30.01.1975
Efri deild: 39. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1428 í B-deild Alþingistíðinda. (1247)

129. mál, fisksölusamstarf við Belgíumenn

Flm. (Oddur Ólafsson):

Herra forseti. Á þskj. 210 flyt ég tillögu til þingsályktunar um fisksölusamstarf við belgíumenn. Tillagan hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. eða þeim aðilum, er hún til þess kveður, að leita eftir samstarfi við belgíumenn um neðangreind atriði:

1) um bætta löndunar- og geymsluaðstöðu á íslenskum fiski í Ostende,

2) um myndun fyrirtækis er hafi það verkefni að dreifa og selja ferskan og frystan íslenskan fisk í hinum ýmsu Mið-Evrópulöndum,

3) um möguleika á flugflutningi á fiski milli Keflavíkur og Ostende með dreifingu þaðan um Mið-Evrópu í huga,

4) um hugsanlega hækkun sölu- og löndunarkostnaðar vegna aukinna umsvifa. Útflutningur sjávarafurða er hornsteinn gjaldeyrisöflunar okkar og reyndar þróunar þess þjóðfélags er við búum við í dag og svo hefur verið um langa hríð. Án hæfilegrar velgengni sjávarútvegsins, bæði hvað snertir afla og sölu afurða er varla hægt að hugsa sér að við getum notið þeirrar heilbrigðisþjónustu, er við teljum okkur nauðsynlega, eða skapað ungu kynslóðinni okkar þá menntunarmöguleika, er við óskum eftir, og yfirleitt ekki notið þeirra lífsgæða og þess öryggis er við nú búum víð. Jafnan hafa orðið sveiflur í afkomu sjávarútvegs, ýmist vegna aflabrests eða söluerfiðleika. Með stækkun landhelginnar og endurnýjun skipaflotans höfum víð gert stórt átak í því efni að reyna að tryggja hæfilegt aflamagn, en því aðeins nýtast þær umbætur að sölukerfi sé traust og fjölbreytilegt, þannig að sölutregða og verðlækkanir á einstökum mörkuðum setji ekki allt okkar efnahagskerfi úr skorðum.

Verkun fisks hefur verið með ýmsum hætti hjá okkur. Lengi framan af var aðallega skreið og saltfiskur. Á þessari öld bættist ísfiskurinn við. Hann hefur lengst af þessari öld verið nokkur liður í útflutningi okkar, misjafnlega veigamikill þó. Stærsta breyting í fiskverkun okkar varð þó er frystingin kom til sögunnar, ekki aðeins vegna aukinnar fjölbreytni, heldur fyrst og fremst vegna stóraukinnar vinnu við verkunina og þar af leiðandi verðmætaaukningar.

Árið 1970, þ.e. árið áður en við færðum út landhelgina í 50 mílur, nam þorskafli okkar 469.2. þúsundum tonna. Þennan afla hagnýttum við þannig að í frystingu fóru 283.7 þús. tonn, 96 þús. tonn í söltun, 31.2 þús. tonn í herslu, 47.6 þús. í ísun og 10.5 þús. í annað. Árið 1973 aftur á móti nam þorskafli okkar aðeins 390 þús. tonnum. Þá fóru 192.8 þús. tonn i frystingu, 100 þús. tonn í söltun, 11.9 þús. tonn í herslu, 19.6 þús. tonn í ísun og 12.5 þús. tonn í annað.

Árið 1974 nam þorskafli okkar 370 þús. tonnum. Þá fóru 14.824 tonn í ísingu, 1973 var þessi tala 19.6 þús. tonn af 390 þús. tonna heildarbolfiskafla. Hlutur ísaðs fisk fer því minnkandi síðustu árin, þannig að 1970 er hann rúmlega 10%, 1973 er hann 5% og 1974 rúml. 4%.

Árið 1974 seldum við ísfisk í þessum höfnum: Í Bremerhaven í Þýskalandi 4617 tonn, í Cuxhafen 3643 tonn, þ. e. samanlagt í Vestur-Þýskalandi 8360 tonn fyrir 491 millj. 860 þús. kr. Í Bretlandi seldum við í Grímsby, Hull og Shields 4967 tonn fyrir 292 millj. 40 þús. kr. Og í Ostende í Belgíu seldum við 846 tonn fyrir 52 millj. 673 þús. kr. Samtals seldum við í þessum löndum ísfisk fyrir 838 millj. 439 þús. kr.

Erfiðleikar útgerðar og fiskvinnslu okkar á árinu 1974 svo og dökkt útlit þessa árs byggjast að sjálfsögðu fyrst og fremst á hinni gífurlegu kostnaðaraukningu vegna innlendrar verðbólgu, vegna olíuhækkunar og vegna mikillar hækkunar á veiðarfærakostnaði, en einnig veldur þar um sölutregða og verðlækkun á vissum afurðum sjávarútvegsins. Það má segja að saltfiskur, skreið, ísfiskur og þorskflök búi við þolanlegt verðlag og sölumöguleika, en fiskblokkin er orðin svo snar þáttur í útflutningi okkar að það verðfall, sem á henni hefur orðið, og sú sölutregða, sem hún á nú við að stríða, veldur okkur þungum búsifjum. Frekast á þetta við um þá frystu fiskblokk sem búin er til úr öðrum fiski en þorski, svo sem ufsa, karfa og ýsu. Þessar fisktegundir eru hins vegar sæmilega vel seljanlegar á Evrópumörkuðum, og það er m.a. í þeim tilgangi að reyna að hvetja til hagnýtingar þessara markaða, hvetja til meiri dreifingar og meiri fjölbreytni í sölu að ég flyt þessa tillögu.

Ég hef valið Belgíu sem fyrsta athugunarsvæði fyrir höfuðstöðvar Mið-Evrópufiskdreifingar af neðangreindum ástæðum:

Í fyrsta lagi: Ostende með Zeebrügge sem hafnarborg er fornfræg viðskiptastöð og var einu sinni nefnd hliðið að Evrópu. Þaðan liggja vegir til allra átta, suður og austur um Evrópu. Það gefur nokkra hugmynd um heppilega legu Belgíu að verulegum hluta innflutnings okkar frá Vestur-Þýskalandi og öðrum Mið-Evrópuríkjum er skipað um borð í höfnum Niðurlanda. Í Ostende er gamall og þekktur fiskmarkaður, sem var endurbyggður eftir stríð eins og annað í þeirri borg sem var gersamlega lögð í rústir í stríðinu. Vafalaust þyrfti þó umbætur og aukningu þar ef skip okkar færu að venja þangað komur sínar.

Í öðru lagi eru belgar allmikil fiskneysluþjóð, og ekki hefur heyrst að þeir hefðu í huga að stórauka og umbæta fiskiflota sinn, svo sem sumar aðrar viðskiptaþjóðir okkar hafa verið að gera undanfarið.

Í þriðja lagi urðu belgar fyrstir til þess að semja við okkur eftir útfærslu landhelginnar í 50 mílur og þar með að viðurkenna í verki aðgerðir okkar.

Nú, þegar fyrir dyrum stendur útfærsla í 200 mílur, er erfitt að gera sér grein fyrir fisksölumöguleikum okkar í Bretlandi og Þýskalandi, en líklegt, ef dæma má af reynslunni, að um erfiðleika verði að ræða á næstu árum. Um Belgíu gegnir öðru máli og miklu líklegra að þar verði áframhaldandi góð samskipti.

Ég tel mjög æskilegt að okkar stærri fiskiskip eigi þess kost að sigla með afla öðru hvoru. Bæði er það, að erfitt getur verið að vinna allan þann afla hér heima sem okkar vaxandi nýtískulegi floti kemur með af miðunum, einkum mun þetta verða svo eftir að útlendingar eru horfnir af þeim. Svo getur það einnig verið hagstætt í þeim tilgangi að létta af yfirfullum mörkuðum erlendis. Má geta nærri hver áhrif það hefur á afkomu vinnslustöðva að þurfa að liggja með birgðir mánuðum saman, jafnvel á annað ár, og greiða háa vexti af rekstrarfé á meðan. Í augnablikinu er ekki hægt að sjá að aukin sigling mundi hafa skaðleg áhrif á vinnumöguleika fólks. Á flestum útgerðarstöðum er nú kvartað um of mikla vinnu.

Með þetta í huga verður að líta á fyrsta hluta tillögunnar. Eigi að tryggja aukna sölumöguleika á ísfiski í Mið-Evrópu, þá þarf án efa að kanna löndunar- og geymslumöguleika og bæta um sé þess þörf.

Um 2. lið tillögunnar, þ.e. um myndun fyrirtækis, er hafi það verkefni að dreifa og selja ferskan og frystan íslenskan fisk í Mið-Evrópu, þá á ég við það fyrirkomulag er reynst hefur okkur vel bæði í USA og Bretlandi. Hvort íslendingar ættu það fyrirtæki einir eða það yrði sameign belga og íslendinga, er máske ekki aðalatriðið. Vafalítið væri æskilegt að um sameign væri að ræða. Þarna þarf að mörgu að hyggja. En þá ber einnig á það að líta að íslendingar hafa orðið langa og góða reynslu í rekstri slíkra fyrirtækja. Frekari vinnsla til neyslu, svo sem á sér stað í USA, væri vafalaust möguleg þarna með alla Mið-Evrópu að bakhjarli.

Þriðja atriði tillögu minnar fjallar um möguleika á flutningum á f3ski milli Keflavíkur og Ostende og að sjálfsögðu einnig frá þeim öðrum flugvöllum er geta tekið millilandaflugvélar frá þessu landi. Aðilar í Ostende hafa hug á að kaupa flugfluttan fisk allt árið og telja sig hafa verulega sölumöguleika. Einn slíkur farmur var fluttur þangað nýlega. Til fróðleiks hef ég fengið heimild til þess að segja nokkur orð um þann farm.

Kaupendur keyptu fiskinn á flugvelli á Ostende cif. Hann var 1400 kg af karfaflökum, 120 kg af lönguflökum, 2480 kg af slægðum og hausuðum steinbít, 7860 kg af hausuðum þorski og 780 kg af skötusel, samtals 12640 kg, er seldust á 1 297 836 kr. Kostnaður var þessi: Hráefni 387 000 kr. flugfrakt 520 000 kr., útflutningsgjald 89 297 kr., vinnulaun 130 000 kr., umbúðir 30 000 kr. trygging 5 217 kr. Hagnaður var 136 322 kr.

Þeir, er að þessari ferð stóðu, telja að með skipulögðum rekstri megi fá kostnað nokkuð niður og að afkoma eigi að geta verið góð miðað við hráefnisverð í dag. Einnig má vænta hærra verðs. Þótt hér geti varla orðið um heildarmagn að ræða sem umtalsvert sé á okkar mælikvarða, þá er líklegt að á þennan hátt megi selja vöru á fullu verði sem nú er erfitt að losna við og ætti að geta orðið bæði útgerð og fiskverkun til nokkurra hagsbóta.

4. liður tillögu minnar um hugsanlega lækkun sölu- og löndunarkostnaðar vegna aukinna umsvifa er byggður á því að sölu- og löndunarkostnaður íslenskra fiskiskipa í erlendum höfnum er mjög hár. Ástæða er til að ætla að ef við einbeitum okkur á einn stað þarna suður frá, þá muni heimamenn nokkuð vilja til vinna að fá þessi auknu viðskipti. Án efa er hentugur tími til þess að semja nú. Belgar óttast samdrátt og þar er nokkurt atvinnuleysi. Hver sú aðgerð sem unnið gæti gegn samdrætti væri vel þegin.

Herra forseti. Ég vona að þessi tillaga mín verði til þess að flýta athugunum á gildi Evrópufiskmarkaðsins fyrir okkur, þannig að við verðum komnir í gang með hagnýtingu þess markaðar þegar tollar lækka og storma landhelgisdeilna lægir.

Ég legg svo til, að að umr. lokinni verði till. vísað til sjútvn.