stuðla jafnframt að efnahagslegu jafnvægi í víðara skilningi, en það verður eitt meginviðfangsefnið á næsta ári.

Fjárlfrv. er að þessu sinni samið við erfiðar aðstæður í þjóðarbúskapnum og öra verðbólgu og ber þess óhjákvæmilega merki. Öll viðleitni til að hægja á ferðinni á örðugt uppdráttar og geysistór hluti er bundinn með lögum öðrum en fjárl. Í meðförum frv. hefur komið í ljós að m.a. vegna hins knappa tíma, sem til stefnu var við undirbúning þess, hafa fjárveitingar og fjáröflun til orkumála ekki verið áætlaðar nægar í upphafi. Eins hefur mönnum orðið æ ljósari sá mikli vandi sem við er að glíma á sviði orkumála og hafa komið fram nýjar áætlanir sem brýna nauðsyn ber til að koma fram. Öryggisleysi í orkumálum í stórum landshlutum er ekki viðunandi ástand og úr því verður að bæta. Gjörbreytt orkuverðlag í heiminum gerir að verkum að það, sem fyrr var talið þörf, er nú nauðsyn í þessum efnum. Þessi sókn til nýtingar innlendra orkugjafa vatnsafls og jarðvarma, og umbætur í dreifikerfinu setur því svip sinn á viðbótarframkvæmdir frá upphaflegu fjárlagafrv. og rýmkaðar lántökuheimildir í 6. gr. frv.

Æskilegt hefði verið að á þessu sviði lægi fyrir skipuleg heildaráætlun með röðun verkefna í forgangsröð fyrir næstu 3–5 árin, en því er því miður ekki að heilsa. því verðum við að bjargast sem best við getum og megum ekki stöðva þjóðþrifaframkvæmdir af þessu tagi. En hér er margt óvíst enn. Auðvitað hefði verið æskilegt að aðrar framkvæmdir vikju fyrir orkuframkvæmdum, en þess hefur ekki reynst kostur því að alls staðar kalla þarfirnar,

Af þessari endurskoðun hefur leitt að afla þarf lánsfjár til orkumála. Alls er með till. fjvn. svigrúm orkumála aukið um nálega 1 milljarð frá upphaflegu frv., sem endurspeglar vel þann forgang sem þessu sviði er nú gefinn, þótt á þessari stundu sé auðvitað ekki hægt að sjá fyrir hversu heimildirnar verða nýttar, enda verður nýting þeirra háð ríkisstjórnar samþykkt hverju sinni, Auk þess hefur form. fjvn. gert grein fyrir öðrum viðbótarlántökuheimildum.

Í meðförum þings og fjvn. hafa framkvæmdatill. hækkað, m. a. í skólum um 270 millj. kr. og til sjúkrahúsa um 276 millj. kr. svo að helstu helstu framkvæmdaaðilarnir séu nefndir.

Niðurstaða þessa frv. verður sennilega sú að framkvæmdaframlög aukast beinlínis úr 7 milljörðum 634 millj. kr. í um 9 milljarða, þar með er hækkun frá fjárl. 1974 u.þ.b. 58%, sem með tilliti til verðbreytinga felur sennilega í sér aðeins magnminnkun frá fjárl. 1974. Sé þetta hins vegar borið saman við líklegar niðurstöður 1974 er um meiri magnminnkun að ræða. Þegar þess er gætt, að í heimildagr. eru veittar 770 millj. kr. auknar lántökuheimildir til framkvæmda, er e.t.v. ekki nægjanlega dregið úr opinberum framkvæmdafyrirætlunum á fjárl. Hér er því ástæða til að fara að öllu með gát og mun fjmrh. beita sér fyrir því að framkvæmdir á hvaða sviði sem er fari ekki af stað fyrr en fullkomin tæknilegur og fjárhagslegur undirbúningur verka liggur fyrir. Þetta er um breytingar framkvæmdaliða að segja.

Hækkun rekstrarliða frá upphaflegu frv. er aðallega á sviði almannatrygginga. Í fyrsta lagi hækka framlög til lífeyristrygginga um 260 millj. kr. frá upphaflega frv. Hér er um að ræða hækkun til samræmis við 3% grunnkaupshækkun launþega 1. des. 1974 og 3% 1. júní 1975, sem eðlilegt og sjálfsagt er að reikna með. Sjúkratryggingaútgjöld hækka um 355 millj. kr. vegna hækkunar daggjalda og vegna langlegudeildar Landsspítalans við Hátún í Reykjavík. Þá er gert ráð fyrir 37 millj. kr. auknu framlagi til Lánasjóðs sveitarfélaga og 74 millj. kr. aukningu framlags til Lánasjóðs ísl. námsmanna frá upphaflegri áætlun, en auk þess er reiknað með 100 millj. kr. lántöku sjóðsins, þannig að ráðstöfunarfé hans eykst um 174 millj. kr. frá fjári, 1974. Loks hefur þótt nauðsynlegt að hækka fjárveitingu til niðurgreiðslna um 90 millj. kr. vegna hækkana sem orðið hafa frá fyrri áætlun. Í heild hækka rekstrarliðir frv. um rúman 1 milljarð.

Niðurstöðutölur gjaldahliðar fjárlagafrv. hækka því um 2 milljarða 448 millj. kr. Lánahreyfingar inn hækka um 717 millj. kr., eins og áður er sagt, en lánahreyfingar út um 215 millj. kr. vegna fullrar endurgreiðslu spariskírteinanna frá 1964, eins og ég gat um áðan.

Ég vil ekki draga dul á það að ég hefði kosið að hafa greiðsluafgang á fjárl. hærri en hér er stefnt að, en hins vegar eru útgjaldaþarfir á ýmsum sviðum framkvæmda afar brýnar. Heildarútgjöld fjárlagafrv. munu verða áætluð 47.2 milljarðar kr. eða rúmlega 28% áætlaðra þjóðarframleiðslu ársins 1975. Þannig er stefnt að ívið lægra hlutfalli af líklegri þjóðarframleiðslu 1975 en í frv. í upphaflegri gerð þrátt fyrir hækkun talna. Hér kemur að sjálfsögðu til sú þjóðhagsendurskoðun sem frá var greint hér að framan.

Allt orkar tvímælis þá gert er og gildir það ekki síst um fjármálaákvarðanir ríkisins. Frv., eins og það er nú, hlýtur að byggjast á bjartsýni um framtíðina og þeirri trú að hyggilegt sé að leggja í mikilvægar framkvæmdir, ekki síst á sviði orkumála, þótt á móti blási um sinn. En vafalaust er að sú lánsfjáröflun, sem gert er ráð fyrir, muni reynast örðug í framkvæmd vegna þrengsla á lánamarkaði bæði heima og erlendis. Til þess gæti komið að afla yrði fjár alveg sérstaklega til framfara í orkumálum í landinu ekki síst til að flýta fyrir nauðsynlegri aðlögun að nýjum verðhlutföllum á orkumarkaði heimsins. Öll þessi mál verða tekin til nánari athugunar á næstunni, ekki síst hagkvæmasta nýting fjármagnsmarkaðarins frá sjónarmiði almannahagsmuna. Þróun ríkisfjármálanna á þessu ári hefur verið alvarleg og fyrirsjáanlegur er verulegur greiðsluhalli á árinu. Þessa þróun verðum við að stöðva og snúa við án þess að svo harkalega sé brugðist við að of þungar byrðar séu á landsmenn lagðar. Með þessu frv. höfum við reynt að rata þennan meðalveg. Brýnasta verkefnið í fjármálum ríkisins á næstu mánuðum er að styrkja fjárhagsstöðu ríkissjóðs. Innan ramma þessa frv. verður þetta aðaltakmark fjármálastefnunnar.

Í fjárlagafrv., eins og það liggur nú fyrir, er ekki gert ráð fyrir verulegum breyt. á tekjuöflunarkerfi ríkisins.Í ræðu minni við 1.umr.um fjárl.frv. var nokkuð vikið að nauðsynlegum umbótum á sviði skattamála sem ríkisstj. hyggst beita sér fyrir. Þar voru rakin meginsjónarmið í skattamálum og gerð grein fyrir skattastefnu ríkisstj. í almennum atriðum, Í samræmi við þessa stefnu og á grundvelli þess starfs, sem fyrir liggur á þessu sviði, hef ég óskað eftir að þingflokkarnir nefni menn í n., eins og áður hefur verið gert, til þess að vinna með rn. og embættismönnum að undirbúningi skattamálastarfs þingsins á þessu og næsta þingi.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að þrátt fyrir stöðuga þörf á endurskoðun og umbótum skattheimtunnar eru nú sérstaklega ríkar ástæður til þess að vinna að umbótum á sviði skattamála, ekki síst til þess að laga skattakerfið að þeim breyttu aðstæðum sem viðskiptasamningar við EFTA og EBE fela í sér, en í þeim er fólgið svo veigamikið fráhvarf frá tollum sem einni meginuppsprettu ríkistekna að endurskipuleggja þarf tekjuöflunarkerfið í heild á næstu árum og fínna trausta almenna skattstofna í stað tollanna. Jafnframt verður þörfin stöðugt brýnni, eftir því sem lengra líður á aðlögunartíma Fríverslunarbandalagsins og viðskiptasamningsins við EBE, að tryggja skattalegt jafnræði með íslenskum atvinnuvegum og atvinnuvegum í öðrum löndum sem við eigum í samkeppni við. Skattar af íslenskri framleiðslu, hvort sem er til útflutnings eða innanlandssölu, mega ekki vera óhagstæðari en gerist í nágrannalöndunum. Að finna sanngjarna og hagkvæma skatta í stað tollanna, að tryggja samkeppnisaðstöðu íslenskra atvinnuvega hvað skatta áhrærir og að gera almenna beina og óbeina skatta sanngjarnari, hagkvæmari og betur fallna til hagstjórnar er meginviðfangsefnið í skattamálunum á næstunni.

Að þessu sinni gefst ekki tækifæri til að fara ítarlegar yfir svið skattamálanna, en ég held að óhætt sé að fullyrða að eftirtalin 11 atriði gefi góða hugmynd um það mikla verkefni sem framundan er. Ekki þarf að taka fram að hér er aðeins nefnd nokkur lykilorð til þess að minna á mál sem ekki er ætlunin að lýsa nú til hlítar.

Helstu verkefni og athuganir á sviði tekjuöflunar eru að minni hyggju þessi:

1. Athuga frá sjónarmiði löggjafar og framkvæmdar þá tilhögun að steypa öllum skattalögum ríkisins í einn lagabálk til þess að tryggja yfirsýn, samræmi og gott skipulag. Í þessu sambandi kæmu tengsl tekjuöflunar ríkis og sveitarfélaga til skoðunar.

2. Við þessa athugun þarf að kanna hvort og í vaða mæli æskilegt telst að afnema mörkun tekjustofna til sérstakra þarfa.

3. Þörf er á grundvallarendurskoðun laga um tekju- og eignarskatt, m.a. að því er tekur til almennra ákvæða um skattskyldu, skilgreiningu skattskyldra tekna og eigna. Að þessu hefur verið unnið að undanförnu og liggja fyrir drög að frv. sem sprottið er úr starfi þeirrar n. um tekjuöflun ríkisins sem fyrrv. fjmrh. skipaði. Þessi frv.- drög þarf að vinna frekar. Markmiðið er hér í senn afnám ýmiss konar undanþágu og einföldun gjaldstofna.

4. Sérstaka athugun þarf að gera á reglum um alla skattlagningu fyrirtækja, m.a. meðferð afskrifta til skatts og söluhagnaðar í því sambandi.

5. Athuga þarf hvort setja skuli í skattalög sérstök hagstjórnarákvæði sem gæfu stjórnvöldum ákveðnari heimildir, svigrúm til breytingar ákveðinna skatta í hagstjórnarskyni á fjárlagaári.

6. Sameining tekjuskatts og helstu tryggingarbóta í einu tekjujöfnunarkerfi er stórmál á sviði skattanna. Jafnframt yrði hugað að möguleikum til þess að lækka jaðarskatta yfirleitt án þess að rýra skatttekjur ríkisins með því að hverfa meira að brúttótekjum sem skattgjaldstekjum. Athuga þarf hvort ekki ætti að stefna að sama stofni fyrir útsvör og tekjuskatt eins og áður var.

7. Forgangsverkefni á sviði skattamála eru endurskoðun söluskattsins í átt til skatts með virðisaukasniði, einkum til þess að tryggja skattastöðu íslenskra fyrirtækja. Raunar má skoða till. þá um að heimila niðurfellingu eða endurgreiðslu að hálfu á sölugjaldi af vélum til iðnaðar, sem ég hef flutt fyrir hönd ríkisstj. á þskj. 235, sem mikilvægt spor í þessa átt. Er till. flutt til þess að bæta stöðu samkeppnisiðnaðarins vegna aðildar okkar að Fríverslunarbandalaginu, en á undanförnum árum hefur samkeppnisaðstaða iðnaðarins versnað verulega.

8. Sameining atvinnurekendagjalda vegna launþega í eitt gjald er athugunarefni sem þarf að taka fyrir á næstunni.

9. Sameining bílaskatta og einföldun þeirra er nauðsynja- og hagræðingaratriði.

10. Lækkun tolla skv. viðskiptasamningum við önnur ríki felur í sér þörf fyrir endurskoðun og samræmingu annarra tolla en þeirra sem við höfum skuldbundið okkur til að lækka.

11. Loks er þess skattamálaverkefnis að geta sem e.t.v. hefur oftast komið til umr. á undanförnum árum, sem er staðgreiðsla skatta, Taka þarf ákveðna afstöðu um framkvæmd þess máls að undangenginni ítarlegri skoðun.

Þetta er langur listi, en hvergi nærri tæmandi. Ég tel eðlilegt að skipta þessum verkefnum í 5 meginverksvið, þ.e.:

1. Atriði í upptalningunni frá 1–5 sem er heildstæð og almenns eðlis, eins konar heildarendurskoðun tekjuöflunar ríkisins.

2. Atriði nr. 6, tekjuöflunarkerfið, sem er sérstakt mál.

3. Atriði nr. 7–8, virðisaukaskattur og sameining atvinnurekandagjalda, eru verkefni sem vel fara saman í athugun.

4. Atriði 9 og 10, tollamál og bílaskattar, sem að mestu eru í höndum sama framkvæmdaaðila, fara eðlilega saman.

5. 11. atriðið, staðgreiðsla skatta, er svo sérstaks eðlis að rétt virðist að gera það að sérstöku athugunarverkefni.

Þingmannanefnd er ætlað að fylgjast með og ná yfirsýn yfir þessar athuganir, en eðlilegt virðist að setja þá embættismenn og sérfræðinga, sem best til þekkja á hverju sviði, til athugunar og undirbúningsstarfa í fimm starfshópum samkv. ofangreindri skiptingu. Í sumum dæmum gæti jafnvel verið um að ræða að fela einum manni slíkt sérfræðistarf. Það er skoðun mín, að þannig þurfi að standá að þessu að þegar á vorþingi skili þessir starfshópar fjmrn. ákveðnum niðurstöðum, till. eða valkostum, ekki þó endilega í frumvarpsformi, en þannig úr garði gerðum að hægt sé að taka afstöðu til þeirra í flestum gr. á þessu og næsta þingi. Ég hef þegar gert ráð fyrir að verkefnum þessum verði sinnt á næstunni.

Skattkerfi hafa ekki þann tilgang einan að afla tekna til að standa undir útgjaldaþörf ríkis og sveitarfélaga, heldur hefur sjálf skattálagningin og framkvæmd hennar margvísleg áhrif á sköpun og skiptingu þjóðartekna. Skattkerfið er því stjórntæki sem nota má til að breyta tekjuskiptingu, ná félagslegum markmiðum og hafa áhrif á dreifingu framleiðsluþátta, svo að nokkuð sé nefnt. Skattkerfi, sem á að fullnægja því þjóðfélagslega og stjórnmálalega hlutverki sem því er ætlað, verður að búa yfir nægilegri fjölbreytni skatttegunda til þess að ná megi mismunandi markmiðum. Jafnframt er æskilegt að það sé sem einfaldast og áhrif hvers skatts eins skýr og fyrirsjáanleg og unnt er. Það er að mestu tæknilegt verkefni að búa út skattkerfi, en verkefni stjórnmálamannanna að ákveða hvernig því skuli beitt, í hvaða hlutföllum einstökum sköttum skuli beitt og hve þungir þeir skuli vera. Engum, sem til þekkir, mun blandast hugur um það að hið íslenska skattkerfi sé ófullkomið tæki frá þessu sjónarmiði. Það hefur þróast á löngum tíma og oft með það farið af handahófi, þar eð nýir skattar hafa þráfaldlega verið teknir upp eingöngu til að mæta aðkallandi tekjuþörf, en án tillits til heildarhlutverks kerfisins eða samræmis. Skattarnir eru af þessum sökum orðnir allt of margir og flóknir, verkaskipting milli þeirra óljós eða jafnvel mótsagnakennd. Þörfin á almennri endurskoðun og samræmingu er því orðin ærið brýn. Það er ætlun ríkisstj. að vinna að umbótum í skattamálum með þessi sjónarmið í huga. Allt sem til framfara horfði í starfi fyrri ríkisstj. á þessu sviði verður að sjálfsögðu nýtt í þessu verki. Það er von mín að gott samstarf takist í þessu máli milli þm., embættismanna og rn.

Ég vil svo að lokum mega þakka hv. fjvn. fyrir störf hennar og fyrirgreiðslu við frv. og hv. þm. fyrir að unnt verður að ljúka afgreiðslu þessa frv. nú fyrir jólaleyfi og fjárl. sett eins og áður hefur verið.