28.01.1975
Sameinað þing: 32. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1390 í B-deild Alþingistíðinda. (1209)

309. mál, þjóðhátíðarmynt

Tómas Árnason:

Herra forseti. Á tveimur mínútum er ekki unnt að ræða mikið um þetta stóra mál. En ástæðan fyrir því, að ég bað um orðið aftur, voru orð hv. 3. þm. Reykv., en hann sagði að ég hefði talað um að þoka málinn áfram eða mjaka. Ég tók nú frekar hógværlega til orða og vil segja það alveg eins og er hreinskilningslega, að ég mundi verða ánægður ef málið mjakaðist fram á við hér á hv. Alþ., vegna þess, að eins og hér hefur verið upplýst, að Alþ. hefur í raun og veru ekkert gert í þessu máli fram að þessu. Mér er ljóst og það er áreiðanlega öllum hv. þm. einnig, að þetta er flókið mál og vandasamt vegna þess að það snertir m.a. stéttarfélögin í landinu og er auk þess stórt fjárhagsmál.

Ég minntist á það áðan að erfiðasta atriðið í þessu máli væri það, hvernig ætti að fara að því að verðtryggja alla lífeyrissjóðina og hvaða aðili það væri sem gæti staðið undir verðtryggingu. Ég álít að það séu aðallega tveir aðilar sem þar koma til greina. Annars vegar er ríkissjóður, sem þegar stendur undir verðtryggingu lífeyrissjóða opinberra starfsmanna, og svo hins vegar sjálft atvinnulífið í landinu. Ég gat um það áðan að ráðstöfunarfé lífeyríssjóðanna á þessu ári mundi sennilega nema um 5.5 milljörðum kr. og álít að það sé ákaflega þýðingarmikið að vinna að því að það verði lánað skipulegar út heldur en gert hefur verið fram að þessu og það sé kannske stærsti áfanginn í því að verðtryggja lífeyrissjóðina í reynd. Eins og ég sagði áður, þá kem ég ekki auga á fleiri aðila, sem gætu hugsanlega staðið undir slíkri verðtryggingu heldur en hreinlega atvinnulífið sjálft, þ. á m. húsbyggingar auðvitað, og svo ríkissjóður.