29.01.1975
Neðri deild: 36. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1404 í B-deild Alþingistíðinda. (1230)

130. mál, fóstureyðingar

Magnús Kjartansson:

Hæstv. forseti. Ég á sæti í þeirri n. sem væntanlega fær þetta mál til meðferðar, þannig að ég mun ekki fara mörgum orðum um frv. við 1. umr. Ég gerði raunar grein fyrir þessu frv. í dálítið annarri mynd á síðasta reglulegu þingi og flutti þá allítarlega ræðu og gerði grein fyrir skoðunum mínum á þessum málum. Sú ræða liggur fyrir prentuð og menn geta kynnt sér hana ef þeir hafa áhuga á. Engu að síður eru það einkanlega tvö atriði sem ég vildi vekja sérstaka athygli á strax nú við 1. umr., breytingar sem ég fyrir mitt leyti get ekki lýst samþykki mínu við.

Það kom fram í ræðu hæstv. ráðh. og kemur raunar fram í grg. frv., að ástæðan fyrir því að fyrra frv. var tekið til sérstakrar endurskoðunar, hafi verið deilur jafnt utan þings og innan og ýmiss konar mótmæli, skriflegar athugasemdir sem borist hafa til heilbr.- og trmrn. og til Alþ. Ég hygg að menn megi ekki draga allt of miklar ályktanir af slíkum athugasemdum sem berast. Það er sá háttur á í þjóðfélagi okkar núna að menn eru mikið gefnir fyrir að mótmæla öllu hugsanlegu og þeir, sem óánægðir eru, koma óánægju sinni á framfæri, en hinir, sem ánægðir eru eða láta sér vel líka, hafast ekkert slíkt að. Ég vil því vara við því að menn taki einhliða mark á mótmælum sem berast. Það er talsvert miklu meira sem þarf að kanna og vega en þessi mótmæli ein. Engu að síður virðist sem þessu frv. hafi verið breytt vegna þessara mótmæla. Segir svo í grg frv.: „Till. n. hafa mótast af því að nauðsyn nýrrar löggjafar sé knýjandi og með hliðsjón af því þurfi að vera einhverjir möguleikar á því að frv. geti orðið að lögum.“ Sama sjónarmið kom fram í ræðu hæstv. ráðh., að þessar breytingar séu gerðar til þess að koma á einhvers konar málamiðlun svo að þetta frv. geti fengist afgr. á þessu þingi. Ég hygg að það sé ákaflega einfalt mál, að þar sem ágreiningsefni kunna að vera um þetta frv. skeri atkv. úr og að það sé óþarfi að búa til einhverja málamiðlun þannig fyrir fram. Ef menn greinir á um grundvallaratriði í sambandi við málið verður meiri hl. að ráða því að sjálfsögðu og það á ekki að þurfa að tefja afgreiðslu málsins á einn eða neinn hátt.

Ég er sammála hæstv. ráðh. um það, að I. kafli þessa frv., ráðgjöf og fræðsla, er langmikilvægasti kafli frv. og raunar algjört undirstöðuatriði í þessari frv.- gerð. Á þessu sviði höfum við íslendingar verið miklir eftirbátar annarra þjóðfélaga umhverfis okkur, og fáfræði um kynlíf og barneignir er með miklum ólíkindum hér á Íslandi, ekki síst í þéttbýli. Þetta á ekki síst við um unglinga, oft mjög unga unglinga, sem hreinlega vita ekkert um kynferðismál, en samneyti kynjanna hefst sem kunnugt er miklu fyrr nú en tíðkaðist hér áður. Þess vegna er ákaflega mikil þörf á aukinni ráðgjöf og fræðslu.

Efnisatriðin í þessum I. kafla eru algjörlega óbreytt frá því að frv. var lagt fram upphaflega að öðru leyti en því, að nú er ákveðið að landlæknir hafi á höndum yfirumsjón með framkvæmd og uppbyggingu slíkrar ráðgjafar og fræðslu. Er þar væntanlega átt við þá ráðgjöf og fræðslu sem er á heilsugæslustöðvum og sjúkrahúsum, og við það hef ég ekki neitt að athuga.

Í 7. gr. frv., sem fjallar um fræðslu um kynlíf og siðfræði kynlífsins á skyldunámsstigi í skólum landsins, er hins vegar ákveðið að skólayfirlæknir eigi að sjá um framkvæmd og uppbyggingu fræðslustarfs samkv. þessari gr. Ég tel að þetta sé ákaflega misráðið. Ég er þeirrar skoðunar að fræðsla um kynlíf og siðfræði kynlífsins í skyldunámsskólum og öðrum skólum eigi að vera eðlilegur hluti af venjulegu námsefni í skólunum, og ég tel að þetta sé algjört grundvallaratriði. Að öðrum kosti kemur þessi fræðsla ekki að tilætluðum notum. Ef þetta á að vera í höndum aðila utan skólakerfisins, skólayfirlæknisins, hversu ágætur sem sá maður er, þá er litið á það sem eitthvert annarlegt málefni, eitthvert feimnismál, og það er einmitt það sem við verðum að forðast. Þessi kennsla verður að fara fram á alveg eðlilegan hátt og falla á eðlilegan hátt inn í námsefnið. Ég tel að það sé algjört grundvallaratriði til þess að slík fræðsla nái tilgangi sínum í skólum. Ég tel að sú n., sem fær frv. til athugunar, þurfi að huga alveg sérstaklega að þessu, því að ég tel þetta einhverja mestu veiluna sem er í þessari nýju gerð frv. Ég tel að þarna sé mörkuð röng stefna, algjörlega röng stefna, sem kunni að leiða til þess að þessi fræðsla nái alls ekki tilgangi sínum.

Eins og hæstv. ráðh. gat um er það hin upphaflega 9. gr. frv. sem mestum deilum olli, einkanlega í fjölmiðlum. Þær umr., sem urðu við 1. umr. á þingi, voru yfirleitt málefnalegar og rólegar, en í fjölmiðlum hafa hins vegar komið fram býsna tilfinningasjúk skrif margsinnis. Það atriði, sem hefur verið gagnrýnt, er þetta: „Fóstureyðing er heimil að ósk konu, sem búsett er hér á landi eða hefur íslenskan ríkisborgararétt, ef aðgerðin er framkvæmd fyrir lok 12. viku meðgöngu og ef engar læknisfræðilegar ástæður mæla móti aðgerð.“ Þetta var upphaf 9. gr. í frv. eins og það var lagt fram á síðasta reglulegu þingi og þetta hefur nú verið fellt út úr frv. Ég er einnig andvígur þessari breytingu. Ég er alveg sammála hæstv. ráðh. um að það má ekki líta á fóstureyðingu sem einhvers konar getnaðarvörn. Það er algerlega fráleit afstaða, og ég hygg að ef I. kafli frv. verður framkvæmdur eins og til er ætlast, þá muni ekki til slíks koma. Það er alveg rétt sem hæstv. ráðh. sagði, að það er mikið álag, andlegt, líkamlegt og tilfinningalegt, á unga konu að verða barnshafandi í fyrsta skipti. Og fóstureyðing er tvímælalaust neyðarúrræði. Hún er það ekki vegna þess að læknisaðgerðin sé hættuleg í sjálfu sér. Hér er um að ræða tiltölulega einfalda læknisaðgerð sem á að geta verið hættulaus ef hún er framkvæmd við fullnægjandi aðstæður. Vandinn veit hins vegar að konunni sjálfri. Þetta er ákvörðun sem hlýtur að vera mjög nærgöngul við tilfinningar manna, siðgæðishugmyndir þeirra og þ. á m. trúarviðhorf sem margir menn eru búnir. Kona, sem lendir í slíkum vanda, verður að gera þessi vandamál upp við sjálfa sig í samræmi við samvisku sína og í samræmi við mat sitt á framtíðinni. Þá ákvörðun getur enginn tekið í staðinn fyrir hana.

Mér finnst það vera furðulegur siðgæðishroki þegar sérmenntaðir menn, hvort sem það eru læknar, félagsráðgjafar eða prestar, telja sig umkomna að taka siðferðilega ákvörðun af þessu tagi í staðinn fyrir einhvern annan og knýja upp á hann ákvörðun sína og vald.

Þetta er ein af þeim ákvörðunum sem eru af því tagi, að það getur enginn fjallað um hana nema einstaklingurinn sjálfur. Þetta er hluti af þeim vanda og þeirri vegsemd að vera maður og þann vanda getur engin umflúið. Slíkar ákvarðanir á ekki að fela á bak við einhverja sérfræðinga eða einhverjar nefndir. Þetta verður einstaklingurinn að gera upp við sjálfan sig. Það getur vel komið fyrir að konur taki ákvarðanir í þessu efni sem þær kunna síðar að sjá eftir. En það er einn vandi lífsins sjálfs, að menn verða oft að gera upp við sig vandamál, hvort sem þeir eiga eftir að iðrast þeirra eða ekki. Það er eina leiðin til þess að verða maður. Þess vegna er ég þeirrar skoðunar, einmitt af siðferðilegum ástæðum, að þetta ákvörðunarvald eigi hvergi að vera nema hjá konunni sjálfri, en að sjálfsögðu innan þeirra marka að slíka ákvörðun verði að taka innan 12 vikna meðgöngu.

Menn segja að með þeirri till., sem fólst í frv. eins og ég lagði það fyrir á síðasta reglulegu þingi, sé verið að auka frelsi konunnar til ákvörðunar, og það er alveg rétt. En það er einnig verið að auka ábyrgð hennar, við skulum ekki gleyma því. Það er mjög hættulegt að menn geti flúið persónulega ábyrgð með því að fela sig á bak við lækna eða félagsráðgjafa. Í því er fólginn siðferðilegur flótti sem er ekki hollur neinum manni, og með því er hægt að kenna öðrum um ákvarðanir, alvarlegar ákvarðanir, sem eiga að vera persónubundnar. Menn geta vissulega lagt góð ráð í þessu sambandi, og hver sem lendir í slíkum vanda hefur vafalaust gott af því að ráðgast við lækni og félagsráðgjafa og annað gott fólk. En ákvörðunarvaldið á að vera hjá einstaklingnum sjálfum. Það eitt er í samræmi víð hugmyndir mínar um það hvernig einstaklingar eigi að lífa lífinu.

Þeirri röksemd hefur heyrst fleygt, að sjálfsákvörðunarréttur konu þegar um er að ræða fóstur, sem er yngra en 12 vikna, muni auka mjög fóstureyðingar á Íslandi í samanburði við það kerfi sem lagt er til að verði tekið með þessu nýja frv. Fyrir þessu eru hreinlega engin rök. Ég vil minna á það, að hér hafa verið í gildi að undanförnu tvenn lög um þetta efni, önnur lögin frá 1935, hin lögin frá 1938, sem kveða á um það í hvaða tilvikum megi heimila fóstureyðingar. Samkv. þessum lögum voru heimilaðar 99 fóstureyðingar árið 1970. Þær fóstureyðingar, sem heimilaðar voru 1973, voru hins vegar 223. Þær höfðu meira en tvöfaldast. Lögunum hafði samt ekki verið breytt. Það hafði engum reglum verið breytt. Það eru bara þeir einstaklingar, sem þarna fóru með vald, sem meta fyrirmæli laganna á mismunandi hátt, þannig að á einum þremur árum fjölgar jákvæðum afgreiðslum þeirra á slíkum umsóknum um meira en helming. Þetta gerist á sama tíma og allir vita að ákaflega stór hópur kvenna hefur farið utan til fóstureyðinga. Slíkar ferðir hafa hreinlega verið auglýstar og skipulagðar, og við vitum um það, að að þeim eru ákaflega mikil brögð. Í því sambandi er ástæða til að vekja athygli á því sem framkvæmdaatriði, að það er tilgangslítið að hafa um þetta efni þrengri reglur hér en eru í nágrannalöndum okkar, því að það leiðir þá til þess að einstaklingar, sem ekki telja sig fá notið hér réttar síns, fara til annarra landa og láta framkvæma slíkar aðgerðir þar. En slík ferðalög verða hins vegar forréttindi þeirra sem hafa fjárráð til þess að fara inn á þessa leið og hafa þekkingu til þess að geta komið sér þannig á framfæri í erlendum löndum. Ég er hræddur um að það yrðu þær stúlkur, sem eiga í mestum vanda hvað þetta snertir, sem yrðu afskiptar. En þetta er atriði framkvæmdalegs eðlis. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar, að hér sé um að ræða mál sem verði að meta á siðferðilegum grundvelli, og það er á þeim rökum sem ég tel að þessi réttur eigi að vera í höndum konunnar.

Þær reglur, sem hæstv. ráðh. fór hér yfir áðan, eru félagslegar ástæður með fjórum undirlíðum og læknisfræðilegar ástæður með þremur undirliðum og svo í þriðja lagi ef um nauðgun er að ræða eða þungun sem afleiðingu af öðru refsiverðu atferli. Þessar reglur eru, ef menn líta á þær, ákaflega almennar og ef við samþ. þessar reglur sem lög, þá hefðum við ekki minnstu hugmynd um hvaða reglur við værum að setja. Þarna væri um að ræða mat þeirra manna sem ættu að framkvæma reglurnar. Það er hægt að heimfæra svo til hvaða tilvik sem er undir þessar reglur. Ef menn lesa þær, þá ætti þeim að vera ljóst að það fer eftir mati læknis og félagsfræðings, og það er hægt að framkvæma eiginlega hvaða fóstureyðingu sem er samkv. þessum reglum. Ég hef ekki nokkra minnstu trú á því að þetta feli í rauninni í sér einhverja takmörkun á þessum rétti a.m.k. ekki miðað við þau viðhorf sem nú eru uppi hér á Íslandi. En við erum hins vegar að færa sérfræðingum, lækni, félagsráðgjafa, völd yfir lífi annars fólks sem ég tel að engir menn eigi að hafa, hver einstaklingur verði að hafa út af fyrir sig.

Í sambandi við kaflann um fóstureyðingar vil ég vekja athygli á því að þar hefur einnig komið til viðbót, sem mér finnst ákaflega einkennileg. 13. gr. frv., eins og það er nú lagt fyrir, fjallar um hvernig ganga skuli frá umsókn, grg. og vottorði. Er þar í fjórum fyrstu liðunum efnislega fjallað um það mál á svipaðan hátt og gert var í frv. sem flutt var á síðasta reglulegu þingi. Síðan er bætt við 5. lið sem er á þessa leið: „Hætti kona við aðgerð ber henni að staðfesta þann vilja sinn skriflega.“ Við þessu er ekkert að segja. Svo kemur: „Sé konu synjað um aðgerð skal það tilkynnt hlutaðeigandi aðilum. Telji hlutaðeigandi aðilar að kona hafi verið misrétti beitt, þá ber þeim skylda til að vísa málinu til úrskurðar n. þeirrar, sem kveðið er á um í 28. gr.“ Nú er þetta orðalag ákaflega loðið og nánast óskiljanlegt. Það er ekkert getið um hver hafni og það er ekkert getið um hverjir eru hlutaðeigandi aðilar. Hins vegar kemur það í ljós þegar maður les grg., að hlutaðeigandi aðilar eru einmitt læknarnir eða læknirinn og félagsráðgjafinn sem eiga að fara með úrskurðarvaldið samkv. þessum kafla laganna. En þarna er sem sé kominn nýr aðili sem getur hafnað eftir að þessir aðilar eru búnir að taka ákvarðanir sínar. Þó að þetta sé óljóst orðað, þá virðist mér á grg. að þarna sé átt við sjúkrahús, að sjúkrahúsið geti hafnað aðgerð þó að búið sé að ganga frá henni eins og lögin gera ráð fyrir, með rökstuðningi tveggja lækna eða læknis og félagsráðgjafa. Hins vegar er ekki tekið fram um það hvaða aðili sjúkrahússins á að taka þessa ákvörðun. Þarna er kominn inn nýr aðili sem á að fjalla um þetta mál. Það eru ekki aðeins læknirinn og félagsráðgjafinn og ekki aðeins n., sem um er fjallað í 28. gr., heldur sjúkrahús. Þarna finnst mér vera farið undarlega að, og ég vænti þess að n., sem fær málið til meðferðar, liti alveg sérstaklega á þetta atriði, því að af þessu sýnist mér geta hlotist margs konar vandræði og óþarfir árekstrar. Það stendur að það sé hægt að vísa slíkri neitun til n. þeirrar sem kveðið er á um í 28. gr. og skipuð er einum lækni, einum lögfræðingi og einum félagsráðgjafa. Hins vegar er ekkert sagt um að þessir 3 menn hafi eitthvert vald til að skipa sjúkrahúsinu ef það neitar. Ég sé því ekki betur en að málin séu þarna sett í mjög undarlega og ástæðulausa og óþarfa sjálfheldu.

Það eru minni háttar atriði sem hægt hefði verið að víkja að í sambandi við þetta frv., en ég mun ekki gera það við 1. umr., vegna þess að ég get komið þeim málum á framfæri í nefndinni sjálfri. En ég vil taka undir það með hæstv. ráðh., að ég tel það skipta ákaflega miklu máli að þetta frv. verði að lögum á þessu þingi. Sú löggjöf, sem fyrir er, er orðin ákaflega úrelt og nær á engan hátt tilgangi sínum. Við verðum að setja um þetta nýja löggjöf og eins og ég sagði áðan, þá geri ég ráð fyrir því, ef ekki næst samstaða í n., að ég muni beita mér fyrir því að fluttar verði vissar brtt. víð frv. Þar verða atkv. að sjálfsögðu að ráða. En ég mun fyrir mitt leyti leggja á það áherslu, bæði innan n. og hér í hv. d., að þetta frv. fái sem greiðasta og málefnalegasta afgreiðslu.