29.01.1975
Neðri deild: 36. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1417 í B-deild Alþingistíðinda. (1242)

100. mál, sérkennslumál

Flm. (Sigurlaug Bjarnadóttir):

Herra forseti. Við flytjum hér 5 sjálfstæðismenn till. um kennslu afbrigðilegra barna og þá sérstaklega með landsbyggðina í huga. Leyfi ég mér að lesa till., en hún hljóðar svo:

Alþ. ályktar að brýna nauðsyn beri til að gera án tafar ráðstafanir til að bæta úr vöntun á sérkennslu afbrigðilegra barna í grunnskólum úti á landsbyggðinni.

Í því skyni skal sérstökum starfsmanni innan menntmrn. falið könnunar- og skipulagsstarf á þessu sviði. Sé hann um leið skólastjórum og fræðsluráðum til ráðuneytis og aðstoðar í þessum málum.

Jafnframt skal áhersla lögð á menntun sérkennara við Kennaraháskóla Íslands og námskeið fyrir almenna kennara í kennslu og handleiðslu afbrigðilegra barna.“

Ég mun nú gera nokkru nánari grein fyrir þessari till.

Á síðustu árum hefur athygli skólamanna og annarra, sem láta sig skólamál varða, beinst í vaxandi mæli að vanda þeirra barna og unglinga sem einhverra hluta vegna eiga ekki samleið með öðrum nemendum skólans. Orsakirnar eru margar og margvíslegar og misjafnlega erfiðar að fást við, bæði fyrir skólann og nemandann. Skilningur manna hefur jafnframt aukist á því að misheppnuð skóladvöl getur reynst örlagarík fyrir velfarnað og lífshamingju einstaklingsins síðar á ævinni og margfalt dýrari fyrir þjóðfélagið sem heild, heldur en ef komið hefði verið í veg fyrir mistökin í upphafi.

Það er viðurkennt að skólakerfi okkar kemur ekki enn nægilega til móts við mismunandi þarfir nemenda, aðstæður þeirra, hæfileika og áhugamál. Það skortir sveigjanleika og aðlögun að breyttum þjóðfélagsháttum.

Hin nýju grunnskólalög, sem gert er ráð fyrir að komi til framkvæmda á næstu 10 árum, bera það á ýmsan hátt með sér að vilji er fyrir hendi til að bæta hér úr. Þau hefðu þó óneitanlega mátt gera fyllri skil vanda þeirra nemenda, sem haldnir eru einhverri vöntun, andlegri eða líkamlegri. Væntanlega mun reglugerð með l. geta bætt það upp. En það er ekki síst með tilliti til hins langa gildistökutíma l. að okkur flm. þessarar till. þykir ástæða til að vekja sérstaka athygli á þessum þætti skólafræðslunnar til þess að ekki verði lengur gengið fram hjá honum við framkvæmd fræðslulaga og þá sérstaklega með grunnskóla landsbyggðarinnar í huga.

Í grg. með till. er bent á að fræðsluyfirvöld Reykjavíkurborgar hafa á undanförnum árum haft frumkvæði um ýmsar nýjungar sem lúta að auknum stuðningi og aðhlynningu þeirra nemenda sem einhverra orsaka vegna eru sérstaklega hjálpar þurfi. Á fræðsluskrifstofu borgarinnar starfar sérstakur kennslufulltrúi, sem í samráði og samvinnu við fræðsluráð og skólastjóra borgarinnar skipuleggur og leiðbeinir um hinar ýmsu greinar sérkennslu. Þessi sérkennsla er framkvæmd með ýmsu móti.

Ber þar fyrst að nefna stuðningskennslu í almennum skólum, þar sem nemendur eru kyrrir í eigin bekk, en fá nokkra sérstaka tíma vikulega. Aðallega er hér um að ræða leshjálp vegna lestrar- eða skriftarörðugleika eða almennra námsörðugleika, talkennslu vegna mál- eða talgalla eða í þriðja lagi sérstaka handleiðslu vegna hegðunargalla. Slík stuðningskennsla fer nú fram í öllum skyldunámsskólum borgarinnar, 17 talsins.

Næst vil ég aðeins drepa á hjálparkennsluna sem ætluð er nemendum er þurfa meiri og sérhæfðari hjálpar með en hinir sem stuðningskennslunnar njóta. Hjálparkennslan fer fram í sérbekkjum í almennum skólum, en slíkir hjálparbekkir eru í vetur 33 talsins í 11 af skyldunámsskólum Reykjavíkurborgar. Hér er um að ræða börn sem t.d. eru með skerta sjón eða heyrn, börn með meiri háttar lestrarörðugleika eða hafa ekki náð eðlilegum skólaþroska, einnig lömuð börn og fötluð. Þá er og veitt sjúkrakennsla, ýmist á sjúkrahúsum eða í heimahúsum. Sérkennsla utan almennu skólanna fer svo fram í Höfðaskóla, sem hefur nú um 110 nemendur, á sérstöku meðferðarheimili fyrir taugaveikluð börn með 6–8 nemendur og á skólaheimili með 10–11 nemendur fyrir börn með erfiðar heimilisástæður og alvarleg hegðunarvandkvæði.

Þetta á við um Reykjavík, og miðar hér vissulega í rétta átt þótt allmikið vanti á að sérkennsluþörfinni hér sé enn fullnægt. En úti á landsbyggðinni verður annað uppi á teningnum. Má að ég hygg óhikað segja að utan Stór-Reykjavíkursvæðisins ríki ófremdarástand á þessu sviði skólamála. Munu þess mörg dæmi, eins og bent er á í grg., að fólk búsett úti á landi hefur neyðst til að flytjast búferlum hingað suður til að sjá börnum sínum fyrir fræðslu og meðferð við þeirra hæfi. Hitt er líka til, að börn, sem ekki fá notið hinnar almennu kennslu vegna einhverra annmarka eða vöntunar, fá alls enga kennslu. Hér ber margt til annað en takmarkaður skilningur yfirmanna í menntamálum hingað til. Vil ég þar fyrst nefna mjög bagalegan skort á sérmenntuðum kennurum, aðstöðu og tækjum og siðast en ekki síst skort á fjármagni til að standa straum af nauðsynlegum aðgerðum, jafnvel þar sem möguleikar væru annars fyrir hendi.

Á fjölmennri ráðstefnu um nýjungar í skólamálum, sem haldin var hér í Reykjavík í nóv. s.l. á vegum Landssambands sjálfstæðiskvenna og Sjálfstæðiskvennafélagsins Hvatar, voru sérkennslumálin, þ.e. kennsla afbrigðilegra barna, eitt aðalviðfangsefnið. Þar kom mjög greinilega fram hjá þátttakendum utan af landi í senn áhugi og áhyggjur út af þessum málum, eins og þeim er nú háttað almennt í skólum landsins, eitthvað yrði að aðhafast til úrbóta. Um svipað leyti, eða 21. nóv. s.l. birtist í Akureyrarblaðinu Íslendingi forsíðugrein þar sem segir í stórri fyrirsögn blaðsins, að deyfð ríki yfir sérkennslumálum, þau séu vanræktur þáttur í skyldunámsstiginu á Akureyri. Síðar í þessari grein Íslendings er vakin athygli á því að börn, sem ekki hafa nægilega greind til að notfæra sér almenna skólakennslu, en hins vegar of mikla greind til að þurfa á hælisvist að halda, fá enga skipulagða aðstoð. Vitnað er til þess að forstöðumaður Sólborgar, sem er hæli fyrir vangefin börn á Akureyri, kvarti yfir því að skólayfirvöld í bænum vilji gjarnan láta þessi börn hverfa inn fyrir veggi Sólborgar, en að hans mati og sálfræðinga eigi þau ekkert erindi inn á hæli, heldur beri þjóðfélaginu að veita þeim hjálp innan ramma skólakerfisins. Og blaðið hefur orðrétt eftir forstöðumanninum, Bjarna Kristjánssyni, með leyfi forseta:

„Þessi hópur barna, þ.e.a.s. þau sem hafa greindarvísitölu milli 50 og 70, eiga afskaplega erfitt. Samfélagið gerir kröfu til þeirra að þau verði nýtir þjóðfélagsþegnar sem geti staðið á eigin fótum, en gerir aftur á móti ekkert til að hjálpa þeim til að styrkja stöðu sina í þjóðfélaginu. Barn, sem hefur greind undir 50 stigum, er mun betur sett því að það á rétt á að njóta vistunar innan hælis, en það á hinn hópurinn ekki.“

Þá vitnar blaðið í grg, skrifaða af Valgarði Haraldssyni námsstjóra árið 1970 um sérkennslu, en þar segir orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Sérkennsla er mikilvægur þáttur í þeirri víðleitni skólans að skapa sérhverjum nemanda þá námsaðstöðu og þroskaleið sem er í samræmi við þarfir hans og markmið. Nauðsynlegt er að sérmenntaðir kennarar annist sérkennsluna og komið verði á fót ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu, sem meðal annars annist rannsókn á afbrigðilegum nemendum og leiðbeini skólastjórum, kennurum og foreldrum um kennslu, uppeldi og meðferð slíkra barna.“

Síðan bætir Valgarður því við í samtali við blaðið að því miður séu framkvæmdir á þessu máli á Akureyri ekki sem skyldi og sé kennaraskortur og skipulagsleysi þar höfuðorsökin. Hann tekur fram að í fyrra hafi verið 5 hjálparbekkir í barna- og unglingaskólum Akureyrar, en í ár séu þeir aðeins 2 vegna stöðubreytinga og brottflutnings kennara úr bænum.

Greinarhöfundur gerir í lokin nokkra grein fyrir tilhögun á framkvæmd sérkennslumála í Reykjavík og spyr hvort ekki sé óeðlilega mikill aðstöðumunur nemenda á Akureyri og í Reykjavík hvað varðar hjálp í sambandi við nám. Vafalaust má svara þeirri spurningu játandi, hvað þá varðandi alla þá fjölmörgu skóla úti um landið þar sem engri slíkri aðstoð er fyrir að fara.

Í grg. till. er tekið fram, að þessi mál hafa verið og eru í athugun innan menntmrn. og þar er góður vilji fyrir hendi til að koma þeim í viðunandi horf. En athuganir og aðgerðir, ef hægt er að nota það orð, hafa hingað til verið allt of handahófskenndar og í lausu lofti til að vænta mætti nokkurs verulegs árangurs. því er bent á að ef taka á þessi mál föstum tökum svo sem nauðsyn ber til, þá þurfi til þess ákveðinn aðila innan rn. eða í nánu sambandi við það, hæfan, sérmenntaðan mann sem geti beitt sér að því að skipuleggja og samræma aðgerðir á þessu sviði og um leið verið til aðstoðar og ráðuneytis skólastjórum og fræðsluráðum úti um landið sem nú eiga ekki í neitt ákveðið hús að venda í þessum málum. Virtist mér ekki óeðlilegt að leitað yrði samstarfs við Reykjavíkurborg sem þegar hefur hér nokkra reynslu og einnig með sameiginlega og betri nýtingu sérmenntaðra starfskrafta fyrir augum.

Þá er í grg. getið um athugun á sérkennsluþörfinni utan Stór-Reykjavíkursvæðisins sem gerð var á vegum menntmrn. á fyrri hluta ársins 1974. Ráðinn var sérfræðingur, dr. Arnór Hannibalsson sálfræðingur, sem á tímabilinu febr. –maí heimsótti 60 skóla vestan-, austan- og norðanlands, aflaði upplýsinga um hjálparkennslu, athugaði nemendur eftir því sem tími og aðstæður leyfðu og gaf ráðleggingar um meðferð þeirra og kennslu. Dr. Arnór skilaði síðan rn. skýrslu um ferð sína og niðurstöður í okt. s.l. Hann tekur fram í upphafi skýrslunnar að hann geri ekki verkefninu nein skil sem gagn sé í, svo naumur tími sem honum var til þess ætlaður. Jafnframt lætur hann þess getið að ekki muni að vænta áframhalds á störfum hans fyrir rn. að þessu verkefni, Er í fersku minni allmikill úlfaþytur sem varð út af þessari skýrslu og í framhaldi þar af misklíð og átök innan rn. sem ég mun ekki fara nánar út í hér og því síður dæma á einn eða annan veg. En vissulega er það miður farið þegar svo harkalegur ágreiningur kemur upp innan jafnnáinnar og mikilvægrar samstarfsheildar sem eitt rn. þarf og á að vera. En hvað um það, þá tel ég engan vafa á að skýrsla Arnórs, svo langt sem hún nær, er gagnlegt byrjunarskref í rétta átt. Hún gefur greinilega vísbendingu um það, sem raunar var vitað áður, að hér er um að ræða umfangsmeira vandamál en menn hafa almennt gert sér ljóst áður, vandamál sem yfirstjórn fræðslumála ber skylda til að beita sér að af alvöru með öllum tiltækum ráðum.

Í umræddri skýrslu er lýst allítarlega ástandinu í hverjum hinna 60 skóla sem heimsóttir voru. Í 18 þeirra fór fram einhver meiri eða minni hjálparkennsla, náði hún til samtals 313 nemenda, en heildarnemendafjöldi hinna 18 skóla var 4468. Hjálparkennslunemendur voru þannig, miðað við þessar tölur, um 7%. Sem dæmi er í grg. tekinn upp úr skýrslu Arnórs skóli í sjávarplássi einu með 44 nemendur. Af þeim þyrftu 8 nemendur aukatilsögn eða sérmeðferð, en engin tök eru þarna á að veita neitt slíkt, til þess vantar kennara. Í öðru sjávarþorpi þyrftu 21–24 nemendur af 151 í skóla hjálparkennslu við, en engu slíku er til að dreifa. Og þannig mætti lengi halda áfram að telja.

Það er athyglisvert að af tilgreindum orsökum námserfiðleika er lestregða langalgengust, en margar aðrar koma til, svo sem skert heyrn eða sjón, málgallar, skriftarörðugleikar, stafablinda, almennur seinþroski eða greindarskortur, taugaveiklun, erfiðar heimilisástæður og vanræksla í uppeldi. Það er þannig augljóst, að hér er við margvíslegan vanda að fást, vanda sem verður því erfiðari úrlausnar, því seinna á skólaferlinum sem hann er uppgötvaður og því lélegri aðstæður og úrræði sem fyrir hendi eru í hverju tilviki. Áhugi og góður vilji almennra kennara og skólastjóra hrekkur hér hvergi nærri til að ná viðunandi árangri í því björgunar- og hjálparstarfi, sem þarf að koma til. Vafalaust gæti sveigjanlegri námsskrá og raunhæfari námskröfur bjargað mörgum nemendunum frá þeirri uppgjöf og síðar uppreisn gegn námi og skóla sem oft markar upphafið að hinu svokallaða unglingavandamáli. Færri bóknámsstundir, en fleiri í verklegri kennslu og almennri verkþjálfun mundu eflaust geta afstýrt mörgum vandræðatilfellum.

Nú er í uppsiglingu hér í Reykjavík sérkennslumiðstöð ríkisins sem á að sinna sérkennslumálum alls landsins. Ekki skal nauðsyn slíkrar stofnunar dregin í efa, því að alltaf verður það allstór hópur barna sem eru það mikið afbrigðileg líkamlega og/eða andlega að þeim verður ekki sinnt að gagni með stuðningi eða sérmeðferð innan hins almenna skóla. Auk þess mun þessari stofnun ætlað sérstakt sérfræðilegt rannsóknarhlutverk sem allt landið mun njóta góðs af. En slík stofnun og einnig aðrar sams konar minni í sniðum úti á landsbyggðinni eru þó lausnarorðið í þessum efnum. Stefnan hlýtur að vera og er sú, eins og bent er á í grg. till., að sérkennsluþjónustan flytjist út í almenna skólakerfið og út um landið allt, að svo miklu leyti sem mögulegt er. Innilokun barns, sem haldið er einhverjum annmarka eða vöntun, á sérstofnun aðskilið frá fjölskyldu sinni og heimili, eðlilegu umhverfi og heilbrigðum félögum er neyðarúrræði sem nú er almennt hafnað ef annar kostur er fyrir hendi.

Ég vil í þessu sambandi vekja athygli á að í einum skóla hér í Reykjavík, Hlíðarskóla, er nú kennt í tveimur sérbekkjum, öðrum fyrir heyrnarskert börn, 5–6 talsins, sem ekki fá notið venjulegrar kennslu, en hafa sérstofu með nauðsynlegum útbúnaði og sérmenntaðan kennara, í hinum eru lömuð börn, 7–8 talsins, sem njóta sérkennslu við sitt hæfi. Báðir þessir hópar blandast svo hinum heilbrigðu börnum í leik og útiveru í frímínútum og verður ekki vart teljandi aðlögunarerfiðleika, frá hvorugri hliðinni, hinni fötluðu og hinum heilbrigðu, sem gera sér jafnvel sérstakt far um að sýna þessum félögum, sem miður mega sín, tillitssemi og nærgætni á frjálslegan og eðlilegan hátt. Er þetta í sjálfu sér þroskavænleg reynsla og lærdómur í mannlegum samskiptum fyrir þann hóp heilbrigðra barna sem hér á hlut að máli. Mér hefur heyrst á skólastjóra og kennurum Hlíðaskólans að þessi tilraun með kennslu fatlaðra barna í almennum skóla hafi gefist mjög vel, og ég er ekki í vafa um að þessi skipan sérkennslu er sú sem koma skal, fremur en að leita inn á sérstofnanir.

Í ýmsum skólahéruðum úti um sveitir landsins hafa verið reyndar nýjar leiðir í þessum málum með athyglisverðum árangri í formi farkennslu, skiptikennslu og námsskeiðahalds. Má þar til nefna skólahverfi í Húnavatnssýslu og Árnessýslu. En það er því miður fremur undantekning en regla og án þess að nokkrar samræmdar aðgerðir stjórnvalda hafi komið til.

Síðasta málsgr. till. beinist að menntun sérkennara víð Kennaraháskóla Íslands. Það mun almennt álit íslenskra skólamanna að kennaraskólinn hafi ekki — og þá sérstaklega á síðari árum — lagt nándar nærri nægilega rækt við að framleiða hæfa lestrarkennara og megi rekja ekki óverulegan þátt sérkennsluvandamálsins til ýmist ófullkominnar eða rangrar lestrarkennslu. Það er og brýn nauðsyn, að Kennaraháskólinn gefi vaxandi gaum að sérhæfingu og þjálfun í kennslu afbrigðilegra barna. Hingað til hefur þessum mikilvæga þætti kennaramenntunar — og það aðeins nú á síðustu árum — verið sinnt ýmist með sumarnámskeiðum eða eins vetrar almennu sérkennaranámi, sem reynst hefur í senn mjög gagnlegt til hinnar léttari hjálparkennslu og sérkennslu í almennum skólum og einnig sem grundvöllur undir framhaldsnám í hinum ýmsu greinum sérkennslu sem við höfum hingað til sótt til erlendra háskóla, aðallega á Norðurlöndum. Kennaraháskóli Íslands hefur því miklar skyldur að rækja í þessum efnum, og ber að vona að endurskoðun sú, sem nú stendur yfir á kennsluháttum hans og námsfyrirkomulagi, muni leiða til réttrar þróunar og úrbóta á því sviði kennslumála sem hér er til umr. Vil ég því enn leggja áherslu á að skortur á menntuðum sérkennurum er að mati þeirra, sem þekkja best til mála, hvað stærsti þröskuldurinn í vegi fyrir því að sérkennslumál okkar komist í viðunandi horf. Þá verður og að vinna gegn því í fjármálum skólanna að einstrengingslegar reglur um sérkennslukvóta svokallaða verði til þess að skólar úti á landsbyggðinni gjaldi fámennis síns, þannig að nemendur þeirra sem sérkennslu þurfa með, verði ekki afskiptir af þeim sökum.

Herra forseti. Ég vil að lokum árétta það sem kemur fram í niðurlagi grg. þessarar till., að við flm. hennar teljum að lagfæring á sérkennslumálum landsbyggðarinnar sé mikilvægur þáttur í aðgerðum sem miða að byggðajafnvægi í landinu og að það er fleira en uppbygging atvinnulífsins sem skiptir máli fyrir fólkið sem í dreifbýlinu býr. því er áríðandi að yfirstjórn menntamála geri hér skipulagt átak til úrbóta án tafar. Okkur greinir ekki á um að markmið skólans er að koma hverjum nemanda til manndóms og þroska, gera hann að sjálfbjarga einstaklingi í lífsbaráttunni, eftir því sem hæfileikar hans leyfa. Í ósk okkar og viðleitni til að ná því markmiði megum við síst gleyma þeim sem helst eru hjálparþurfi. Ég treysti því að hæstv, menntmrh., sem því miður er nú ekki staddur hér í dag, svo og aðrir hv. þm. sýni þessu máli þann áhuga og stuðning sem ég tel það verðskulda og leyfi mér því að vera bjartsýn um að það fái góðan byr hér á Alþ. og síðan greiða og rösklega framkvæmd. Vil ég að síðustu mælast til, að till. verði vísað til hv. menntmn.