28.01.1975
Sameinað þing: 32. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1379 í B-deild Alþingistíðinda. (1193)

Varamenn taka þingsæti - rannsókn kjörbréfs

Forseti (Ásgeir Bjarnason):

Mér hafa borist eftirfarandi bréf:

Reykjavík, 27. jan. 1975.

Lúðvík Jósepsson, 2. þm. Austf., hefur í dag ritað mér á þessa leið:

„Skv. beiðni Svövu Jakobsdóttur, 5. landsk. þm., sem vegna veikinda mun ekki geta sótt þingfundi á næstunni, leyfi ég mér með skírskotun til 138. gr. laga um kosningar til Alþ. að óska þess, að 1. varamaður landsk. þm. Alþb., Kjartan Ólafsson ritstjóri, taki sæti á Alþ. í fjarveru hennar“.

Þetta er yður, herra forseti, hér með tilkynnt. Ragnhildur Helgadóttir forseti Nd.

Kjartan Ólafsson ritstjóri hefur áður setið á þessu þingi og þarf því ekki að rannsaka kjörbréf hans. Býð ég hann velkominn til starfa.

Þá hefur borist annað bréf:

„Reykjavík, 24. jan. 1975.

Framkvæmdastjóri þingflokks SF hefur í dag ritað mér á þessa leið:

„Skv. beiðni Karvels Pálmasonar, 5. þm. Vestf., sem ekki mun geta sótt þingfundi á næstunni vegna lasleika, leyfi ég mér með skírskotun til 138 gr. l. um kosningar til Alþ. að óska þess, að 1. varamaður SF í Vestfjarðakjördæmi, Jón Baldvin Hannibalsson skólameistari, taki sæti á Alþ. í forföllum hans.“

Þetta er yður, herra forseti, hér með tilkynnt með ósk um að þér látið fara fram í Sþ. rannsókn á kjörbréfi varamanns.

Ragnhildur Helgadóttir, forseti Nd.

Það þarf að rannsaka kjörbréf Jóns Baldvins Hannibalssonar og það liggur hér fyrir.

Þá hefur mér borist eftirfarandi símskeyti það er frá Akranesi 27. 1. 1975:

„Skrifstofa Alþingis

Alþingishúsinu Reykjavík.

Við alþingiskosningarnar 30. júní 1974 var frú

Bjarnfríður Leósdóttir, Stillholti 13, Akranesi, réttkjörinn 2. varaþm. Alþb. í Vesturlandskjördæmi.

f.h. yfirkjörstjórnar,

Stefán Sigurðsson.“

Í gær var lesið upp bréf varðandi frú Bjarnfriði Leósdóttur og vísa ég til þess, en bið kjörbréfanefnd að rannsaka þessi tvö kjörbréf, sem fyrir liggja, og er fundarhlé gefið í 15 mín. Þingfundi er frestað á meðan kjörbréfanefnd starfar. — [Fundarhlé.]