27.01.1975
Sameinað þing: 31. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1361 í B-deild Alþingistíðinda. (1177)

Rannsókn kjörbréfs

Forseti (Ásgeir Bjarnason):

Mér hefur borist eftirfarandi bréf:

„Reykjavík, 27. jan. 1975.

Formaður þingflokks framsóknarmanna hefur í dag ritað mér á þessa leið:

„Stefán Valgeirsson liggur nú á Landsspítalanum eftir að hafa nýverið gengist undir uppskurð. Af þeim sökum mun hann ekki geta sinnt þingstörfum á næstunni. Því leyfi ég mér að fara þess á leit að 3. varamaður Framsfl. í Norðurl. e., Heimir Hannesson héraðsdómslögmaður, taki sæti Stefáns á Alþ. á meðan á veikindum hans stendur.

Hvorki 1. varamaður Framsfl. í Norðurl. e. né 2. varamaður flokksins í kjördæminu geta af persónulegum ástæðum komið til þings. Fylgja hér með yfirlýsingar þeirra þar um.“

Þetta er yður, herra forseti, hér með tilkynnt með ósk um að þér látið fram fara í Sþ. rannsókn á kjörbréfi varamanns.

Magnús T. Ólafsson, forseti Nd.

Til forseta Sþ.“

Þá er hér símskeyti:

„Kópaskeri 26. jan.

Kristján Benediktsson, Eikjuvogi 4, Reykjavík. Undirritaður lýsir því hér með yfir að hann geti ekki tekið sæti á Alþ. í forföllum Stefáns Valgeirssonar alþm.

Kristján Ármannsson, Kópaskeri.

1. varam. Framsfl. í Norðurl. e.“

Enn fremur liggur fyrir bréf frá 2. varamanni Framsfl. í Norðurl. e.:

„Formaður þingflokks Framsfl., Þórarinn Þórarinsson alþm. Reykjavík.

Af persónulegum ástæðum get ég ekki tekið sæti á Alþ. í stað Stefáns Valgeirssonar og óska því eftir að næsti varamaður á lista Framsfl. í Norðurl. e. verði kvaddur til þings.

Reykjavík, 26. 1. 1975.

Hilmar Daníelsson.“

Kjörbréf Heimis Hannessonar liggur hér fyrir og þarf að rannsaka það.

Þá hefur mér borist annað bréf.

„Reykjavík, 24, jan. 1975.

Jónas Árnason, 5. þm. Vesturl., hefur í dag ritað mér á þessa leið:

„Þar sem ég vegna annarra starfa mun ekki geta sótt þingfundi á næstunni leyfi ég mér að biðja um fjarvistarleyfi og með skírskotun til 138 gr. 1. um kosningar til Alþ. að óska þess að vegna forfalla 1. varamanns Alþb. í Vesturlandskjördæmi taki 2. varamaður, Bjarnfríður Leósdóttir húsfrú, sæti á Alþ. í fjarveru minni.

Þetta er yður, herra forseti, hér með tilkynnt með ósk um að þér látið fara fram í Sþ. rannsókn á kjörbréfi varamanns.

Ragnhildur Helgadóttir,

forseti Nd. Til forseta Sþ.“

Símskeyti hefur borist frá Hellissandi: „Sökum anna get ég ekki tekið sæti Jónasar Árnasonar á þingi og óska eftir að Bjarnfríður Leósdóttir taki sæti Jónasar Árnasonar í minn stað.

Skúli Alexandersson.“

Kjörbréf Bjarnfríðar Leósdóttur hefur ekki komið enn þá né heldur yfirlýsing frá formanni kjörstjórnar. Verður því að fresta rannsókn á því kjörbréfi og er óvíst að sú rannsókn geti farið fram á þessum þingfundi. En ég óska eftir því að kjörbréfanefnd taki til athugunar kjörbréf Heimis Hannessonar hdl. og verður þingfundi frestað í 10 mínútur á meðan sú rannsókn fer fram. — Fundi er frestað. — [Fundarhlé.]