27.01.1975
Sameinað þing: 31. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1363 í B-deild Alþingistíðinda. (1182)

97. mál, alþjóðastofnun fjarskipta um gervihnetti (INTELSAT)

Frsm. (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Till. þessi fjallar um það að heimila ríkisstj. að fullgilda fyrir Íslands hönd samninginn um Alþjóðastofnun fjarskipta um gervihnetti, INTELSAT, sem undirritað var fyrir Íslands hönd í Washington hinn 14. febr. 1972.

Stofnun sú, sem hér um ræðir, er eins konar alþjóðlegt hlutafélag sem um 90 ríki taka þátt í. Það var snemma á síðasta áratug sem myndaðist vísir að alþjóðlegri samvinnu um gervihnattasímaleiðir og 1964 náðist bráðabirgðasamkomulag 19 ríkja og símastjórna þeirra um það hvernig þessu samstarfi skyldi háttað. Þetta þróaðist svo áfram smátt og smátt og fleiri ríki bættust í hópinn, og svo kom að formlega var gengið frá samningi um stofnun þessara samtaka, INTELSAT, 20. ágúst 1971 með sáttmála sem er í tveimur meginþáttum.

Íslenska ríkisstj. lét undirrita þennan sáttmála í Washington hinn 14. febr. 1972 en með fyrirvara um staðfestingu. Nú er svo komið að við verðum að ganga frá lögfestingu ef við ætlum að vera áfram aðili að þessum samtökum. Þessi samtök reka í dag gervihnattakerfi sem spennir um allan heim, og af þremur ástæðum er talið mikilvægt fyrir okkur að taka þátt í þessu samstarfi.

Í fyrsta lagi er um það að ræða, að nauðsynlegt er innan mjög skamms tíma að fjölga símarásum til og frá Íslandi vegna þess að þau sambönd, sem við höfum nú í þeim efnum, eru að verða fullnýtt. Athuganir hafa leitt í ljós að ódýrasta leiðin til að fjölga símarásum milli Íslands og útlanda er um gervihnetti.

Í öðru lagi er þetta svo eina leiðin til að við náum fljótt erlendum sjónvarpsmyndum, t.d. fréttamyndum.

Í þriðja lagi mun þetta tryggja okkur mikilvæga samvinnu við Norðurlönd. Við höfum þegar haft samvinnu við Norðurlöndin um þessi efni. Þessi samvinna er m.a. þýðingarmikil af þeirri ástæðu að í framkvæmdaráði stofnunarinnar geta ekki átt sæti aðrir en þeir, sem eiga visst lágmarkshlutafé, ellegar þá að fimm ríki taki höndum saman og myndi eins konar svæðasamband og fái þannig eitt atkv. í ráðinu. Þannig hefur það verið að undanförnu, að Norðurlöndin fimm hafa staðið saman, því að Ísland hefur verið aðili að stofnuninni skv. bráðabirgðasamkomulaginu. Þetta mundi haldast áfram ef við yrðum fullgildur aðili.

Til þess að við getum nýtt okkur þetta gervihnattakerfi þarf að reisa hér sérstaka jarðstöð. Hefur farið fram athugun á því hvað hún mundi kosta, og er kostnaðarverðið talið eitthvað um 413 millj. kr. eða 3,5 millj. dollara. Þess má geta að Norðurlandaþjóðirnar hafa boðist til að veita okkur mikilsverða aðstoð í þessu sambandi, t.d. í sambandi við útboðslýsingar og um val á útboðum, um þjálfun starfsmanna við væntanlega stöð o.s.frv.

Utanrmn. hefur athugað þetta mál á tveimur fundum og mælir einróma með því að till. verði samþ.