20.12.1974
Sameinað þing: 29. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1345 í B-deild Alþingistíðinda. (1128)

1. mál, fjárlög 1975

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. fjmrh. fyrir svör hans. Ég hafði vonað að fá svolítið ákveðnari tón eða viljayfirlýsingu um að breyta þessu kerfi, en fólk er oft hrætt við breytingar, vill hafa það alveg eins og það er. En kerfið er mannlegt, það er af mannanna völdum, það er byggt upp af okkur sem eigum að heita stjórnmálamenn þannig að það er ekkert óbreytilegt. Ég vona að þegar erindi borgarstjórnar kemur í leitirnar, sem það hlýtur að gera, því að það var stílað til ríkisstj: þó að fyrrv. ríkisstj. hafi verið, þá verði það vel lesið og athugað hvort ekki er hægt að breyta þessu kerfi fólkinu í hag.

Um leið og ég endurtek þakkir mínar til hæstv. fjmrh. vil ég segja það, að ég var óráðinn um fylgi mitt við þetta fjárlfrv. eins og það liggur fyrir nú. Ég verð að segja það, að þessar skýringar, sem ég hafði þó vonað að staðfestu mig í þeirri trú að óyggjandi ætti ég að fylgja því, hafa ekki sannfært mig, þannig að ég verð að halda áfram að reyna að gera upp hug minn.