30.01.1975
Efri deild: 39. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1423 í B-deild Alþingistíðinda. (1244)

126. mál, kvikmyndasjóður

Flm. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Á þskj. 187 flytjum við 4 þm. hv. d. frv. til l. um kvikmyndasjóð.

Oft hefur verið sagt og það ekki með litlum rökum að kvikmyndin sé listgrein 20. aldar. Og víst er um það að engin grein lista á 20. öld er útbreiddari, á sér jafnmarga aðdáendur og í engri annarri gerð listaverka sameinast svo margir þættir listrænnar tjáningar.

Kvikmyndalistin á sér ekki síður aðdáendur hér á landi en annars staðar. En hitt er sérkennandi fyrir land okkar í samanburði við nálæg lönd, að kvikmyndamenning er hér á heldur lágu stigi. Hér er engin löggjöf til um kvikmyndir og opinberan stuðning við íslenska kvikmyndagerð. Þess vegna hefur listsköpun á sviði kvikmyndagerðar raunverulega aldrei haft neina möguleika til að ná sér á strik. Jafnframt hafa aldrei verið settar hér lagareglur eins og í flestum nálægum löndum um réttindi og skyldur kvikmyndahúsa sem gætu veitt kvikmyndahúsunum nokkurt aðhald og stuðlað að því að þau væru ekki einungis rekin sem afþreyingarhús, heldur einnig sem menningarstofnanir. Í stuttu máli sagt er það augljóst að hér á landi er kvikmyndgerðarlistin vanræktari og á hér erfiðara uppdráttar en nokkur önnur listgrein.

Við erum vanastir því, íslendingar, þegar bent er á alvarlegar gloppur og göt í þjóðlífi okkar og menningu, að skírskota til fámennis þjóðarinnar, enda augljóst að við höfum ekki bolmagn til átaka sem fimmtíu sinnum fjölmennari þjóðum veitist létt. Um gerð kvikmynda er það hinn gífurlegi stofnkostnaður sem yfirleitt stendur í veginum. Stofnkostnaðurinn fæst að vísu endurgreiddur með aðgangseyri þúsunda áhorfenda á nokkrum tíma. En framleiðendur kvikmynda hér á landi hafa ekki í neinn sjóð að leita um lánsfé til að brúa tímaskeiðið milli útgjalda og innkominna tekna.

Kostnaður við gerð 20 mínútna heimildarkvikmyndar af einföldustu gerð er talinn nema yfir 2 millj. kr. og alger lágmarkskostnaður víð gerð 100 mínútna leikmyndar er talinn nema ekki minna en 10 millj. kr. Þetta eru háar fjárhæðir að útvega fyrir fjárvana einstaklinga, þótt ekki sé nema í skamman tíma þar til kvikmynd fer að skila tekjum. Flestir gefast því upp fyrir fram og hverfa til annarra starfa. Hins vegar er hér alls ekki um þvílíkar fjárhæðir að ræða þótt það sé ofviða einstaklingum, að þjóðarheildin geti afsakað sig með smæð sinni eða fjárskorti. Hér er um einfalt vandamál að ræða, ef við höfum einhvern vilja til að leysa það eða gefa okkur tíma til þess.

Árum saman hefur verið rætt um að sett yrði löggjöf til stuðnings íslenskri kvikmyndagerð, stofnaður sjóður sem yrði fær um að lána nokkurt fé til framleiðenda íslenskra kvikmynda. En þessi áform hafa aðeins verið í orði kveðnu og hafa ekki verið flutt í tillöguformi hér á Alþ. fyrr en með þessu frv.

Tilgangurinn með flutningi frv. er sem sagt að bæta nú loks úr brýnni þörf á sviði íslenskrar menningar með því að knýja á um setningu laga um sérstakan kvikmyndasjóð. Okkur flm. er fullljóst, að frv. er aðeins einn þátturinn af mörgum í hugsanlegri heildarlöggjöf sem þarf að setja um kvikmyndamálefni. En hér er vonandi verið að stiga fyrsta skrefið í þessa átt.

Áður en ég vík að efni frv. vil ég geta þess, að við undirbúning málsins fékk ég í hendur upplýsingar, sem menntmrn. hafði safnað með milligöngu sendiráða Íslands í Vestur-Evrópu um opinbera fyrirgreiðslu við innlenda kvikmyndagerð í öðrum Evrópulöndum. Menntmrn. hefur látið flm. frv. í té þessar upplýsingar og ber að þakka fyrir.

Samkv. þeim eru í Danmörku í gildi lög um kvikmyndir og kvikmyndahús og hafa lengi verið þar í gildi. Það eru lög um Dönsku kvikmyndastofnunina. Þessi stofnun rekur kvikmyndaskóla, leikmunasafn og lánar út kvikmyndir, en hefur jafnframt með höndum veitingu lána og ábyrgða til framleiðenda innlendra kvikmynda. Tekjur stofnunarinnar hafa verið 10% gjald sem innheimt hefur verið með aðgangseyri að kvikmyndahúsum. Gjaldið var á árinu 1974 7%, verður 4% á þessu ári og fellur síðan alveg niður.

Í Noregi hafa styrkir til kvikmyndagerðar verið greiddir úr ríkissjóði og numið 35% af brúttótekjum seldra aðgöngumiða að kvikmyndahúsum, og var fyrir þremur árum stofnaður sérstakur kvikmyndasjóður.

Eins er það í Svíþjóð, að kvikmyndagerð nýtur opinberrar fyrirgreiðslu, og það er Sænska kvikmyndastofnunin sem hefur þá starfsemi með höndum og fær til þess gjald af kvikmyndasýningum. Þessi stofnun velti 15 millj. sænskra kr. rekstrarárið 1969–1970.

Svo að enn eitt Norðurlandanna sé nefnt er það svo í Finnlandi að þar er innheimt 4% gjald við sölu aðgöngumiða að kvikmyndasýningum og er 80% af þessu gjaldi varið til styrktar innlendri kvikmyndagerð.

Ég læt þessi fjögur dæmi nægja frá öllum hinum Norðurlöndunum. En í flestum öðrum Evrópulöndum hafa einnig verið sett lög um opinberan stuðning við kvikmyndagerð og þá einmitt víðast með stofnun sérstaks sjóðs í þessu skyni.

Það er eins og fram kemur í frv. aðalefni þess, að með breytingum á tvennum lögum, l. um menningarsjóð og menntamálaráð og l. um skemmtanaskatt, verði stofnaður kvikmyndasjóður með stofnframlagi úr ríkissjóði, en að öðru leyti fái sjóðurinn tekjur með 10% gjaldi sem innheimt verði með aðgangseyri að kvikmyndahúsum. Frv. gerir ráð fyrir því að sjóðurinn verði undir yfirstjórn menntamálaráðs og í umsjón og vörslu skrifstofu menningarsjóðs. Samþykkt frv. felur því ekki í sér að verið sé að setja á stofn nýtt skriffinnskukerfi á vegum hins opinbera eða nýja stofnun, heldur væri þessi starfsemi sett inn á verkefnasvið stofnunar sem fyrir er.

Hlutverk kvikmyndasjóðs er samkv. 5. gr. frv.: 1) Að styrkja og efla íslenska kvikmyndagerð, bæði með beinum fjárstyrkjum, með lánum, með ábyrgðum á lánum, sem tekin væru hjá öðrum lánastofnunum, og með verðlaunaveitingum. 2) Að koma á fót kvikmyndasögusafni. (3) Að stuðla á annan hátt að bættri kvikmyndamenningu, m.a. með því að verðlauna þau kvikmyndahús sem skara fram úr við val á góðum kvikmyndum og barnamyndum til sýninga.

Tekjur kvikmyndasjóðs eru: 1) Stofnframlag úr ríkissjóði samkv. nánari ákvörðun Alþingis með fjárl. og síðan árlegt framlag úr ríkissjóði samkv. ákvæðum fjárl. hverju sinni. 2) Gjald af aðgöngumiðum af kvikmyndasýningum samkv. l. um skemmtanaskatt. 3) Vextir af innstæðufé sjóðsins.

Með þeirri breytingu, sem felst í frv., yrðu kvikmyndahúsagestir að greiða 3.5% hærra gjald en áður var. Skemmtanaskattur af kvikmyndahússýningum er nú 15% og nemur ca. 20 millj. kr., en af þeirri upphæð renna 10% til Sinfóníuhljómsveitar og 90% í félagsheimilasjóð. Við þetta bætist svo 1.5% miðagjald, sem hefur runnið í menningarsjóð og er því skemmtanaskatturinn í dag í heild 16.5%, en mundi hækka í 20% við samþykkt frv. Með samþykkt frv. væri ráð fyrir því gert að Sinfóníuhljómsveitin og félagsheimilasjóður misstu 5% skemmtanaskatt, menningarsjóður missti 1.5% skemmtanaskatt, en til þess að bæta þessum aðilum upp þann missi, sem samþykkt frv. hefði í för með sér, er gert ráð fyrir í frv. að svonefnt rúllugjald, sem greitt hefur verið fyrir aðgang að vínveitingahúsum, verði hækkað nokkuð eða úr 10 kr. í 30 kr. Er þá gert ráð fyrir því að Sinfóníuhljómsveitinni, félagsheimilmsjóði og menningarsjóði væri bættur tekjumissirinn nokkurn veginn.

Ýmsir eru vafalaust andvígir því að farið verði að hækka verð aðgöngumiða að kvikmyndahúsum vegna tilkomu þessa sjóðs og halda því sjálfsagt fram að skattlagning aðgöngumiða sé þegar orðin í mesta lagi, þ.e.a.s. 16.5%, því að skattlagningin er nú ekki aðeins 16.5%, heldur er búið að leggja 17% söluskatt á aðgangseyri. Þar að auki er í Reykjavík lagður 5% skattur á verð aðgöngumiða samkv. sérstökum lögum frá 1952 og sá skattur rennur beint í borgarsjóð. Ef mönnum þykir óaðgengilegt að skattlagning aðgöngumiða verði nú aukin um 3.5%, þá hefði ég talið að sú leið kæmi til greina að lækka eða afnema með öllu þann skatt sem ég nefndi seinast, þ.e.a.s. skattinn samkv. l. frá 1952, en þessi skattur var upphaflega ætlaður sveitarstjórnum og virðist harla lítinn rétt eiga á sér, enda mun hann nú ekki víða vera innheimtur utan Reykjavíkur. En þetta atriði má að sjálfsögðu skoða nánar í nefnd.

Þegar virt er hvort rétt sé að veita kvikmyndasjóði þær tekjur sem hér er gert ráð fyrir, þá er kannske eðlilegt að átta sig á því hvernig háttað er fjárveitingum til lista og menningar hér á landi og hvort ekki sé nokkuð ljóst að kvikmyndagerðin verður þar heldur en ekki út undan. Samkv. fjárl. fyrir 1975 fær Þjóðleikhúsið sem beint framlag á fjárl. 128 millj. kr., en gestir Þjóðleikhússins greiða 58 millj. Ef litið er á Sinfóníuhljómsveitina, þá greiða gestir hennar 5.5 millj., en ríkissjóður, borgarsjóður og útvarpið, sem er nánast bara þáttur af ríkissjóði, samtals 51 millj. kr. Ef lítið er á aðrar listir, þá hljóta þær samanlagt 115 millj. kr. á fjárl. 1975. Hér er um að ræða samtals fjárveitingar sem nema tæpum 300 millj. kr., en af þeim fer ekki til kvikmyndagerðar á hverju ári nema í mesta lagi 1 millj. kr. sem veitt hefur verið nú undanfarin ár í gegnum menningarsjóð. Ég ætla ekki að fara að halda því fram hér að stuðningur við þessar ágætu stofnanir, Sinfóníuhljómsveitina og Þjóðleikhúsið, eða aðrar listastofnanir sé óeðlilega mikill, en mér virðist nokkuð ljóst að ein listgreinin hefur algerlega gleymst eða svo til algerlega og það er kvikmyndagerðarlistin.

Í 7. gr. frv. eru ákvæði um það hvernig háttað skuli úthlutun lána og styrkja úr kvikmyndasjóði, og segir þar að hún fari fram á sérstökum fundum menntamálaráðs, en þá fjalla ekki eingöngu kjörnir fulltrúar ráðsins um lánveitingar úr sjóðnum eða styrkveitingar, heldur skuli til kvaddir fulltrúar frá samtökum kvikmyndahúseigenda, samtökum kvikmyndagerðarmanna, Bandalags ísl. listamanna og samtökum kvikmyndaklúbba með fullum atkvæðis- og tillögurétti.

Í frv. er ákvæði um stofnun sérstaks kvikmyndasögusafns. Mikil nauðsyn er á því að þess háttar stofnun sé komið upp sem safni eintökum kvikmynda er hafa kvikmyndasögulegt gildi eða sérstakt gildi fyrir sögu Íslands. Starfsemi þessa safns verður að sjálfsögðu allt annars eðlis en starf fræðslumyndasafnsins sem hefur svipað verksvið og skólabókasöfn, en kvikmyndasögusafn hefur aftur á móti hliðstæðu hlutverki að gegna og þjóðskjalasafn og bókmenntadeild Landsbókasafns. Stjórn þessa safns þarf því að vera skipuð sérmenntuðum mönnum um kvikmyndalist og er því samkv. 7. gr. gert ráð fyrir að nánari ákvæði um starfsemi og aðsetur safnsins verði sett með reglugerð. Ég þarf ekki að orðlengja hér um margvísleg viðfangsefni sem fallið gætu í hlut kvikmyndasjóðs að veita styrki og lán til. Ljóst er að þau geta verið mörg og margvísleg. Ég tel að stuðningur við gerð heimildarkvikmynda um íslenskt þjóðlíf sé nauðsynlegur og sjálfsagður. Margt er það í okkar þjóðlífi, sem nú er á förum eða er að hverfa og þarf nauðsynlega að festa á filmu áður en það er horfið á braut.

Ég veit að vísu að sjónvarpið hefur unnið ágætt starf á þessu sviði, en ég þarf ekki að benda mönnum á það að vegna margvíslegra viðfangsefna sinna hefur sjónvarpið ekki þá aðstöðu núna eða fjárhagslegt bolmagn til að þessi vinna sé verulega vönduð. Ég tel að með stofnun kvikmyndasjóðs gæti einnig skapast grundvöllur að framleiðslu leikinna kvikmynda Menn geta einnig haldið því fram varðandi kvikmyndir að sjónvarpið fáist nú eitthvað við þann þáttinn, en eins er um það og með heimildarkvikmyndirnar. Það vita allir sem til þekkja að vegna þess mikla hraða, sem verður að vera í öllum störfum sjónvarpsins, og þeirrar fráleitu starfsaðstöðu sem það býr við, ef það ætti að gegna þessu hlutverki með viðunandi hætti, þá getur það aldrei dugað. Það segir sig einnig sjálft að á sjónvarpsþáttum annars vegar og vönduðum kvikmyndum hlýtur að sjálfsögðu að vera meginmunur bara frá tæknilegu sjónarmiði.

Ég sé ekki, herra forseti, ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta mál. Ég minni enn á það, sem ég sagði hér í upphafi, að málefni íslenskrar kvikmyndagerðar hafa oft verið til umr. hér á Alþ. og oft hefur því verið lýst yfir að gera þyrfti átak til að efla opinberan stuðning við kvikmyndagerð. Því var meira að segja sérstaklega lýst yfir í nál. menntmn. Nd. þegar afgreidd voru hér lög um skemmtanaskatt á þinginu 1959–1970, að lög yrðu sett til stuðnings íslenskrar kvikmyndagerðar á næstunni, en að því hefur ekki orðið enn. Ég tel að það væri ekki seinna vænna að Alþ. taki nú loks af skarið um stuðning við þessa vanræktu listgrein.

Ég vil, herra forseti, leggja til að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til hv. menntmn.