27.01.1975
Sameinað þing: 31. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1377 í B-deild Alþingistíðinda. (1190)

Umræður utan dagskrár

Gunnlaugur Finnsson:

Herra forseti. Það er ekki meining mín að blanda mér efnislega í þær deilur, sem hér hafa verið uppi. En ég vildi gjarnan fá skýringu þeirra lögfróðu manna, sem hér hafa verið með lagaskýringar, á einu atriði, sem í minn hug leitaði, og jafnframt vekja athygli hv. alþm. á því að hér á Íslandi eru allmargar vinnslustöðvar í sjávarútvegi sem starfrækja stórvirkar vélar sem eru í eigu erlendra aðila. Ég á hér við rækjuvinnslustöðvarnar, en mörgum þeirra hefur verið komið upp á þann veg að rækjuvinnsluvélarnar sjálfar, þ.e.a.s. rækjupillunarvélarnar eins og þær eru kallaðar, held ég, eru leiguvélar. Mér hefur verið tjáð að þetta sé skv. íslenskum lögum. Hjá mér hefur þess vegna vaknað sú spurning, hvort þarna gefi ekki auga leið að íslenskir aðilar, einstaklingar eða félög, sem hafa yfir að ráða fasteignum eða húsakosti sem fullnægi þeim skilyrðum sem um það eru sett, geti þannig sett upp stórvirk atvinnutæki, ef þetta stenst lögum samkv. Spurning mín er sú: Hver er eðlismunurinn á því, að þetta er hægt, og hinu, að íslenskir aðilar taki á leigu erlent skip með tækjum og reki það innan íslenskrar lögsögu?