29.01.1975
Neðri deild: 36. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1414 í B-deild Alþingistíðinda. (1237)

114. mál, þingsköp Alþingis

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég tel virðingarvert af hv. flm. þessa frv. að hreyfa þessu máli. Það er kunnara en frá þurfi að segja að umr. utan dagskrár hafa oft verið til hálfgerðra vandræða að því leyti til, að þær hafa hindrað afgreiðslu eðlilegra dagskrármála. Þegar svo er farið, að þannig getur staðið á að dag eftir dag fari kannske umr. þingfunda aðallega í umr. utan dagskrár, en mál, hvort heldur er lagafrv. eða önnur, sem eru á dagskrá og hafa verið borin fram með formlegum hætti, komast ekki að, þá er vissulega komið í óefni. Þess vegna finnst mér vera skynsamlegt að leita eftir leiðum til þess að setja reglur um þetta, eins og hv. þm. leitast við að gera í þessu frv. sínu.

Ég held að það sé gott að þetta mál sé athugað í n. og þá vil ég bæta við að opnað verði fyrir frekari umr. um þingsköpin, því að þótt þau hafi verið endurskoðuð ekki alls fyrir löngu er það nú svo með þau eins og annað sem að starfsháttum lýtur, að það getur verið eðlilegt að taka slík atriði til skoðunar annað veifið. Ég fyrir mitt leyti held að það séu ýmis atriði í starfsháttum þingsins sem mætti taka til skoðunar jafnframt því sem þessi atriði eru athuguð.

Ég get fallist á það með hv. flm., að þó að ekki sé gert ráð fyrir umr. utan dagskrár í þingsköpum, þá er vitaskuld alveg útilokað að girða fyrir þær með öllu, enda eiga þær sér svo langa hefð að því verður auðvitað ekki við komið og ekki breytt, að þær hljóta alltaf að eiga sér stað í einhverjum mæli, þó að það sé jafnrétt að setja þannig skorður við að þær fari ekki út í öfgar.

Til viðbótar þessu langar mig til að spyrja um eitt atriði í þessari frvgr. sem mér er ekki alveg ljóst hvernig flm. meinar. Hann gerir ráð fyrir að um sérstök stórmál sé í rauninni að tefla, sem þarna komi helst til greina að umr. fari fram um. En þá er það í sambandi við tak mörkun á ræðutíma. Mér sýnist næst liggja að skilja síðustu málsgr. 1. gr. svo, að það sé gert ráð fyrir því að ráðh. og þá bara viðkomandi ráðh. geti aðeins talað tvisvar sinnum. Ég veit ekki hvort það hefur verið ætlun flm. eða hvort þetta er aðeins ekki greinilegt í þessari málsgr. En ég held að með tilliti til þeirrar almennu reglu sem gildir í þingsköpum um málfrelsi ráðh., þá skyti það dálitið skökku við ef ætti að takmarka það í þessu tilfelli, þegar einmitt um er að ræða, að ætla má, stórpólitísk mál. Það gæti verið í rauninni óþægilegt, ef ráðh. gæti ekki komið inn í umr. eftir að hann hefur talað tvisvar, en svo og svo margir ræðumenn bætast við, jafnvel þótt ekki sé nema með 5 mín. ræðutíma. Gæti m.a. verið að hann hefði meðferðis upplýsingar sem væri rétt að kæmu fram, en hann hefði ekki haft tækifæri til þess eða ástæðu fyrr í umr., af því að það atriði hafði ekki borið á góma fyrr en hjá síðari ræðumönnum. Ég geri ráð fyrir að hv. flm. hafi hugleitt þetta atriði, en geri þá jafnframt ráð fyrir því, í samræmi við það sem hann sagði, að hann sé reiðubúinn til þess að láta athuga það nánar í nefnd. Auðvitað má segja sem svo, að það sé eðlilegt að ráðh. og þm. sitji að öllu leyti víð sama borð í þessum efnum. En hitt er gamla reglan, sem gilt hefur í okkar þingsköpum, að ráðh. hafi að þessu leyti sérstöðu, og byggist auðvitað ekki beint á tillitinu til ráðh., heldur á hinu, að það getur verið nauðsyn fyrir umr. að þeir geti gripið inn í hvenær sem þörf krefur.