03.02.1975
Efri deild: 40. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1438 í B-deild Alþingistíðinda. (1258)

134. mál, launasjóður rithöfunda

Jón G. Sólnes:

Herra forseti. Þetta litla, sakleysislega frv., sem hér liggur fyrir til umr., er dæmigert sýnishorn af því hver þróunin er um meðferð opinbers fjár í okkar þjóðfélagi. Ég skal engan dóm leggja á það, að það hafi verið að einhverju leyti sanngirniskrafa á sínum tíma að endurgreiða rithöfundum álagðan söluskatt, sem greiddur er hinu opinbera af bókum og ritum íslenskra rithöfunda. En upphafið að þessu frv. var sú ráðstöfun, að einhverjum fannst sanngjarnt að endurgreiða þessar upphæðir. Upp úr þessari endurgreiðslu er svo komið að mönnum finnst ekki nægilegt að binda þessar greiðslur til rithöfundanna við það sem var upphaflega tilætlunin, sem sagt að ekki skyldi innheimtur söluskattur af ritum íslenskra höfunda, heldur þarf að ganga miklu lengra. Nú þarf að stofna sjóð — og hvernig er sjóður stofnaður? Það er eins og var í gömlu ævintýrunum: Einu sinni var kóngur og drottning …. Í öllum frv. og till. um slíka sjóði stendur: Greiða skal úr ríkissjóði svo og svo mikla upphæð. Það er ekki hægt að gera það á annan veg. Það er alltaf þessi sama leið. Þetta er lítið, þetta er frækorn, þetta er byrjunin og verður síðan stærra og stærra, þangað til komin er stofnun, sem þarf starfslið, og þetta verður til þess að efla kerfið og auka álagninguna á hinn almenna skattborgara.

Ég hef orðið var við að í fleiri þskj., sem liggja fyrir hinu háa Alþ. núna, eru till. um nýja sjóðstofnun. Ég hélt satt að segja, að það áraði ekki þannig hjá íslensku þjóðinni í dag, að það væri ástæða til að vera að flagga mikið með stofnun nýrra sjóða og leggja aukin útgjöld á ríkissjóð til slíkra hluta. Mér finnst a.m.k. í þeim viðræðum sem eiga sér stað meðal almennings, að hljóðið sé það alvarlegt í mönnum og líka hjá ráðamönnum þjóðarinnar að frekar sé ástæða til að reyna að lækka útgjöld fjárlaga og annað, en ekki beinlínis aðstæður til að stofna til nýrra sjóða. Ég vil láta fara hér með gát og taldi rétt við 1. umr. að lýsa afstöðu minni, að ég er ekki reiðubúinn til að samþ. að þessi sjóður verði stofnaður að svo komnu. Ég tel ástæðu til þess að athuga það mál betur.