03.02.1975
Efri deild: 40. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1437 í B-deild Alþingistíðinda. (1257)

134. mál, launasjóður rithöfunda

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Frv. samhljóða þessu var lagt fyrir 94. löggjafarþing, að öðru leyti en því að ártalið 1975 í 2. gr. frv. er nú breytt í 1976.

Undanfari þessa frv. er annars umr. á Alþ. og síðan þáltill., sem var samþ. 18. maí 1972, á þessa leið:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að leggja fyrir næsta þing till. um að fjárhæð, er nemi sem næst andvirði söluskatts á bókum, renni til rithöfunda og höfunda fræðirita sem viðbótarritlaun eftir reglum er samdar verði í samráði við Rithöfundasamband Íslands og félag rithöfunda.“

Þetta frv. var svo samið af n. sem þáv. menntmrh. skipaði 16. jan. 1973. Var n. fyrst skipuð til þess að semja reglur samkv. þáltill., sem ég áðan greindi, og í þá n. voru þau skipuð: Svava Jakobsdóttir samkv. tilnefningu Rithöfundasambands Íslands, Einar Bragi samkv. tilnefningu Rithöfundafélags Íslands, dr. Gunnar Thoroddsen samkv. tilnefningu Félags ísl. rithöfunda, Bergur Guðnason samkv. tilnefningu fjmrn. og Knútur Hallsson án tilnefningar, og var hann jafnframt formaður n. Þessi n. var í fyrstunni skipuð til að semja reglur um úthlutun fjár samkv. þáltill. og samkv. fjárveitingu í fjárlögum, en seinna þennan sama vetur, 23. mars 1973, er þessari sömu n. falið að semja frv. til l. um efni þál. frá 18. maí 1972. Í samræmi við það hefur n. á sínum tíma gengið frá þessu frv. eins og það nú liggur hér fyrir með þeirri einu breytingu sem ég áðan greindi.

Í 1. gr. þessa frv. er lagt til. að stofna sérstakan launasjóð íslenskra rithöfunda með ákveðnu fjárframlagi, sem hér er lagt til að verði 21.7 millj. kr. og greiðist úr ríkissjóði.

Í 2. gr. eru ákvæði um það, að árlega skuli veita fé til sjóðsins í samræmi við þetta stofnframlag og skuli endurskoða fjárhæðina hverju sinni við undirbúning fjárlaga með sérstöku tilliti til breytinga á byrjunarlaunum menntaskólakennara, en þau eru tekin til viðmiðunar.

Í 3. gr. er fjallað um það, hverjir hafi rétt til greiðslu úr sjóðnum, og eru það, eins og kom fram í þáltill., íslenskir rithöfundar og höfundar fræðirita. Heimilt er og að greiða úr sjóðnum fyrir þýðingar á íslensku.

Í 4. gr. frv. er mælt fyrir um það, að menntmrn. skuli setja reglur um framkvæmd þessara laga að höfðu samráði við félagssamtök rithöfunda, þar sem m.a. skal kveðið á um stjórn sjóðsins, vörslu hans og greiðslur úr honum. Slíkar reglur hafa verið samdar og er í gangi skoðun á þessu. En svo mundi vitanlega verða formlega gengið að því að setja reglugerð ef þetta frv. yrði að lögum.

Ég vil leyfa mér að vona að hv. alþm., þeir er nú sitja á Alþ., verði í megindráttum sama sinnis og þeir hv. alþm. sem samþ. þáltill. á sínum tíma, 1972, og afgr. þetta frv. á jákvæðan hátt.

Ég vil geta þess hér, að ég tel nauðsyn til bera að gera nokkra úttekt á stuðningi ríkisvaldsins og hins opinbera yfirleitt við hvers konar starfsemi listafólks í landinu. Ég held að það sé nauðsynlegt að þessi mál verði skoðuð í heild og menn reyni að gera sér grein fyrir því, hversu til hefur tekist um þann stuðning sem veittur hefur verið á undanförnum árum til þessara merku þátta í okkar þjóðlífi, hversu skipt hefur verið fjárveitingum til listgreina og jafnvel einstaklinga, reyna að meta hvort þessi starfsemi hafi fengið eðlilega hlutdeild í fjármunum ríkis og þjóðar með ýmsu móti og hvort ekki sé hægt að nýta betur en e.t.v. hefur verið gert, það fjármagn sem af opinberri hálfu er varið til að styðja þessa starfsemi. Þá hef ég hvort tveggja í huga, að reyna að gera sér grein fyrir því hvort réttlátlega hefur verið skipt á milli hinna ýmsu listgreina og jafnvel einstaklinga, og svo einnig hitt og ekki síður, hvort ekki er unnt að nýta enn betur fyrir málefnið sjálft, fyrir listastarfsemi og listasköpun í landinu það fé, sem á hverjum tíma er látið af hendi rakna af opinberri hálfu til þessara þátta. Ég vildi láta koma fram, að ég tel æskilegt að slík athugun fari fram, ekki í neinu flaustri, heldur að menn gefi sér til þess eðlilegan tíma.

Ég vil svo leyfa mér, herra forseti, að leggja til að þessu frv. verði að lokinni umr. vísað til hv. menntmn.