28.01.1975
Sameinað þing: 32. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1387 í B-deild Alþingistíðinda. (1205)

309. mál, þjóðhátíðarmynt

Bjarnfríður Leósdóttir:

Herra forseti. Við höfum fengið hér sögulegt yfirlit um lífeyrissjóði og fyrir það vil ég þakka hæstv. ráðh. Það sögulega yfirlit hefur ekki aðeins nú, heldur náttúrlega fyrir löngu gefið okkur til kynna að það er eins og Magnús Kjartansson sagði, það er forsendur ákvarðana. Eins og þessi mál hafa þróast sérstaklega nú síðan verkalýðsfélögin komu sér upp lífeyrissjóðum, þá er þetta komið í slíkt óefni, að ég held að hvergi nokkurs staðar blasi eins við misréttið og óréttlætið í þjóðfélaginu og einmitt í gegnum lífeyrissjóðina. Það er í fyrsta lagi vegna þess að lífeyrissjóðir bæja- og ríkisstarfsmanna eru verðtryggðir. Tómas Árnason minntist á það hér áðan að þessir lífeyrissjóðir væru komnir upp í 5.5 milljarða. En það hefur enginn þm. enn þá sagt okkur að nú eru á fjárlögum 400 millj. kr. sem eru eingöngu uppbót á lífeyrissjóðina. Ríkissjóður greiðir þessum þegnum sínum uppbót sem er 400 millj. á þessum síðustu fjárlögum.

Þetta er það misrétti sem er alvarlegast. Svo er einnig innan þessara lífeyrissjóða að reglugerðirnar eru misjafnar og þær eru óréttlátar í mörgum lífeyrissjóðum, og þá skal ég fyrst taka til einmitt lífeyrissjóði verkalýðsfélaganna. Þar er t.d. hægt að nefna á þessu ári, sem á að vera kvennaár, þar erum við þannig metnar, konur, að þó að við værum búnar að greiða 30 ár eða fulla lífeyrisgreiðslu í þennan lífeyrissjóð, þá t.d. fær maki okkar engar bætur. Það eru ekki ekkilsbætur úr þessum lífeyrissjóðum nema maðurinn sé aumingi, þá fær hann bætur. Þá er loksins hægt að meta okkur til einhvers ef maðurinn er aumingi. — Nú, það er svona stuttur tími. Ó, fyrirgefið, þá skal ég hætta, Ég vona að við fáum aftur tækifæri til þess á þessu þingi að ræða lífeyrissjóðina, en bæði gerð þeirra og framkvæmd skapar slíkt óréttlæti meðal þegnanna, að hv. Alþ. hlýtur og verður að taka þessi mál verulega föstum tökum og ákveða eitthvað raunhæft um þau.