30.01.1975
Neðri deild: 37. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1433 í B-deild Alþingistíðinda. (1254)

132. mál, dýralæknar

Flm. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Frv. á þskj. 248 til l. um breyt. á l. nr. 31/1970, um dýralækna, er flutt af mér og hv. þm. Sverri Hermannssyni og Lúðvík Jósepssyni.

Í löggjöfinni um dýralækna er m.a. kveðið á um dýralæknisumdæmi í landinu. 2. gr. þessara laga kveður á um það að landinu skuli skipt niður í 22 umdæmi. 16. og 17. tölul. þessarar gr. fjalla um umdæmin á Austurlandi sem skv. lögunum eru tvö: Í fyrsta lagi Austurlandsumdæmi, sem tekur yfir N.-Múlasýslu að undanteknum Skeggjastaðahreppi og Vopnafjarðarhreppi, Seyðisfjörð, Neskaupstað og S-Múlasýslu að mörkum milli Breiðdalshrepps og Beruneshrepps, og 17. liður Austur-Skaftafellssýsluumdæmi, sem tekur yfir A: Skaftafellssýslu, Geithellnahrepp, Búlandshrepp og Beruneshrepp í S: Múlasýslu.

Þetta frv. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Í stað 16. og 17. tölul. 2. gr. l. nr. 31/1970 (sbr. 1. gr. 1. nr. 38/1972) komi 3 tl., er hljóði svo, og breytast tölul. gr. skv. því.:

„16. Austurlandsumdæmi nyrðra: Norður-Múlasýsla að undanteknum Skeggjastaðahreppi og Vopnafjarðarhreppi, Seyðisfjörður, Neskaupstaður, Eskifjarðarkaupstaður og Suður-Múlasýsla að mörkum milli Skriðdalshrepps og Breiðdalshrepps og mörkum milli Reyðarfjarðarhrepps og Fáskrúðsfjarðarhrepps.

17. Austurlandsumdæmi syðra: Suður-Múlasýsla frá mörkum Reyðarfjarðarhrepps og Fáskrúðsfjarðarhrepps við ströndina og Skriðdalshrepps og Breiðdalshrepps inn á landinu annars vegar að mörkum milli Suður-Múlasýslu og Austur-Skaftafellssýslu hins vegar.

18. Austur-Skaftafellssýsluumdæmi: Austur-Skaftafellssýsla.“

Í grg. segir að Austurlandsumdæmi sé „mjög viðáttumikið dýralæknisumdæmi. Það tekur yfir Fljótsdalshérað, Borgarfjörð, Víkur og Loðmundarfjörð, sem nú er að vísu í eyði, Seyðisfjarðarhrepp, Seyðisfjarðarkaupstað, Neskaupstað, Eskifjarðarkaupstað og alla hreppa Suður-Múlasýslu suður að Beruneshreppi. Eins og kunnugt er eru samgöngur, sérstaklega að vetrarlagi, erfiðar milli margra byggðarlaga á þessu svæði, enda er það viðáttumikið. Það er því mjög miklum vandkvæðum bundið fyrir einn dýralækni að þjóna öllu þessu svæði.

Svipað má segja um Austur-Skaftafellssýsluumdæmi. Vegalengdin frá Skaftafelli austur á Berufjarðarströnd að Streitishorni er samtals um 300 km, nánar tiltekið 294 km. Lónsheiði er mikill farartálmi á vetrum og samgöngur að öðru leyti um svæðið oft á tíðum erfiðar.

Ástæða er til að ætla að meiri möguleikar verði á að fá dýralækna til starfa en verið hefur hingað til,“ en á því hefur verið hörgull oft á tíðum, eins og kunnugt er.

Okkur þykir því rétt að lögfesta nýja umdæmaskipun dýralækna f Austurlandskjördæmi og er frv. þetta flutt að ósk heimamanna og að höfðu samráði við dýralækna í Austurlandskjördæmi.

Okkur þm. Austurl. hafa verið sendar sérstakar áskoranir og erindi út af þessu máli. Búnaðarfélag breiðdæla hefur t.d. sent til okkar svo hljóðandi áskorun:

„Fundur í stjórn Búnaðarfélags breiðdæla, haldinn að Gilsá 31.10. 1974, skorar eindregið á þm. Austurl. að þeir hlutist til um að l. verði breytt á þann veg á yfirstandandi Alþ. að lögfest verði sérstakt dýralæknishérað á sunnanverðum Austfjörðum og hafi hinn nýi dýralæknir búsetu á Breiðdalsvík.“ Héraðið nái yfir þá hreppa sem til er tekið í frv.

Síðan segir áfram í þessari áskorun: „Í símtali, sem form. Búnaðarfélags breiðdæla átti við yfirdýralækni í byrjun sept., lét hann í ljós samþykki sitt við skipan þessara mála eins og rakið er hér að framan.“

Þá má geta þess að Jón Pétursson dýralæknir átti hugmyndina að nýju dýralæknissetri á Breiðdalsvík.

Síðan hefur borist erindi frá hreppsnefnd Breiðdalshrepps til þm. Austurl. sem er að efni til shlj. því erindi sem ég var að lesa frá Búnaðarfélagi breiðdæla.

Ég sé ekki ástæðu til að flytja langt mál til viðbótar um þetta frv., það skýrir sig í raun og veru sjálft, en vil aðeins undirstrika það sem kemur fram í grg., að hér er um gífurlega miklar víðáttur að tefla. T.d. nær nyrðra umdæmið, eins og það er í dag, allar götur frá Gunnólfsvík á Langanesi og suður á Streitishorn norðan við Berufjörð. Það tekur yfir allt Fljótsdalshérað, sem er í sjálfu sér ærið nóg fyrir einn dýralækni að þjóna, þar sem eru 12 sveitarfélög. Á þessu svæði ern mjög margir fjallvegir sem eru ákaflega erfiðir yfirferðar langtímum saman, þannig að það er í raun og veru algerlega útilokað fyrir einn einasta dýralækni að þjóna þessu viðáttumikla umdæmi öllu saman.

Við vonumst til þess að málið þyki sanngjarnt og tímabært og það fái góðar undirtektir hv. þm. og ég legg til að málinu verði vísað til hv. landbn.