28.01.1975
Sameinað þing: 32. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1381 í B-deild Alþingistíðinda. (1198)

309. mál, þjóðhátíðarmynt

Fyrirspyrjandi (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Ég sé að hæstv. ráðh. er ekki í þingsalnum. (Forseti: Ég skal láta sækja hann. — Það er verið að ná í ráðh.) — Hæstv. forseti. Eitthvert alvarlegasta misræmið í félagsmálum hérlendis er mjög ólík aðstaða manna til lífeyristekna að loknu ævistarfi. Nokkur hluti þjóðarinnar býr við mikið öryggi á þessu sviði, verðtryggðan lífeyri sem er ákveðið hlutfall af atvinnutekjum í sama starfi hverju sinni. Til eru meira að segja einstaklingar sem fá lífeyri úr mörgum verðtryggðum sjóðum og fá hærri tekjur eftir að þeir ljúka störfum en þeir hafa nokkru sinni áður haft. Allur þorri launamanna býr hins vegar ekki við neitt slíkt öryggi, heldur eru félagar í sjóðum sem engan veginn munu standa undir því að greiða neinn viðhlítandi lífeyri eins og málum er nú skipað. Og allstór hópur landsmanna er ekki í neinum lífeyrissjóði og fær þá sem hámark tekjutryggingu almannatryggingakerfisins. Þótt sú tekjutrygging, sem komið var á í tíð fyrrv. stjórnar, hafi breytt högum þessa fólks mjög verulega er afkoma þess öll önnur og miklu verri en hinna, sem eru í verðtryggðum lífeyrissjóðum, og hefur raunar verið skert mjög verulega á undanförnum mánuðum.

Lengi hefur verið barist fyrir því að Alþ. gengi frá löggjöf um allsherjarlífeyrissjóð sem tryggði landsmönnum öllum jafnrétti á þessu sviði. Hins vegar skorti Alþ. skilning og vilja til þess að leysa í tíma þetta félagslega stórmál. Því tók verkalýðshreyfingin það upp í almennri kjarabaráttu sinni og knúði fram stofnun fjölmargra lífeyrissjóða. Á vegum þessara lífeyrissjóða fer nú fram árlegur sparnaður sem nemur mjög háum og sívaxandi upphæðum. Þessir sjóðir hafa styrkt fjárhagsstöðu verkalýðshreyfingarinnar til muna og lánveitingar úr þeim hafa m.a. stuðlað mjög að lausn húsnæðismála. En þeir megna engan veginn að leysa það meginhlutverk sitt og raunverulegan tilgang að tryggja félögum sínum lífeyri. Því veldur verðbólgan, sem í sífellu skerðir verðgildi hinna spöruðu fjármuna. Hundruð og þúsundir milljóna brenna upp á eldi verðbólgunnar.

Vandi þessara sjóða er stórmál sem verður að leysa. Sá vandi má hins vegar ekki fela eða tefja það raunverulega meginatriði, það óhjákvæmilega félagslega úrlausnarefni að tryggja landsmönnum öllum jafnrétti á sviði lífeyrismála. Ég fæ ekki séð að það verði gert nema með heildarlífeyrissjóði fyrir alla landsmenn, kerfi sem sé hliðstætt þeirri skipan sem önnur Norðurlönd hafa komið á hjá sér fyrir allöngu og við getum að sjálfsögðu lært mjög mikið af.

Þetta er brýnasta verkefnið, sem nú býður okkar á sviði félagsmála. Því tókum við Alþb.- menn það upp sem eitt meginatriði í till. okkar þegar fram fóru umr. um myndun nýrrar vinstri stjórnar í fyrrasumar. Umr. um það efni virtust bera með sér fulla samstöðu þeirra flokka, sem að viðræðunum stóðu, og þar með stuðning meiri hluta Alþ. Því sneri ég mér um miðjan ágúst í fyrra til n. þeirrar, sem á undanförnum 3 árum hefur unnið að umbótum þeim sem gerðar hafa verið á tryggingalöggjöfinni og skipuð er fulltrúum allra þingflokka, og fól henni að semja frv. um lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn. Í bréfinu var m.a. komist svo að orði, með leyfi hæstv. forseta:

„Við gerð frv. séu eftirfarandi sjónarmið höfð til hliðsjónar.

1. Að allir landsmenn, sem nú eru utan lífeyrissjóða, geti orðið aðilar að sjóðnum.

2. Þeir, sem aðild eiga að eldri sjóðum, eigi þess kost að flytjast í hinn nýja sjóð.

3. Grundvöllur lífeyrisréttinda verði atvinnutekjur.

4. Lífeyrir úr sjóðnum verði verðtryggður á sama hátt og laun.

5. Lífeyrissjóðurinn verði hluti af almannatryggingakerfinu og lög um almannatryggingar verði endurskoðuð með tilliti til þess.

Lögð er áhersla á að frv. hér að lútandi verði lagt fyrir næsta reglulegt Alþ. og til að hraða störfum hefur n. heimild til að ráða tryggingafræðing til starfa með n. að þessu verkefni.

Ég flyt fsp. mína til þess að fá vitneskju um hvernig að þessu máli hefur verið staðið eftir að núv. ríkisstj. var mynduð og hver er stefna núv. heilbr.- og trmrh. í þessu stórmáli.