12.11.1974
Sameinað þing: 8. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 161 í B-deild Alþingistíðinda. (116)

1. mál, fjárlög 1975

Geir Gunnarsson:

Herra forseti. Þegar hæstv. núv. menntmrh. var óbreyttur þm. lét hann oft í ljós að honum ofbyði vínveitingar sem ríkisstj. stæði að og í samræmi við hugsjón sína lét hann það verða sitt alfyrsta embættisverk sem ráðherra að afnema vínveitingar á vegum síns ráðuneytis. Þetta tókst allt vel til. Það fór hins vegar verr um hugsjón hæstv. núv. fjmrh. Hann hafði horft yfir víðara svið en hæstv. menntmrh. Hann hafði ekki beint hneykslun sinni sérstaklega að vínveitingum ríkisstj. sálugu, heldur að fjárveitingunum í heild. Honum ofbauð eyðsla þeirra sem réðu fyrir ríkissjóði og flutti fyrir um það bil ári frv. um að tekjur ríkissjóðs yrðu á árinu 1974 minnkaður um rúmlega 4 300 millj. kr., það ætti ekki aðeins að vera unnt, heldur auðvelt. Hæstv. ráðh. sagði — með leyfi hæstv. forseta — hinn 12. des. s.l. í þeim ræðustól, sem nú hefur verið fjarlægður úr þessum sal:

„Með samræmdri stefnu í efnahagsmálum, hagræðingu í ríkisrekstri hefði verið auðvelt að brúa þetta bil með sparnaði á vissum sviðum og minni framkvæmdahraða.“

En það fór verr um þessa hugsjón en þá sem hæstv. núv. menntmrh. ól í brjósti. Fyrsta frv. hæstv. fjmrh. var ekki um sparnað í rekstri ríkisins og minnkaða tekjuþörf, heldur um hækkun söluskatts um 2%, 2000 millj. kr. tekjuaukningu á ári og aðrar ráðstafanir, sem auka tekjur ríkisins um milljarða króna. Það er ekki að undra að þeir, sem áttu að verja þessar aðgerðir í Morgunblaðinu, hafi séð sig tilneydda til að hrinda þeirri nýstárlegu kenningu af stokkunum hinn 11. sept. s.l. að skattar hægri stjórnarinnar séu engir venjulegir skattar, en í Morgunblaðinu segir orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Söluskattshækkun þá, sem Alþingi samþ. nýverið, ber naumast að skoða sem beina skattheimtu ríkisins. Hún er m.a. hugsuð sem fjáröflun til niðurgreiðslna á nauðsynjum almennings og hækkana á tryggingabótum bótaþega.“

Það er einhver munur hjá núv. hæstv. fjmrh., samanborið við hæstv. fyrrv. fjmrh., að geta lagt á skatta sem eru raunverulega alls ekki skattar, af því að þeir fara aftur út úr ríkissjóði. Það er slæmt fyrir hæstv. núv, landbrh. að Morgunblaðið skuli ekki hafa látið þessa kenningu sína í ljós svo sem ári fyrr.

Þegar hæstv. fjmrh. leggur nú til með sínu fyrsta fjárlfrv., að tekjur ríkissjóðs verði auknar á næsta ári um 16085.4 millj. kr. frá fjárlögum þessa árs, verði nálega 9500 mill. kr. hærri en þær verða í reynd á þessu ári, þá finnst manni óneitanlega að hæstv. núv. landbrh. hafi haft nokkuð fyrir sér þegar hann á sínum tíma kallaði till. núv. samráðh. síns skrum og yfirboð. En þegar núv. ráðh. Sjálfstfl. leggur fram till. um hækkun útgjalda fjárlaga um 52.2% mun sjálfsagt einhverjum þykja að hæstv. fyrrv. fjmrh. fái nokkra uppreisn fyrir allar þær ádeilur sem núv. samstarfsmenn hans höfðu í frammi vegna hækkunar fjárlaga í hans ráðherratíð, hækkana, sem nú hverfa í skuggann af risahækkunum fjárlfrv. hins nýja hæstv. fjmrh.

Þessi snögga magalending hugsjónarinnar um lækkun ríkisútgjalda um 4 300 millj. kr., sem lýsti himinhvolfið fyrir ári, sannar þó líklega fyrst og fremst hin gömlu sannindi, að það er hægara um að tala en í að komast, sem okkur öllum hv. þm. ættu jafnan að vera rík í huga. Til þess að gera lendinguna bærilegri og forðast að nefna hækkunartöluna 52.2% og þó enn frekar hækkunartöluna 65% frá síðasta fjárlagafrv. hefur hæstv. fjmrh. og málgögn Sjálfstfl. nokkuð notað þá aðferð að bera saman niðurstöðutölur fjárlfrv. nýja og áætlaðar útgjaldaupphæðir ríkisreiknings 1974 og fengið út að sú hækkun nemi 21%. Sé þá til samanburðar athugað hver hliðstæð hækkun var við framlagningu fjárlfrv. s.l. haust, kemur í ljós, að raunveruleg útgjöld ársins 1973 voru í des. á því ári áætluð 24.2 milljarðar, en niðurstöðutölur fjárlfrv. fyrir árið 1974 27.4 milljarðar. Hækkun nam þá 13%, en hliðstæð hækkun nú 21% eða 54% meira nú. Þessi fallhlíf, sem þarna hefur verið reynt að nota, reynist því æði götótt og svo er um þær fleiri sem nú er reynt að draga fram og nota í fallinu.

Framkvæmd hugsjónarinnar um lækkun ríkisútgjalda átti að hafa þær afleiðingar að útgjöld ríkisins yrðu lægri hluti miðað við þjóðarframleiðslu en verið hefði áður. Það átti að draga hlutfallslega úr umsvifum ríkisvaldsins, sporna við frekari útþenslu ríkisbúskaparins miðað við önnur svið efnahagsstarfseminnar, eins og Morgunblaðið orðar það hinn 2. nóv. s.l. Og nú þegar ný ríkisstjórn undir forustu Sjálfstfl. leggur fram sitt fyrsta fjárlfrv., sem gerir ráð fyrir meiri hækkunum ríkisútgjalda en nokkru sinni hefur áður þekkst, þykir mikið við liggja að geta a.m.k. sýnt fram á einhvern árangur í þessu efni um minni hlut ríkissjóðs í öllum umsvifum þjóðarbúsins. En þá vandast málið því að sannleikurinn er sá að útgjöld ríkissjóðs eru í fjárlagafrv.fyrir árið 1975 óumdeilanlega áætluð hærri hluti miðað við áætlaða þjóðarframleiðslu á því ári en þau eru á þessu ári og hærri en á nokkru einstöku ári í stjórnartíð síðustu ríkisstj. Miðað við útgjaldatölu fjárlaga, 44.7 milljarða kr., og áætlaða þjóðarframleiðslu, 156 milljarða, á næsta ári nema útgjöld ríkissjóðs á næsta ári 28.7% af þjóðarframleiðslu, en miðað við áætluð útgjöld ríkissjóðs á þessu ári, 37 milljarða 133.8 millj. þjóðarframleiðslu verða útgjöld ríkissjóðs 1974 27.6% af þjóðarframleiðslu á móti 28.7% í fjárlagafrv. því sem hér er til umr. til þess að fela þessi óþægilegu sannindi er gripið til sérstakra reikningskúnsta. Í stað þess að miða útreikning fyrir árið 1974 við raunveruleg útgjöld ríkissjóðs á því ári áætla málgögn Sjálfstfl. hver hefðu orðið útgjöld ríkissjóðs ef allar ráðstafanir í launamálum, tryggingamálum, niðurgreiðslum o.fl. hefðu verið gerðar hinn 1. jan. s.l. og gilt allt árið. Þessi málgögn hafa oft og tíðum, áður en fjárlagafrv. var lagt fram, birt tölur um þetta hlutfall ríkisútgjalda af þjóðarframleiðslu undanfarandi ára, en að sjálfsögðu aldrei hugkvæmst slíkar reikningsaðferðir sem nú eru notaðar til þess að dylja óþægilegar staðreyndir.

Þegar tölur í núgildandi fjárlögum eru bornar saman við fyrsta fjárlfrv. hægri stjórnarinnar er gripið til þessara ráða. En með þessum reikningskúnstum fá málgögn Sjálfstfl. fram hækkun á raunverulegum ríkisútgjöldum þessa árs um 2 milljarða eða í 39 milljarða kr. En þessar breyt. t.d. á launaþáttum, eru einhverra hluta vegna ekki látnar hafa hliðstæð áhrif á áætlaða þjóðarframleiðslu og með þeim hætti er sú útkoma búin til að hlutfall ríkisútgjalda miðað við þjóðarframleiðslu á þessu ári nemi 29.1% eða 0,4% hærra en áætlað er á næsta ári. Miðað við raunveruleg útgjöld þessa árs er talan, eins og ég hef áður getið, 27.6% 1974, en er áætluð 28.7% á næsta ári.

Þótt tekið væri mark á þessum reikningskúnstum þeirra sem að fjárlagafrv. standa, — ég tek það fram að ég á ekki við fjárlaga- og hagsýslustofnunina því að frá henni gæti slík reikningsaðferð ekki verið runnin, þar sem ákveðnum þáttum dæmisins er breytt án þess að afleiðingar, sem ekki verða frá þeim breytingum skildar, séu látnar hafa hliðstæð áhríf á aðra þætti dæmisins, — þótt tekið væri mark á þessum aðferðum og gengið væri út frá því að ríkisútgjöld væru í raun 0,4% lægri hluti þjóðarframleiðslu samkvæmt fjárlagafrv. en á yfirstandandi ári, þá er það athyglisvert að sú lækkun, en hún svarar til 624 millj. kr. á frv., væri þá fengin með niðurskurði verklegra framkvæmda. Framlag til þeirra er um 1200 millj. kr. lægri en það ætli að vera svo að það næmi hlutfallslega sömu upphæð og á núgildandi fjárlögum ef það hefði sama framkvæmdagildi.

M.ö.o.: jafnvel reikningskúnstir þeirra, sem vilja umfram allt sýna að ríkisútgjöld sem hluti af þjóðarframleiðslu lækki, duga ekki til að dylja þá staðreynd að áætluð rekstrargjöld ríkissjóðs á næsta ári eru hærri hluti þjóðarframleiðslu en nokkru sinni fyrr. Það stendur eftir að önnur útgjöld en til verklegra framkvæmda eru áætluð hærri hluti af þjóðarframleiðslu á næsta ári en áður hvernig reikningskúnstum sem málgögn Sjálfstfl. beita til að láta þessar tölur líta öðru vísi út en þær gera í raun. Þannig lítur dæmið út þegar við framlagningu fjárlagafrv. og má þó búast við að hvort tveggja gerist: útgjaldatölurnar hækki í meðförum þingsins og raunveruleg útgjöld verði hærri en væntanleg fjárlög segja til um því að margt er vantalið í frv.

Eins og ég hef áður getið um er áætlað að tekjur ríkissjóðs verði á næsta ári um 16 þús. millj. kr. meiri en samkv. fjárl. þessa árs og um 9 500 millj. kr. hærri en skattheimtan verður í reynd á þessu ári. Borið saman við eldra tekjuskattskerfið, sem núgildandi fjárlög eru byggð á, en breytt var til mikillar lækkunar þegar söluskattur var aukinn s.l. vor, hækkar áætlaður innheimtur tekjuskattur einstaklinga á næsta ári um 25 millj. kr., þ.e.a.s. nýja tekjuskattskerfið mun á næsta ári færa ríkissjóði 25 millj. kr. meiri tekjur en áætlað var að það gamla gerði á þessu ári. En miðað við raunverulega innheimtan tekjuskatt, sem á var lagður með nýja tekjuskattskerfinu s.l. vor eftir skattkerfisbreytinguna, hækkar áætlaður innheimtur tekjuskattur einstaklinga á næsta ára um 1478 millj. kr., þ.e.a.s. áætlað er að hækkun tekjuskatts nemi að meðaltali um 30 þús. kr. á hvern skattgreiðanda, en tölu þeirra má áætla um 50 þús. Samkv. fjárlfrv. hækka gjöld af innflutningi um 1076 millj. kr. frá endurskoðaðri áætlun fyrir árið 1974, og gert er ráð fyrir að á næsta ári nemi innheimtir skattar af seldum vörum og þjónustu, fyrst og fremst söluskattur, 5730 millj. kr. hærri upphæð en á þessu ári. Aðrir óbeinir skattar hækka um 662 millj. kr. frá endurskoðaðri áætlun um tekjur ríkissjóðs á þessu ári. Samkv. fjárlfrv. er gert ráð fyrir, að innheimtur söluskattur nemi alls 16 877 millj. kr. Þegar söluskattur nemur orðið svo hárri prósentutölu af söluverði vara fer það að skipta miklum upphæðum fyrir neytendur og ríkissjóð ef eitthvað vantar á að verslunin gefi upp rétta veltu. Væri t.d. reiknað með að sá söluskattur, sem skilað er til ríkissjóðs, nema 95% af raunverulegri álagningu, nemur upphæðin, sem eftir væri haldið, 888 millj. kr. Næmu skilin 90% væri upphæðin, sem á vantaði full skil, 1875 millj. kr. Hér er því mikið í húfi að allar ráðstafanir séu gerðar sem unnt er til að tryggja sem best skil á söluskattinum.

Miðað við innheimta skatta á þessu ári er gert ráð fyrir því að beinir skattar hækki um 1882 millj. og óbeinir skattar um 7558 millj. og skattur hækki því alls um 9440 millj. kr. eða sem svarar nær því 45 þús. kr. hækkun á hvert mannsbarn í landinu. Þessari skattahækkun, sem verður þó í reynd enn meiri með stöðugt hækkandi verðlagi, ætlar ríkisstj. Sjálfstfl. og Framsfl. almenningi að mæta á næsta ári með óbreyttum vísitölubótum frá því sem nú er, a.m.k. til 1. júní á næsta ári, og gert er ráð fyrir að þá lækki niðurgreiðslur um 1/4 hluta þeirrar hækkunar, sem á varð i. júní s.l. Sú lækkun svarar til 70U millj. kr. á einu ári.

Þótt ýmsum kunni að þykja fjárveiting til niðurgreiðslna landbúnaðarvara býsna há, þá er það nú svo að fátt skiptir hina tekjulægstu meira máli en verðlag á þeim vörum, sem þær taka til, sé sem viðráðanlegast. Þær skipta allmargar fjölskyldur og lífeyrisþega mjög miklu. En á hlut þessara aðila hefur mjög verið gengið með efnahagsráðstöfunum ríkisstj. Hitt ætli að valda landsmönnum meiri áhyggjum en fjárveitingar til niðurgreiðslna, að á væntanlegum fjárl. er áætlað að varið verði 716 millj. kr. til uppbóta á útfluttar landbúnaðarafurðir eða næstum nákvæmlega sömu upphæð og er veitt á núgildandi fjárl. til allra útgjalda sem heyra undir sjútvrn., til rn. sjálfs, Fiskifélags Íslands, Hafrannsóknastofnunar með sín 4 skip, Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins, Fiskmats ríkisins, Verðlagsráðs sjávarútvegsins, Byggingarsjóðs rannsóknarskips, til byggingar rannsóknastofnana sjávarútvegs, í framlag til aflatryggingasjóðs, til Fiskveiðasjóðs, til greiðslu rekstrarhalla togara og til skrifstofu rannsóknastofnana atvinnuveganna. Þetta segi ég ekki til þess að etja einum atvinnuvegi gegn öðrum, heldur til að vekja athygli á, að það er orðið alvarlegt mál hversu gífurlegum upphæðum er varið til útflutningsbóta á landbúnaðarafurðum.

Þær útgjaldatölur, sem ég hef nefnt, verða að sjálfsögðu fæstar í samræmi við niðurstöður ríkisreiknings á næsta ári og mjög margir útgjaldaliðir hljóta að taka verulegum breytingum til hækkunar þegar í meðferð þingsins þar sem þeir eru algerlega óraunhæfir. Rekstrarkostnaðarliðir eru miðaðir við útgjöld í septemberlok og eru þegar úreltir vegna stöðugra verðhækkana. Kostnaður vegna sjúkratrygginga er miðaður við upphæðir daggjalda á sjúkrahúsum í sept. s.l., en við afgreiðslu síðustu fjárl. voru þessar upphæðir hins vegar miðaðar við daggjöld, er tóku gildi hinn 1. jan. fjárlagaárið. Framlag til Lánasjóðs íslenskra námsmanna er á fjárlagafrv. áætlað 591 millj. kr. Stjórn Lánasjóðsins lagði fram till. um 1046 millj. kr. framlag, en síðan hefur gengi krónunnar verið fellt og sú till. því þegar orðin úrelt. Sé tekið tillit til afleiðinga gengislækkunar á útgjöld íslenskra námsmanna hér og erlendis, samsvarar till. stjórnar Lánasjóðsins 1250 millj. kr. framlagi, en mismunur á þeirri upphæð og því, sem lagt er til í frv., er 659 millj. kr.

Á núgildandi fjárl. var fjárveiting til Lánasjóðs við það miðuð að lán næmu um það bil 83% umfram fjárþörf í stað 77.8% 1973. En sú upphæð, sem látin er nægja í fjárlagafrv., mundi naumast geta svarað til meira en svo sem 50% umframfjárþarfar, svo að ljóst er að þessi tala er algerlega óraunhæf og hlýtur að hækka verulega. Ekki verður í neinu séð að sýndur sé litur á að skera niður rekstrarkostnað í ríkiskerfinu þrátt fyrir öll fögru fyrirheitin. Allur rekstrarkostnaður ríkisfyrirtækja virðist einfaldlega vera hækkaður í frv. um sömu hlutfallstölu og verðlagsbreytingar segja til um og þó heldur betur, því að í grg. með frv. segir að samanlögð hækkun á liðnum önnur rekstrargjöld nemi 65.7%, sem sé lítillega umfram verðlagshækkanir. Á sama tíma eru öll framlög til starfsemi ýmiss konar félaga í landinu óbreytt að krónutölu, ekkert fé veitt til að mæta stórauknum rekstrarkostnaði þar.

Ef þeir, sem nú fara með völd, treysta þeim sem eiga að sjá fyrir rekstri þessara félagasamtaka til að komast þannig af með óbreytta krónutölu þegar framlög til greiðslu rekstrarkostnaðar ríkisfyrirtækja og stofnana eru hækkuð um 65.7% eða meira en nemur verðlagshækkunum, þá ættu þessir valdhafar að leita eftir því að fá þessa menn til að taka að sér að stjórna rekstri stofnana ríkisins, spurning, hvort þeir ættu ekki einmitt að standa upp úr ráðherrastólunum. Hin ýmsu félagssamtök fá yfirleitt ekki krónuhækkun, hvað þá meir, en eiginleg rekstrarútgjöld ríkisins eiga á næsta ári að hækka meir frá núgildandi fjárl. en almennt verðlag á sama tíma, enda nema áætluð rekstrarútgjöld á næsta ári hærri hlutfallstölu af þjóðarframleiðslu en á þessu ári, eins og ég hef áður sýnt fram á. Og þessa dagana hefur almenningur fylgst með sparnaðinum, sem heitið var, þegar ekki dugir t.d. minna en senda 18 fulltrúa á þing Norðurlandaráðs, 12 fulltrúa með þm. 6.

Þótt ýmsir muni hafa búist við að nú tæki Sjálfstfl. fyrir starfsmannafjölgun hjá ríkisbákninu sem hann hefur kallað svo, þá er öðru nær en svo hafi verið gert í raun. Hjá ríkisstofnunum hafa unnið ýmsir starfsmenn sem ekki hafa verið ráðnir til lífstíðar. Með fjárlagafrv. er lagt til að 53 af þeim verði nú fastráðnir og hljóti æviráðningu og þar að auki verði 69 fastráðnir starfsmenn sem ekki hafa verið starfsmenn ríkisins til þessa. Samtals er áætlað að laun þessa starfsliðs nemi um 83 millj. kr. á ári, en með launatengdum gjöldum og öðrum rekstrarkostnaði, sem störfunum fylgir, er áætlað að heildarútgjaldaupphæð vegna þessara nýju starfa nemi um 100 millj. kr. á ári og er þá fjölgun í kennarastétt ekki meðtalin. Ég er ekki að finna að þessum ráðningum. Það eru aðrir sem hafa deilt á mannaráðningar til ríkisins á undanförnum árum. Það mætti þá frekast finna að ráðningu viðbótarráðh., sem eru í þessum hópi. Hins vegar gæti vafist fyrir mönnum að segja til um hverjum þeirra er mest ofaukið.

Í sambandi við nýjar mannaráðningar hjá ríkinu er þess þó sérstaklega að geta að ekki er gert ráð fyrir því að ráða einn einasta nýjan starfskraft hjá neinum af ríkisspítölunum. Einnig að þessu leyti tel ég að útgjaldahlið fjárlagafrv. sé ekki raunhæf því að það getur naumast verið ætlunin að standa þannig að afgreiðslu beiðnar frá stjórn ríkisspítalanna um ráðningu í 225 nýjar stöður að sú beiðni verði fullkomlega hundsuð. Að vísu hefur verulega verið bætt úr í þessu efni á undanförnum árum miðað við það ástand, sem víða ríkti í þessum stofnunum í lok stjórnartímabils viðreisnarstjórnarinnar. En það er ekki heppileg þróun að halda niðri nauðsynlegri þjónustu og nýtingu húsnæðis hjá þessum heilbrigðisstofnunum og verða svo að bæta úr því ófremdarástandi, sem þá er orðið, með sérstökum átökum þess á milli. Farsælast er að um eðlilega og hóflega aukningu sé að ræða á hverju ári miðað við stækkun húsrýmis og eðlilegar úrbætur í þjónustu. Samtímis því að rekstrarútgjöld hækka meir en svarar til verðlagshækkana kemur aðalstefnumark stjórnarflokkanna fram í því að framlög til verklegra framkvæmda ríkis og sveitarfélaga eru verulega skorin niður. Verklegar framkvæmdir hækka um 33.8% á sama tíma og framkvæmdakostnaður hefur hækkað um 50–55%, og er í grg. frv. talið að 1200 millj. kr. skorti á að framlög til verklegra framkvæmda haldi verðgildi. En þess er hins vegar ekki getið í grg. að framlög til þess hluta verklegra framkvæmda, sem kostaður er af fleiri aðilum en ríkinu, en þar eru aðalliðirnir skólabyggingar, hafnargerð sveitarfélaga, sjúkrahús og læknisbústaðir, hækka einungis um 16.8%, úr 1987.4 millj. kr. í 2320 millj. — aðeins um 16.8%, þegar framkvæmdakostnaður hækkar um 50–55%. Krónuaukningin, sem hefði þurft að verða á þessum framlögum til þess að þau héldu raungildi, er skorin niður um að 2/3 hlutum. Þetta er niðurskurður sem fyrst og fremst bitnar á íbúum úti á landsbyggðinni.

Önnur meginástæða þess, að á árum vinstri stjórnarinnar tókst að snúa við þeirri óheillaþróun, að fólk flyttist í síauknum mæli utan af landsbyggðinni, úr sveitum og þorpum, til þéttbýlissvæðisins, var margviss uppbyggingarstefna þeirrar ríkisstj. í atvinnumálum, ekki síst uppbygging skuttogaraflotans. Hin meginástæðan voru stóraukin framlög á fjárl. til hvers kyns verklegra framkvæmda sveitarfélaga og ríkisins. En þau auknu framlög efldu með því fólki, sem utan stærsta þéttbýlissvæðisins bjó, trúna á að það mundi í náinni framtíð geta notið stórbættrar þjónustu á ýmsum sviðum og jafnréttis á við aðra íbúa í landinu. Slík framlög á fjárl. eru einn aðalgrundvöllur jafnréttis þegnanna til atvinnu og þjónustu hvar sem þeir búa. Þessi framlög á nú að skera stórlega niður þegar við völdum hefur tekið hægri ríkisstjórn, sem byggir á þeirri gömlu kenningu Sjálfstfl. og hægra liðs Framsóknar, að framkvæmdir opinberra aðila eigi að víkja fyrir framkvæmdum einkarekstrar, ef spenna er á vinnumarkaðinum eigi skilyrðislaust að draga úr félagslegum framkvæmdum. Að sjálfsögðu gera þeir aðilar, sem nú eru að knýja þessa stefnu fram, ekkert til þess að beina til framleiðsluatvinnuveganna því vinnuafli, sem kynni að losna vegna þessara minnkuðu framkvæmda, öðru nær. Ríkisstj. hefur nú nýverið með sérstökum ráðstöfunum skert launakjör sjómanna meira en annarra stétta, svo að þangað mundi þetta fólk ekki sækja. Stjórnarvöldin hafa séð fyrir því. Hér greinir á milli stefnu félagshyggjuflokka og flokka einkahagsmunanna.

Það er að mínum dómi fráleitt að hvers konar fjárfestingar einkaaðila, sem oft er einungis ráðist í í von um verðbólgugróða og þá stuðst við óverðtryggt lánsfé úr opinberum lánastofnunum, eigi að sitja fyrir nauðsynlegum samfélaglegum framkvæmdum. Og jafnvel ættu þeir, sem afsaka þennan niðurskurð samfélagslegra framkvæmda með því að draga verði úr spennu á vinnumarkaðnum, að huga betur að horfunum í því efni. Mjög margt bendir til vaxandi samdráttar. Minnkaðar opinberar framkvæmdir munu þá enn auka á þann hraða sem jafnan grípur ótrúlega fljótt um sig í samdrætti í atvinnumálum, þegar tekur að bera á honum á annað borð.

Samdráttur í verklegum framkvæmdum samkv. fjárlfrv. kemur misjafnlega niður eftir framkvæmdaþáttum. Á sama tíma og framkvæmdakostnaður hefur vaxið um allt að 55% hækka framlög til hafnarmannvirkja sveitarfélaga um 20%, til grunnskóla um 22%, til dagvistunarheimila um 25%, til menntaskóla um 9%, til flugvallargerðar um 7% og framlög til iðnskóla hækka ekki um eina krónu. Þess er sérstaklega getið í grg. fjárlfrv., að þess sé gætt að láta niðurskurðinn sem minnst koma niður á framkvæmdum sem taldar eru mjög brýnar frá þjóðhagslegu sjónarmiði. Óvanalegt er í grg. fjárlfrv. að tilgreina sérstaklega framkvæmdir, sem ekki eigi að vinna að. Þó er á bls. 185 í fjárlagafrv. sérstaklega tekið fram, að ekkert eigi að vinna að hafnargerð í Njarðvík. Sú framkvæmd er þá að dómi þeirra, sem leggja fram fjárlagafrv., ekki mjög brýn. Þar er ég algerlega á öðru máli. Ég hef talið að þegar nú væri verið að ljúka miklum hafnarframkvæmdum í Grindavík yrði að hefjast þegar handa um verulegt átak í því efni að gera höfnina í Njarðvík nothæfa vegna þess hversu á skortir um aðstöðu fyrir skuttogara og stærri báta þar. Ég mun við meðferð fjárlfrv. í fjvn. knýja á um að breytt verði þeirri ákvörðun, sem getið er í grg. frv., að ekki verði unnið að neinum hafnarframkvæmdum á þessum stað. Ég hef tvívegis rætt um þetta mál við hæstv. samgrh. og geri mér vonir um að þessu máli verði sinnt svo að við megi una.

Þá ber fjárlagafrv. með sér að ætlun ríkisstj. sé að hverfa frá þeirri áætlun um framkvæmdir í íþróttamálum sem á vinstri stjórnarárunum var lagður grundvöllur að með stórauknum framlögum til Íþróttasjóðs. Til þess að sú áætlun raskist ekki og framkvæmdir verði á næsta ári samsvarandi því sem stefnt var að þyrfti framlag til Íþróttasjóðs að nema 85.3 millj. kr. á næsta ári í stað 64.4 millj. kr. í frv.

Í áætlun fjárlfrv. um Póst og síma er gert ráð fyrir að fjárfestingar stofnunarinnar lækki úr 400 millj. kr., sem talið er að þær nemi í raun á þessu ári, í 295,1 millj. á næsta ári. Ég veit ekki hvort hæstv. ríkisstj. telur hugsanlegt að svo stórfelldur niðurskurður geti átt sér stað með hliðsjón af því að í ár eru framkvæmdir, þótt fyrir 400 millj. kr. séu, verulega minni en áætlað var í fjárl., eða hvort ætlunin er að gjaldskrá Pósts og síma verði hækkuð verulega, jafnvel um 30%. Ég vildi gjarnan, að hæstv. fjmrh. eða hæstv. samgrh. svaraði því hér á eftir, hvað fyrirhugað sé í þessum efnum.

Þess verður lítt vart í fjárlfrv. að þar sé farið eftir ýmsum stefnumiðum sem þeir héldu áður á loft sem nú ráða málum. Það hefur lengi verið viðkvæði Sjálfstfl. að allar tekjur af umferðinni ættu að renna til vegamála, en ekki verða eyðslueyrir ríkisstj., eins og það var orðað. Engin breyting verður í þessu efni. Þegar rekstrarútgjöld ríkissjóðs eru þanin út svo sem raun ber vitni virðist ekki veita af öllum gjöldum af umferðinni í ríkissjóð á sama hátt og áður. Töluðu þó ýmsir hv. þm. Sjálfstfl. mjög um það s.l. vor, að ríkissjóður hagnaðist sérstaklega og óeðlilega á hækkun heimsmarkaðsverðs á bensíni. Satt er það, það eru ekki litlar upphæðir, sem ríkissjóður hefur af bifreiðum og rekstrarvörum þeirra, — tekjur, sem enn renna beint í ríkissjóð þrátt fyrir allar fyrri kröfur þeirra sem nú standa að fjárlfrv. T.d. er áætlað að tollar af bensíni — aðeins tollarnir — auk hins sérstaka innflutningsgjalds, nemi 550 millj. kr. á næsta ári og tollar til ríkissjóðs af bifreiðum nemi á næsta ári 1500 millj. kr., en innflutningsgjaldið af þeim, sem Vegasjóður fær, er áætlað 635 millj. Mér er ekki kunnugt um hve hár söluskattur er til ríkissjóðs af bensíni á næsta ári, en hann gæti numið um 700 millj. kr. Þeim, sem ætluðu að minnka ríkistekjurnar um 4300 millj. kr. með lækkun skatta og þar að auki að flytja allar tekjur af umferðinni í Vegasjóð, virðist nú ekki veita af í ríkissjóð öllum þeim stórauknu tekjum sem ríkissjóður hefur af bílum og bensíni.

Þá er þess að minnast að hæstv. menntmrh. lét í ljós sérstakan áhuga á að auka hlut verklegrar fræðslu, þegar hann tók við ráðherradómi. Harla lítil merki þeirrar stefnu sjást í fjárlfrv. Fjárveitingar til byggingar iðnskóla hækka ekki um eina kr. þótt framkvæmdakostnaður hafi aukist um 55%. Og séu tekin saman stofnkostnaðarframlög til eftirtalinna skóla: Tækniskólans, Vélskólans, Stýrimannaskólans í Reykjavík, Fiskvinnsluskólans, til Sjómannaskólahússins í Reykjavík, þá nema þau í fjárlfrv. 35.5 millj. kr., en á fjárl. í ár 36.8 millj. kr. Þar er um beina lækkun að ræða í krónutölu. Þetta er heldur ömurlegt þegar haft er í huga að í heild hækka þau útgjöld fjárl., sem falla undir liðinn önnur rekstrargjöld, um 65.7%.

Ég minntist áðan á þann árangur, sem náðist í tíð vinstri stjórnarinnar í því efni að tryggja atvinnuöryggi með uppbyggingu skuttogaraflotans, og gat þess á hvern hátt grundvöllur jafnréttis til atvinnu og félagslegrar þjónustu var tryggður úti á landsbyggðinni með stórauknum framlögum til hvers kyns framkvæmda ríkis og sveitarfélaga, svo sem flugvallagerða, skólabygginga, hafnarframkvæmda, sjúkrahúsbygginga. Þessi árangur er nú í hættu þegar slík stefnubreyting verður í þessu efni sem fjárlagafrv. hægri stjórnarinnar ber nú með sér.

Á öðru sviði ekki síður mikilvægu náðist verulegur árangur í tíð vinstri stjórnarinnar og undir forustu ráðh. Alþb. Kaupmáttur tryggingabóta var verulega aukinn og í fyrsta sinn var lífeyrisþegum, sem engar eða litlar sjálfsaflatekjur hafa, tryggður lífeyrir sem mátti komast af með. Gildi þess áfanga, sem í þessu efni náðist þegar eftir tilkomu vinstri stjórnarinnar, var tryggður þrátt fyrir þá verðbólgu sem geisaði með því að á lífeyrinn voru jafnan greiddar fullar vísitölubætur. Með valdatöku hægri stjórnarinnar er þessu skeiði öryggis um kaupmátt tryggingabóta lokið um sinn. Um það bera brbl. hæstv. ríkisstj. vitni og þá stefnu staðfestir fjárlagafrv. rækilega. Þar eru engin fyrirheit gefin um að hlutur lífeyrisþega verði réttur. Lífeyrisgreiðslur eiga aðeins að hækka um þau 6%, sem brbl. til greina, og tekjuviðmiðunin um 10%, þó að verðlagshækkun hafi orðið miklu meiri frá því að síðast hafi orðið hækkun á lífeyrisgreiðslum. Síðan hafa stöðugar verðhækkanir orðið og þær munu halda áfram í ríkum mæli.

Sá árangur, sem náðist í tíð vinstri stjórnarinnar í málefnum þeirra sem verst eru settir í þjóðfélaginu, er því í verulegri hættu nú, þegar hægri stjórn hefur tekið við völdum. Þeir, sem mestu ráða í þeirri stjórn, töldu sig í stjórnarandstöðunni á síðasta kjörtímabili búa yfir patentlausnum á vandamálum þjóðfélagsins. Það er ekki nema tæpt ár síðan hæstv. núv. fjmrh. taldi sig geta skorið niður skattheimtu ríkisins um 4304 millj. kr. En það er allt annað sem hann leggur til að skorið verði niður þegar til kastanna kemur. Það eru þær verklegu framkvæmdir ríkis og sveitarfélaga sem á undanförum árum hafa ásamt öðrum ráðstöfunum vinstri stjórnarinnar átt ríkasta þáttinn í að treysta atvinnugrundvöllinn og eflingu byggðar hvarvetna um landið, og hæstv. ráðh. og ríkisstj. öll leggja þar á ofan til að skorið verði af því lífsviðurværi sem á vinstristjórnarárunum tókst að tryggja ellilífeyrisþegum og öryrkjum. Í stað þess að skera skattheimtuna niður um 4300 millj. kr., eins og hæstv. fjmrh. lagði til fyrir 11 mánuðum að gert yrði, sker hann nú niður kaupmátt lífeyrisbóta og verklegar framkvæmdir og eykur þar á ofan skattheimtuna um nær 9500 millj. kr. frá því sem hún verður í reynd á þessu ári. Þar er breytt bil á milli fyrirheita og efnda.