28.01.1975
Sameinað þing: 33. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1393 í B-deild Alþingistíðinda. (1217)

78. mál, Síldarverksmiðjur ríkisins í Grindavík

Flm. (Jón Árm. Héðinsson):

Herra forseti. Það er að vonum að fjallað sé um loðnu bæði á hv. Alþ. og utan þess, þar sem sívaxandi veiði og mikilvægi hennar er ekki dregið í efa af neinum hér á landi nú. Á s.l. aðalþingi eða fyrir rúmu ári flutti ég till. til þál. um að Síldarverksmiðjur ríkisins reisi verksmiðju í Grindavík og taldi þá eðlilegt að hafist yrði handa um undirbúning, vegna þess að þá þegar var sýnt að vaxandi veiðimöguleikar voru fyrir hendi eins og reynslan hefur nú sýnt. Því miður náðist þetta ekki fram vegna ýmissa atvika. En enn flyt ég efnislega sams konar þáltill., en hef þó ályktað að hafa verksmiðjuna nokkru minni, í stað þess að hafa 2500 tonna afkastagetu á sólarhring tel ég eðlilegt núna að fara niður í 1500 tonn á sólarhring.

Hér við land hófust loðnuveiðar fyrst að nokkru ráði árið 1965 og öfluðust þá um 50 þús. tonn. Árið eftir verður um mikla aukningu að ræða og veiðast þá um 125 þús. tonn. Næstu tvö árin er aflinn heldur minni eða rétt innan við 100 þús. tonn. Síðan verður mikil breyting á og aflast frá 170–190 þús. tonn á árunum 1969–1971. Fleiri skip koma til í veiðunum og aukin þekking og auknar rannsóknir á göngu loðnunnar stuðla að þessari þróun. Geysileg aukning var svo í aflamálum árið 1912, en þá veiddust 277 þús. tonn, á vertíðinni 1973 veiddust 440 þús. tonn og rúmlega 460 þús. tonn á s.l. vertíð. Þá voru þátttökuskip um 130 alls í veiðunum og þótti mörgum það um of, þar sem minni skip hættu bolfiskveiðum og stefndu til loðnuveiða. Enn er fyrirsjáanlegt að fjöldi skipa muni nú taka þátt í veiðunum.

Þessi aukning skipa á loðnuveiðum mun kalla á betra skipulag og aukna móttöku við löndun en áður hefur verið. Á vertíðinni 1973 var eftir nokkra deilu stofnað til loðnuflutningasjóðs, sem þegar hefur þó sannað gildi sitt, og mun ákveðið að hann starfi áfram. Þó að lög um sjóðinn séu framlengd frá ári til árs, þá held ég að mönnum detti ekki í hug að leggja þetta kerfi niður. Hins vegar er ljóst að þessi aukning á veiðiflota er svo mikil að auka verður afkastagetu flotans með því að reisa nýja verksmiðju sem allra fyrst. Vitað er einnig að margir hafa hug á því að kaupa enn ný og stór veiðiskip og nú bætast við fjögur ný, stór loðnuveiðiskip, tvö þegar komin til landsins og tvö koma innan skamms. Einnig hafa menn breytt skipum sínum, bæði lengt þau og byggt yfir, þannig að aukin afkastageta skipanna er verulega meiri en áður. Það er því augljóst mál að brýna nauðsyn ber til að hefja nú þegar undirbúning að nýrri og stórri verksmiðju á vegum Síldarverksmiðja ríkisins, þar sem ég tel að aðrir aðilar hafi ekki tök á því, einir sér a.m.k., að ráðast í slíkt stórfyrirtæki, auk þess sem Síldarverksmiðjurnar eiga nokkuð af tækjum sem hægt væri að nýta með því að raða þeim saman í nýrri verksmiðju. Með hliðsjón af þessu og svo augljósri þörf til að bjarga auknum afla á land er þessu máli enn hreyft hér á Alþingi.

Þessu til viðbótar kemur svo að innan tíðar verður fiskihöfnin í Grindavík gerbreytt og mun taka við öllum stærðum fiskiskipa, en heildarkostnaður við gerð þessarar hafnar getur farið yfir 700 millj. kr., og er ekki vanþörf á að tryggja höfninni sem mestar hugsanlegar tekjur. Þótt loðnuflutningasjóður starfi með ágætum má ekki gleyma því, að það kostar marga tugi milljóna í óþarfa olíueyðslu að sigla með loðnuna norður fyrir land og hækkandi verð á olíu gerir fiskiskipunum þetta nærri ókleift. Auk þessa er svo áhættan, sem svona langsiglingum fylgir, mjög mikil þar sem skipin sigla oft á annan sólarhring og þurfa þá að berja á móti norðanveðri með frosti og því sem því fylgir.

Það er kunnugt að rekstur Síldarverksmiðja ríkisins hefur af eðlilegum ástæðum gengið illa undanfarin ár, þar sem þær eru staðsettar að mestu leyti á því svæði sem litið af loðnu berst til. En rekstur margra annarra verksmiðja hefur gengið vel og sumar haft uppgrip s.l. 3 ár. Það er mál kunnugra manna hjá SR að ný verksmiðja á þessum hluta landsins mundi létta á heildarrekstrinum.

Sumir hafa látið þá skoðun í ljós að heildarafkastageta verksmiðjanna sé nægileg fyrir hendi. En ef allt er tínt til, allar verksmiðjur á landinu, stórar og smáar, má finna það út að 12 þús. tonna afkastageta er fyrir hendi á sólarhring. En auðvitað vita allir menn að hér er meira talnaleikur á ferðinni en raunveruleiki þar sem þessar verksmiðjur geta auðvitað aldrei verið í hámarksafköstum, það er óhugsandi. Þær þurfa ýmis konar hlé og viðhald og margt annað til þess að geta sýnt hámarksafköst á ákveðnum tíma ársins.

Nú hafa staðið yfir nokkrar deilur út af hugsanlegri leigu á erlendu skipi og skal ég ekki blanda því hér inn í. En augljóst er að mati fiskifræðinga, sem rannsakað hafa loðnugöngur undanfarin mörg ár og munu gera það vissulega betur í framtíðinni, að með skynsamlegri nýtingu á loðnunni og vissri aðgæslu eigum við að hafa hér nokkuð öruggan afla upp á 450–500 þús. tonn eða jafnvel meira á ári. Gefur auga leið að ef það vandræðaástand sem verið hefur, á ekki að endurtaka sig, þá verðum við að reisa nýjar verksmiðjur. Það verður ekki komist hjá því fyrr eða síðar.

Til þess að ég gæti gefið hugmynd um hvað svona verksmiðja kostaði fékk ég þær upplýsingar á s.l. ári að verksmiðja, sem hefði um 1000 tonna afköst á sólarhring, mundi kosta í fjárfestingu með vélbúnaði 450–500 millj. kr. Ég læt mér nú detta í hug, enda hefur sú till. þegar komið fram hér á Alþ., að reistar yrðu fleiri verksmiðjur, og hafa þm. Vesturl. sameinast um þáltill. um að reisa verksmiðju á Snæfellsnesi. Ég tel eðlilegt líka að þm. Sunnl. telji nauðsyn á að fá verksmiðju eða aukna afkastagetu í Þorlákshöfn þegar höfnin þar verður komin í gagnið. Það er nú einu sinni svo með loðnuna, að hún veiðist aðeins mjög stuttan tíma ársins og það er ekkert val um það að bíða. Hún syndir hér fram hjá og hrygnir og svo er það búið. Ef við getum ekki tekið sæmilega á móti loðnunni, þá gefst gæsin ekki meir, það verður að grípa í þessu efni gæs meðan gefst, ekkert val um annað. Þess vegna eru full rök fyrir því að vinna að því að ekki aðeins að sú verksmiðja, sem þessi till. gengur út frá, verði reist, heldur fleiri. Þetta mun taka nokkurn tíma sem eðlilegt er og hér er um allstórar upphæðir að ræða í fjárfestingu. Auk þess þarf auðvitað góð húsakynni og birgðageymslur. En löndunaraðstaða og hafnaraðstaða verður fyrir hendi innan skamms í Grindavik, er raunar þegar fyrir hendi, og innan skamms í Þorlákshöfn. Þess vegna er eðlilegt að þessu máli sé hreyft og málið sé rætt vítt og breitt.

Ég tel ekki nauðsyn á því, herra forseti, að hafa um þetta fleiri orð. Mér virðist málið liggja ljóst fyrir. Við höfum möguleika á miklu loðnumagni á næstu árum, ef stofninn er vel nýttur og skynsamlega veiddur, og því eru full rök fyrir því að móttökuskilyrði séu aukin og bræðsluafkastageta stórlega aukin einnig.

Ég vil svo leggja til, herra forseti, að till. sé vísað til atvmn. og hlé gert á umr.