28.01.1975
Sameinað þing: 32. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1380 í B-deild Alþingistíðinda. (1194)

Varamenn taka þingsæti - rannsókn kjörbréfs

Frsm. (Tómas Árnason):

Herra forseti, Kjörbréfanefnd hefur rannsakað kjörbréf Jóns Baldvins Hannibalssonar skólameistara á Ísafirði sem 1. varaþm. F-listans í Vestfjarðakjördæmi og kjörbréf frú Bjarnfríðar Leósdóttur, Akranesi, réttkjörins 2. varaþm. Alþb. í Vesturlandskjördæmi. Varðandi hið fyrra kjörbréf, Jóns Baldvins Hannibalssonar, þá er það í venjulegu formi og undirritað af yfirkjörstjórn Vestfjarðakjördæmis, og sér kjörbréfanefnd enga meinbaugi á því á neinn hátt. Varðandi hitt kjörbréfið, þá hefur það borist í símskeyti sem er svo hljóðandi, þ.e.a.s. kjörbréf frú Bjarnfríðar Leósdóttur:

„Skrifstofa Alþingis

Alþingishúsinu

Reykjavík.

Við alþingiskosningarnar 30. júní 1974 var frú Bjarnfríður Leósdóttir, Stillholti 13, Akranesi, réttkjörinn 2. varaþm. Alþb. í Vesturlandskjördæmi.

f.h. yfirkjörstjórnar,

Stefán Sigurðsson.“

Kjörbréfanefnd hefur kynnt sér að þessi háttur hefur verið hafður á áður, það hafa borist símskeyti frá yfirkjörstjórn varðandi kosningu, þannig að við athugun lítur kjörbréfanefnd svo á að þetta símskeyti sé fullkomið ígildi kjörbréfs. Fyrir því leggur kjörbréfanefnd samhljóða til að þessi tvö kjörbréf, kjörbréf Jóns Baldvins Hannibalssonar og Bjarnfríðar Leósdóttur, verði samþ. og kosning þeirra tekin gild.