29.01.1975
Neðri deild: 36. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1413 í B-deild Alþingistíðinda. (1236)

114. mál, þingsköp Alþingis

Flm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Frv. það, sem ég hef flutt um breyt. á þingsköpum Alþ., fjallar eingöngu um umr. utan dagskrár. Tilefni þess, að frv. þetta var flutt seint á s.l. ári, voru deilur sem þá risu og höfðu raunar í svipuðu formi risíð áður út af því að forsetar vildu takmarka mjög ræðutíma manna í slíkum umr.

Í þingsköpum segir ekkert um umr. utan dagskrár og er því algerlega á valdi forseta hvort hann leyfir þær eða ekki og ef hann leyfir þær hvernig hann hagar þeim.

Oft gerast atburðir skyndilega eða mikilsverð mál upplýsast óvænt, svo að Alþ. hlýtur að fjalla um fyrirvaralaust. Af þessum sökum er þýðingarmikið að slíkar umr. geti farið tafarlaust fram, þótt ekki hafi verið unnt að flytja málin eins og venjuleg þingmál. Þessu hlutverki hafa umr. utan dagskrár gegnt á Alþ. og þær eru því meðal veigamestu liða í þingstörfunum.

Að vísu verður því ekki neitað að einstaka sinnum kveðja þm. sér hljóðs utan dagskrár aðallega til að vekja athygli á sjálfum sér og áhugamálum sínum, enda skýra fjölmiðlar oft á tíðum meira og betur frá því sem gerist utan dagskrár heldur en innan ramma hennar. Þessi misnotkun er þó léttvæg miðað við hið raunverulega hlutverk umr. utan dagskrár, sem ég nefndi áðan.

Deilur um þessi mál hafa sérstaklega risið síðan þingsköpum var breytt árið 1972, en meðal þeirra breyt., sem þá tóku gildi, var mjög takmarkaður ræðutími um fsp. Síðan hefur komið fyrir að þingforsetar hafi lítið á allar umr. utan dagskrár eins og fsp. og reynt að framfylgja því að umr. utan dagskrár væru háðar sömu tímatakmörkunum. Ég vil rifja það upp að fyrirspyrjendur hafa 5 mín., en aðrir þm. hafa ekki nema 2 mín. ræðutíma, svo að þröngt er stakkurinn sniðinn. Slíkar takmarkanir eru mjög eðlilegar í sambandi við fsp. En þess ber að gæta að oft á tíðum eru umr. utan dagskrár alls ekki fsp. og þess vegna fráleitt að beita svo ströngum ákvæðum, enda hafa forsetar rekið sig á að það er varla hægt og stundum, eins og t.d. hefur þegar komið fyrir nú eftir jólin, sýnt meira umburðarlyndi en endranær.

Starfshættir Alþingis eru sérkennilegir að því leyti til að fundir eru settir, en síðan eru ýmis störf unnin, t.d. afgreiðsla fundargerða sem er formleg samþ., tilkynningar eru fluttar, sagt frá ýmsum erindum og fleira getur gerst áður en hin eiginlega dagskrá hefst. Í öðrum löndum er oft litið þannig á að um leið og fundur sé settur, þá sé dagskrá hans hafin og geti því ekkert gerst utan dagskrár. Samt sem áður eru í flestum lýðræðislöndum, sem við þekkjum til, einhverjar leiðir til þess á þingi að fyrirvaralaust sé hægt að ræða mál sem upp koma, enda þótt ókleift sé að setja þau formlega á dagskrá. Þetta er oft gert á sérkennilegan hátt, og má nefna þar sem dæmi að í breska þinginu er algengast að þm. flytji till. um að fundi skuli slitið. Slík till. er talin vera svo víðtæk að innan ramma hennar megi ræða um allt milli himins og jarðar. Þetta gera þeir yfirleitt undir lok þingstarfa, sem að jafnaði eru um tíuleytið að kvöldi til í London. En tilgangurinn og árangurinn er þó nokkurn veginn hinn sami og með umr. utan dagskrár á Alþingi.

Ég varpa því fram með þessu frv. hvort þinginu sýnist ástæða til að setja í þingsköp ákvæði um umr. utan dagskrár og þá um leið einhver ákvæði um ræðutíma, því að jafnnauðsynlegar og slíkar umr. eru, þá mega þær ekki trufla gjörsamlega öll önnur störf Alþ., heldur verða að vera innan einhverra hóflegra takmarka. Í frv. eru settar fram hugmyndir um ákveðna ræðutímalengd, en ég vil taka það fram, að ég tel það ekki aðalatriðið. Ef þn. og þingið teldu rétt að setja slík ákvæði í þingsköpin mætti einnig ræða það, hvaða ræðutímalengd yrði talið rétt að binda sig við.

Herra forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til allshn.