28.01.1975
Sameinað þing: 32. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1384 í B-deild Alþingistíðinda. (1200)

309. mál, þjóðhátíðarmynt

Fyrirspyrjandi (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. svörin. Þau voru að meginefni til sögulegt yfirlit yfir það sem gerst hefur í þessum málum undanfarin 10 ár og hliðstæð yfirlit höfum við æðioft heyrt hér í þinginu. Staðreyndin er sú, að það er búið að kanna þetta mál til fullkominnar hlítar, og eins og hæstv. ráðh. gat um skilaði Guðjón Hansen tryggingafræðingur álitsgerð um hvaða leiðir væru tiltækastar til þess að koma á lífeyrissjóði fyrir alla landsmenn. Ég held að það sé ákaflega lítið matsatriði hvaða leið þar beri að velja, og held að Alþ. hafi svo margsinnis gert sig sekt um vanrækslusyndir í þessu efni og þar með efnt til ákaflega slæms ástands á þessu sviði, að það sé tímabært að Alþ. taki nú til hendinni og fari að fjalla um þetta mál í fullri alvöru. Einmitt þess vegna lagði ég fyrir þá n., sem fjallaði um tryggingamál á vegum heilbr.- og trmrn., í ágúst í fyrra, eins og ég gat um áðan, að semja frv. um lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn, til þess að alþm. hefðu í höndunum gögn til að ræða þetta mál á fullkominn málefnalegan hátt.

Nú er hins vegar ljóst af svari hæstv. ráðh. að í þessu máli hefur ekkert verið gert síðan núv, ríkisstj. tók við völdum. Núv. ríkisstj. hefur starfað í 5 mánuði, ca. hæstv. heilbr.- og trmrh. hefur ekki séð neina ástæðu til þess að trygginganefnd sinnti þessu hlutverki sem ég bað hana að rækja í ágúst í fyrra. Ég tel þetta ákaflega illa farið, og ég tel að Alþ. geti ekki sætt sig við það að hæstv. ráðh. láti sér nægja að segja að hann geri ráð fyrir að málið verði tekið upp ef í ljós komi að þetta og þetta gerist ekki. Málið stendur þannig að það er ástæðulaust að rannsaka það meir. Það verður að taka um það ákvarðanir, og forsendur þeirra ákvarðana liggja gjörsamlega fyrir.

Eins og ég gat um áðan, þá virtist mér það koma í ljós í umr. um myndun vinstri stjórnar að það væri þingmeirihl. fyrir því að takast á við þetta félagslega stórverkefni, og mér finnst að það þurfi á það að reyna hvort ekki er þingmeirihl. fyrir þessu verkefni áfram, enda þótt önnur stjórn kæmi en þá var verið að ræða um að mynda.