03.02.1975
Neðri deild: 38. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1440 í B-deild Alþingistíðinda. (1262)

128. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Flm. (Kjartan Ólafsson):

Hv. forseti. Ég hef leyft mér að flytja ásamt 2, þm. Austf. frv. til l. um breyt. á l. nr. 30 frá 12. maí 1970, um Húsnæðismálastofnun ríkisins, og er frv. á þskj. 206. Þetta frv. miðar að því að auðvelda framgang ákvæða laganna um byggingu leiguíbúða á vegum sveitarfélaga sem sett voru hér á Alþ. 17. apríl 1973. Frv. miðar að því að auðvelda sveitarfélögunum úti um land að hefja og hrinda í framkvæmd íbúðabyggingum skv. þessum lögum.

Ég vil rifja hér upp lítillega hvað í l. fólst um byggingu leiguíbúða á vegum sveitarfélaga. Þar var fyrst og fremst um það að ræða, að húsnæðismálastjórn var heimilað að lána á 4 árum 80% byggingarkostnaðar til allt að 1000 leiguíbúða sem byggðar væru á vegum sveitarfélaganna í landinu. Voru mjög miklar vonir bundnar við framkvæmd þessara laga og hefur komið í ljós að mjög mörg sveitarfélög viðast hvar á landinu hafa haft fullan hug á að færa sér þau í nyt og þau réttindi sem þeim fylgja, en framkvæmdir eru því miður heldur skammt á veg komnar yfirleitt enn sem komið er.

Ég vil rekja í fáum dráttum meginatriði þau, sem felast í því frv. sem ég mæli hér fyrir og flest stuðla að því að auðvelda byggingu umræddra leiguíbúða, en einnig er komið inn á viss önnur atriði í sambandi við húsnæðismál okkar.

Meginatriði frv. má segja að sé að gera lánakjörin í sambandi við byggingu leiguíbúðanna hagstæðari en nú er, og ég mun koma nánar að því síðar í hverju þær breytingar felast.

Í öðru lagi felst í frv. að lagt er til að húsnæðismálastjórn sé ekki aðeins heimilt, eins og segir í núgildandi l., heldur skylt að veita lán til þeirra leiguíbúða á vegum sveitarfélaga, sem hér um ræðir. Þetta er ákaflega mikilvægt atriði og er ætlað til þess að tryggja að þessar íbúðir hafi í raun og veru ákveðinn forgang.

Þá er atriði í þessu frv. þar sem kveðið er á um að húsnæðismálastjórn verði heimilað að veita allt að 10% af því fjármagni, sem hún hefur til ráðstöfunar á hverjum tíma, til kaupa eða meiri háttar endurhóta á eldra húsnæði.

Fjórða atriðið er það, að í frv. er gert ráð fyrir að almenn húsnæðismálalán hækki til samræmis við hækkun byggingarvísitölu.

Það eru þessi 4 atriði sem í frv. felast: Í fyrsta lagi að gera lánin hagstæðari til leiguíbúðanna á vegum sveitarfélaganna, í öðru lagi að það skuli skylt að lána til þessara leiguíbúða. Í þriðja lagi að það skuli heimilt að verja allt að 10% til kaupa á eldra húsnæði, annaðhvort endurbóta eða kaupa af ráðstöfunarfé húsnæðismálastjórnar, og í fjórða lagi að almenn húsnæðismálastjórnarlán hækki til samræmis við hækkun byggingarvísitölu.

Það þarf ekki að fara hér mörgum orðum um það hve húsnæðismálin eru veigamikill þáttur í lífskjörum alls almennings í landinu, bæði hér í Reykjavík og úti um land. Lengi var það svo að húsnæðisvandinn var mestur hér á höfuðborgarsvæðinu og húsnæði þá hér oft á tíðum dýrara en annars staðar og torfengnara, hvort sem var til leigu eða kaups, fyrir þá sem ekki höfðu þeim mun meiri fjárráð. Á síðustu árum hefur þetta nokkuð breyst. Atvinnulífið úti um landið hefur tekið miklum umskiptum á allra síðustu árum, ekki síst á þeim 3 árum sem vinstri stjórnin sat hér að völdum, og víða um byggðir landsins snerist þróunin þannig við á þessum árum, að í stað þess að fólk hafði streymt jafnt og þétt frá hinum ýmsu byggðarlögum úti um land og hingað á Faxaflóasvæðið, þá tók fólki að fjölga á ný víða úti um landið. Við þessar aðstæður hafa víða úti um land komið upp ný viðhorf í sambandi við húsnæðismál og úrlausn þeirra orðið miklum mun brýnni en áður var, meðan fólkið streymdi burt. Áður en l. um leiguíbúðir voru samþ. var varla hægt að segja, að sveitarfélög og kaupstaðir úti um land sætu fyllilega við sama borð og Reykjavík og þeir sem hér búa hvað húsnæðismálin varðar. Á ég þá við að verkalýðshreyfingunni í Reykjavík tókst á sínum tíma, fyrir allmörgum árum, að knýja fram í kjarasamningum ákvörðun um byggingu húsnæðis hér í Reykjavík, íbúðabyggingar í Breiðholti, með sérstökum tiltölulega mjög hagstæðum kjörum, sem hafa vissulega komið hér að ákaflega miklum notum. En hins vegar gilti þetta samkomulag á sínum tíma aðeins um Reykjavík, enda mun þörfin þá hafa verið hér brýnni en víðast annars staðar. En lagasetningin hér fyrir tæpum 2 árum um leiguíbúðir á vegum sveitarfélaga var m.a. hugsuð til að skapa þarna nokkurt jafnvægi, þannig að fólk ætti þess kost fyrir milligöngu sveitarfélaganna úti um land að komast yfir húsnæði með álíka kjörum og þeim sem best gerðust hér í Reykjavík.

Það hefur nokkuð verið um það deilt hvort eðlilegt hafi verið þegar þessi lög voru sett á sínum tíma, að þau sérstöku lánakjör, sem þar var gert ráð fyrir, væru eingöngu bundin við byggingar á vegum sveitarfélaga, þ.e.a.s. leiguíbúðir á vegum sveitarfélaga, en ekki þannig að þetta gilti almennt fyrir hvaða einstakling sem er. Ég hygg, að þetta hafi verið rétt ráðstöfun á sínum tíma, að þetta er bundið við byggingar, sem reistar eru með þessum hætti. Það gefur að sjálfsögðu möguleika á því að hafa kjörin við þær sérstöku íbúðir þeim mun hagstæðari heldur en mögulegt væri ef þau ættu að gilda fyrir hvaða einstakling sem er.

Ég vil minna á það, að í þessum l. er ákvæði sem ekki er lagt til hér að verði breytt á neinn veg, um það að sveitarfélögunum er, eftir að þau hafa byggt þessar íbúðir og leigt þær út í fá ár, heimilt að selja þær til einstaklinga. En það er nú einu sinni svo, að þau byggðarlög úti um landið, sem hafa möguleika með tilliti til atvinnulífsins að taka á móti vaxandi íbúafjölda og vilja gjarna stuðla að því að fólk flytjist þangað, ráðamenn þeirra eru að ég hygg nokkuð sammála um að fátt geri fólki erfiðara fyrir um slíka flutninga út til landsbyggðarinnar heldur en einmitt húsnæðisvandinn. Þess er ekki að vænta að fjölskylda, sem er að velta því fyrir sér hvort hún eigi að setjast að á nýjum stað eða ekki, sé að jafnaði reiðubúin til þess að festa kaup á eigin húsnæði þegar í stað. Þess er ekki að vænta og þess vegna ákaflega áríðandi að sá möguleiki sé fyrir hendi, að menn geti fengið leiguhúsnæði í byrjun meðan þeir íhuga sinn gang hvort þeir setjast að til frambúðar eða ekki. Það er tvímælalaust eðlilegt og æskilegt að slíkt leiguhúsnæði sé til staðar á vegum sveitarfélaganna.

Það er þó ekki eingöngu að þessar leiguíbúðir, sem hér um ræðir, komi að notum fyrir fólk sem er að flytja nýtt í þetta eða hitt byggðarlagið, sem færir sér l. í nyt, heldur eiga þessar íbúðir í ákaflega mörgum tilvikum að geta orðið lausn fyrir þá sem minnstar hafa tekjur, minnsta möguleika til þess að koma sér upp eigin húsnæði. Á það þá ekki síst við um unga fólkið, sem er að hefja búskap.

Það hefur vissulega verið svo hér á okkar landi að meginþorri fólks býr í eigin húsnæði og kýs að búa í eigin húsnæði. Það er að sjálfsögðu ekkert nema gott um það að segja fyrir þá sem til þess hafa möguleika. Og hér hefur það verið svo, að það hefur í raun og veru um mörg undanfarin ár verið helsta og kannske eina leið alls almennings í landinu að leitast við að tryggja sér eigin íbúð — eina leiðin til þess að troðast ekki gjörsamlega undir í því verðbólguflóði, sem hér hefur geisað um ár og áratugi, Það hefur því í raun og veru ekki verið endilega spurningin um það hvort menn væru svo ákaflega mikið fyrir það að búa í eigin húsnæði fremur en í leiguhúsnæði, ef það leiguhúsnæði væri með þeim hætti, að þeir ættu þar við hófleg leigukjör og öryggi að búa. Það hefur ekki verið spurningin um þetta í raun og veru, heldur hafa menn beinlínis verið neyddir til þess af þjóðfélagsástandinu, hvað sem öllu öðru leið, að keppa eftir því að eignast eigin íbúð. Þess vegna hefur þróun í þessum efnum orðið töluvert mikið önnur hér á Íslandi heldur en í flestum nálægum löndum. Þar hefur verðbólgan verið minni á síðustu áratugum og langt um minni og er enn og þar hefur líka miklu meira verið um það að verulegur hluti þjóðfélagsþegnanna byggi í leiguhúsnæði, oft á tíðum á vegum opinberra eða félagslegra aðila af einhverju tagi, en nyti þeirra réttinda að hafa í raun og veru full umráð yfir slíkum íbúðum og öryggis um að geta búið þar ævilangt, þó að þeir hefðu ekki réttindi til að selja íbúðirnar eins og um eigendur væri að ræða.

Hér á Íslandi hafa mál þróast þannig, að það er kannske ekki ýkja margt sem kveður frekar á um raunveruleg lífskjör þegnanna heldur en einmitt það hvernig þeir eru settir í sambandi við sín húsnæðismál. Við skulum taka dæmi af tveim fjölskyldum, ungu fólki, annars vegar væri um að ræða fjölskyldu, sem hefði kannske með aðstoð foreldra eða á annan veg tekist að leysa sín húsnæðismál og eignast íbúð, þannig að hún væri orðin skuldlítil, og hins vegar væri önnur fjölskylda sem hefði kannske sömu tekjur, en væri þannig sett að hún annaðhvort byggi í leiguhúsæði eða væri með mjög þunga skuldabyrði vegna íbúðar sinnar. Þarna eru kjörin milli slíkra tveggja aðila, sem að öðru leyti stæðu jafnt að vígi, ákaflega ólík. Ég hygg að það sé skylda þjóðfélagsins að leitast við að stuðla að því að þeim ólíku kjörum sem fyrir hendi eru í þessum efnum — því misrétti sem í þeim efnum er fyrir hendi, verði eytt svo sem frekast er kostur.

Ég vil hér aðeins drepa á það, að í samningum þeim, sem gerðir voru af verkalýðshreyfingunni fyrir tæpu ári voru mjög mikilvæg ákvæði, sem verkalýðshreyfingin þá samdi um við þáv. ríkisstj., sem lutu að húsnæðismálunum og þar sem kveðið var á um öflun fjármagns til íbúðabygginga, bæði í því formi að hækka launaskatt og í formi kaupa á skuldabréfum hjá lífeyrissjóðum. Þar var einnig samið um vissa hluti sem ætlað er að stuðla að því að auka þátt félagslegra framkvæmda á sviði íbúðabygginga. Það veltur á mjög miklu að við þetta samkomulag við verkalýðshreyfinguna verði staðið til fulls af núv. ríkisstj. og vil ég leyfa mér að vænta að svo verði. Ég vil láta þess getið hér einnig, að það er þannig ástatt nú í húsnæðismálum hér almennt og varðandi það sem lýtur að starfi Húsnæðismálastofnunar og hinum almennu lánveitingum, að það eru enn nokkuð á þriðja hundrað húsbyggjendur sem gerðu sínar íbúðir fokheldar fyrir 15. nóv. á síðasta ári, sem enn þá bíða eftir lánsúthlutun frá húsnæðismálastjórn, og er mikil þörf á því að þar verði bætt úr sem allra skjótast því að þetta fólk hefur treyst á það, miðað við þau lög og reglugerðir sem í gildi eru og fyrri gang mála í þessum efnum, að það gæti treyst á þessi lán.

Ég hef farið hér nokkrum orðum um húsnæðismálin almennt og vil þá aðeins snúa mér aftur að því frv., sem ég mælti hér fyrir og einstökum gr. þess.

Í 1. gr. þessa frv. segir svo:

„Húsnæðismálastjórn er heimilt að verja allt að 10% af því fjármagni, sem hún hefur til útlána á ári hverju, til lánveitinga til kaupenda eldri íbúða og til meiri háttar endurbóta á eldri íbúðum sem hagkvæmt þykir að endurbyggja að mati tæknideildar húsnæðismálastjórnar eða matsmanna sem hún skipar. — Öryrkjar skulu sitja fyrir um úthlutun viðgerðarlána. - Ráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um úthlutun, lánstíma og tryggingar slíkra lána að fengnum till. húsnæðismálastjórnar.“

Þetta er 1. gr. frv. Þarna er sem sagt lagt til að allt að 10% af ráðstöfunarfé húsnæðismálastjórnar verði heimilt að lána til kaupa á eldra húsnæði eða meiri háttar endurbóta. Það er svo, að á nýliðnu ári mun hafa verið varið um 80 millj. kr. til kaupa á eldra húsnæði og þar er aðeins um að ræða 3–4% af heildarfjármagninu. Hér er lagt til að helmilt sé að þetta verði allt að 10%, sem þýddi væntanlega á þessu ári, ef sú heimild væri notuð, að þarna yrði um hækkun að ræða frá 80 millj. og upp í kringum 300 millj. Það er nú svo, að ég hygg að á því sé enginn vafi að mjög margt af fólki, hvar sem er á landinu, sem er að hefja búskap, yngra fólki, vildi mjög gjarnan eiga þess kost að eignast eigið húsnæði, þó að það væri ekki alveg nýtt. Það væri vissulega í flestum tilvikum viðráðanlegra fyrir þá, sem litlar tekjur hafa og félitlir eru, að eignast eigið húsnæði með því að fá eðlileg lán til að kaupa húsnæði, sem áður hefur verið notað, heldur en að lánveitingar frá opinberum aðilum séu eingöngu miðaðar við nýtt húsnæði, svo afgerandi sem verið hefur.

Ég hygg að auknar lánveitingar til kaupa á eldra húsnæði, sem yrði þá að sjálfsögðu í öllum tilvikum að vera þokkalegt, mundu einnig vera þjóðhagslega hagkvæmar í þeim skilningi að þær mundu stuðla að betri nýtingu á því eldra húsnæði, sem til er í landinu, og draga úr hættu á því að það kannske drabbist niður eða grotni niður að óþörfu. Það er ákaflega mikið um eldri íbúðir, áratuga gamlar íbúðir, á flestum þéttbýlisstöðum landsins, öllum þeim eldri. Mikið af þessu er húsnæði sem vissulega er með góðu viðhaldi hægt að nýta enn um langan tíma. Ég hef ekki tölur um það, hvernig húsnæði skiptist eftir aldursflokkum, nema úr einu kjördæmi landsins, þ.e.a.s. af Vestfjörðum, en þar er þetta þannig skv. skýrslu sem þar var unnin fyrir fáum árum, árið 1970, að þar var þrátt fyrir allar nýbyggingar enn þá um helmingur af öllu íbúðarhúsnæði í þéttbýlisstöðum eldra en 30 ára gamalt, þ.e. byggt fyrir stríð eða alveg í stríðsbyrjun. Og það segir sig sjálft að þar sem þannig háttar til, þá er það mjög mikið atriði að að því sé stuðlað að þessu húsnæði sé haldið sem allra best við og fólk eigi þess kost, — við skulum segja eldra fólk, ég tók áðan dæmi af ungu fólki, en við skulum líka segja eldra fólk, sem kannske er búið að búa í sínu húsi áratugum saman, það er farið að láta á sjá, það stendur frammi fyrir því annaðhvort að láta það grotna niður eða verða að ráðast í allmikinn viðgerðarkostnað sem það á kannske ekki fjárhagslega auðvelt með, þá er sem sagt í þessu frv. gert ráð fyrir því að húsnæðismálastjórn geti lánað í fjöldamörgum slíkum tilvikum til meiri háttar endurbóta á eldra húsnæði. Það er að mínu viti sjálfsagt að þannig ætti þetta að vera. Það gildir, eins og ég sagði áðan, hvar sem er á landinu, hér í Reykjavík sem annars staðar, að fyrir unga fólkið, sem er að byrja að búa, og fyrir lágtekjufólk almennt, getur það skipt mjög miklu máli að það eigi þess kost að festa sér eldri íbúð, ekki síst þeir sem ekki hafa efni á og ráða ekki við það vegna sinna lágu tekna að eignast íbúð í nýbyggingu.

Þetta er um 1. gr. þessa frv. Í 2. gr. frv. er m.a. kveðið á um það, að lánsfjárupphæð almennra lána húsnæðismálastjórnar megi nema allt að 1 millj. 700 þús. kr. Þessi upphæð var á síðasta ári 1 millj. 60 þús. og sú hækkun, sem þarna er gert ráð fyrir og nemur 640 þús. kr., er ósköp einfaldlega í samræmi við hækkun byggingarvísitölu eins og hún var og eins og hún hafði hækkað 1. nóv. s.l., eins og hún hafði hækkað þá á undanförnu ári. Sú hefur verið reglan á síðustu árum, allt stjórnartímabil vinstri stjórnarinnar, að almenn húsnæðismálalán hafa hækkað til samræmis við byggingarvísitölu ár hvert og verið tekið mið af því, hver hún var 1. nóv., þegar ákvörðun var tekin um það fyrri hluta þess árs hver lánin skyldu vera á því ári sem þá var hafið. Nú er sem sagt komið að því, að það þarf að ákveða hver lánsupphæðin skuli vera á þessu ári, það hefur jafnan verið gert fyrri hluta árs, og þá mun láta nærri að ef hafa eigi sama hátt á og á undanförnum 3 árum a.m.k. sé þetta upphæðin, sem þarna er gert ráð fyrir, 1 millj. og 700 þús., og það eru almennu lánin.

Ég vil nú koma að þeim ákvæðum þessa frv. í 2. gr. þess sem lúta sérstaklega að leiguíbúðum sveitarfélaga og segja má að séu meginefni frv. Þá vil ég fyrst skýra frá því, að 15. des. s.l. höfðu borist til húsnæðismálastjórnar hvorki meira né minna en 1447 umsóknir um byggingu leiguíbúða á vegum sveitarfélaga 1447 umsóknir fyrir 15. des. Þessi háa tala sýnir okkur hvað áhugi sveitarstjórnanna, þeirra sem gerst þekkja til hvar skórinn kreppir og hvað mestu máli getur skipt fyrir jákvæða byggðaþróun í þeirra héruðum — hvað áhuginn hjá þessum aðilum á byggingu þessara íhúða er mikill og hvað þeir í raun og veru telja að framkvæmd þeirrar stefnu, sem mörkuð hefur verið með l. um þessi efni, geti skipt miklu máli. Lögin, sem nú eru í gildi, gera ráð fyrir því að þessar byggingar ættu sér stað á 4 árum, og þau gera reyndar ráð fyrir því að aðeins sé um að ræða heimild að lána til 1000 íbúða, — ekki einu sinni skylt, heldur bara heimilt. En umsóknir eru nú þegar í byrjun fyrsta ársins af þessum fjórum orðnar ekki bara 1000, heldur 1447, og hefði sannarlega getað komið til greina, þó að það sé ekki gert í þessu frv., að hafa uppi till. um að þessar íbúðir verði ekki 1000, heldur fleiri.

Ég vil láta þess getið að það munu vera skv. þeim upplýsingum, sem ég hef fengið frá húsnæðismálastjórn, yfir 80 sveitarfélög á landinu sem sótt hafa um byggingu þessara leiguíbúða og það er ekki lítill hluti af öllum sveitarfélögum landsins.

Það hefur ýmislegt athyglisvert komið fram í sambandi við þessar umsóknir sem ég tel ástæðu til að skýra hv. alþm. frá. Það er t.d. dæmi um það, að nokkrir sveitahreppar sæki sameiginlega um byggingu, kannske bara einnar leiguíbúðar og þá í því skyni að koma sameiginlega upp íbúðarhúsnæði fyrir opinberan embættismann, sem oft vill ganga illa að fá til að setjast að eða festast í viðkomandi byggðarlagi. En viðkomandi sveitarstjórnir gera vafalaust ráð fyrir því að slíkt íbúðarhúsnæði í þeirra eigu sameiginlega, þegar um sveitahreppa er að ræða, geti stuðlað að því að auðveldara sé að fá fólk í störf á viðkomandi stöðum og fá það til að una þar hag sínum bærilega, t.d. er þarna um að ræða í einu tilviki hjúkrunarkonu, sem sótt er um vegna íbúðar fyrir hana, og kennarar koma þar einnig við sögu.

Þá er það ekki síður athyglisvert og á því vil ég vekja alveg sérstaka athygli hv. alþm., sem allir boða þá stefnu að ástæða sé til að stuðla að því að hinar dreifðu byggðir úti um landið nái að rétta sinn hag á ný og tryggja megi vaxandi fólksfjölgun þar sem fólk áður streymdi burt hingað til Reykjavíkursvæðisins, — sem rök fyrir því að skelegg framkvæmd þeirra laga, sem ég hef hér rætt um, með þeim breyt. sem hér eru lagðar til, geti haft mjög mikið að segja í þessum efnum, hvað byggðaþróunina varðar, þá skal hér upplýst að af þessum 1447 umsóknum um lán til leiguíbúða á vegum sveitarfélaga eru flestar umsóknirnar úr einmitt því kjördæmi landsins sem verst hefur farið út úr burtflutningum fólks á undanförnum áratugum, þar sem blóðtakan hefur verið mest, þ.e.a.s. í Vestfjarðakjördæmi. Þaðan hafa borist, eins og ég sagði áðan, fleiri umsóknir um þessar íbúðir en úr nokkru öðru kjördæmi landsins, þ.e.a.s. 357 umsóknir af 1447 yfir landið í heild, og er þá miðað við 15. des. s.l.

Ég hygg, að ef þetta væri kannað nánar, þá kæmi í ljós að þetta dæmi segði stærri sögu en bara það sem að því ákveðna kjördæmi snýr, þetta sé almennt til marks um að fjöldamargir staðir, hreppsfélög og kaupstaðir, sem hvað verst hafa orðið úti varðandi brottflutninga fólks á undanförnum áratugum, en hafa hins vegar á allra síðustu árum, fyrst og fremst 3–4 árum, átt við batnandi hag í atvinnulegum efnum að búa, að þessir staðir og íbúar þeirra, þ. á m. sveitarstjórnirnar, finni nú glöggt til þess hvar skórinn hreppir harðast, og það er einmitt í húsnæðismálunum, og hugsi til að færa sér rækilega í nyt þau réttindi, sem felast í ákvörðunum Alþ. og lagasetningu varðandi byggingu umræddra leiguíbúða.

Ég vil þá að lokum gera grein fyrir þeim ákvæðum frv., sem lúta að því að gera lánakjör þessara íbúða hagstæðari en núgildandi lög mæla fyrir um, og hvers vegna ég tel að full ástæða sé til að gera þessi lánakjör allnokkru hagstæðari en þau eru.

Meginatriðið í þeim efnum er það ákvæði frv., sem kveður á um að þessi ákveðnu lán, þ.e.a.s. sá hluti lánanna til leiguíbúða sveitarfélaganna sem er umfram og væri umfram almenn húsnæðismálastjórnarlán, verði ekki vísitölubundinn eins og nú er. Í núgildandi l. eru ákvæði um það, að öll lán húsnæðismálastjórnar eru vísitölubundin með þeim hætti, að lánið hækkar árlega um sem svarar 30% af hækkun byggingarvísitölu. Þetta þýðir á síðasta ári, þegar byggingarvísitalan hækkaði um nálægt 60% á árinu 1974 og lánin voru rúmlega 1 millj., að almenn húsnæðismálastjórnarlán hækkuðu þá um í kringum 200 þús. kr. og greiðslubyrðin af lánunum þá í samræmi við það. En lán hins vegar, sem nema 80% af byggingarkostnaði viðkomandi íbúða, eins og gert er ráð fyrir í núgildandi l. og einnig í því frv., sem ég mæli hér fyrir, um þessar sérstöku leiguíbúðir sveitarfélaga, hækkar vegna vísitöluákvæðanna að sjálfsögðu langtum meira. Ef við tökum dæmi af íbúð, sem hefði kostað 4 millj., þá hefðu verið lánuð til hennar 80% af því, sem eru 3.2 millj. eða um þrefalt meira en almennt húsnæðismálalán, og þá hefði þetta lán líka hækkað um þrisvar sinnum hærri upphæð alls eða um hvorki meira né minna en 600 þús. á einu ári. Ég hygg að það sé ljóst hverjum þeim sem þetta hugleiðir og er þeirrar skoðunar að þessi sérstöku ákvæði um leiguíbúðirnar séu fyrst og fremst við það miðuð að lágtekjufólk geti notið þeirra, fyrst með því að leigja þær af sveitarfélaginu og síðar í æðimörgum tilvikum að kaupa þær og standa undir þeim, eins og vænta má að þetta verði í framkvæmd, þá er illviðráðanlegt fyrir fólk með lágar tekjur að ætla því að standa undir þessu vísitöluákvæði og greiðslubyrðin hækki sem því svarar. Hvað sem menn vildu um það segja hvort vísitölubinding sé að einhverju leyti réttlætanleg á almenn húsnæðismálastjórnarlán, sem vissulega má færa rök fyrir, þá hygg ég að miðað við þann tilgang, sem lögunum um þessar leiguíbúðir sveitarfélaganna var í upphafi ætlað að greiða sérstaklega fyrir lágtekjufólki úti um landið á sama hátt og fyrirhugað var með Breiðholtsíbúðunum svokölluðu hér í Reykjavík, þá samræmist þetta ákvæði alls ekki þeim megintilgangi l. og beri að fella það niður. Ég vil undirstrika það, að í raun og veru er það höfuðatriði, veigamesta atriði þessa frv. sem ég hér mæli fyrir. Að öðru leyti er gert ráð fyrir því í frv. varðandi kjör á þessum ákveðnu lánum til þessara ákveðnu íbúða, að auk þess sem vísitöluákvæðið sé afnumið séu vextir af þessum viðbótarlánum, þ.e.a.s. þessar íbúðir fái í fyrsta lagi almennt húsnæðismálastjórnarlán með viðeigandi kjörum þar og síðan fái þær viðbótarlán svokallað, þar til lánin samtals nema alls 80% af byggingarkostnaði, — þetta viðbótarlán hafi enga vísitölubindingu. Síðan eru hin atriðin, sem ég nefni nú, að vextirnir á viðbótarlánunum lækki úr 5% í 2% og lánstíminn verði 42 ár í stað 33 ára. Þessi ákvæði ern í raun og veru í samræmi við það sem gilt hefur varðandi verkamannabústaði og kjörin í sambandi við þá.

Ég minni svo á það aðeins að lokum, að það er einnig mikilvægt ákvæði í sambandi við leiguíbúðirnar að það skuli skylt að lána til þessara 1000 íbúða, en ekki aðeins heimilt. Ég hef um það fulla vitneskju að ærið margir sveitarstjórnarmenn úti um landið eru nú mjög uggandi um, að það muni taka lengri tíma en æskilegt væri að fá lán fyrir þeim íbúðum sem sótt hefur verið um í þessum efnum, fyrir þeim 1000 íbúðum sem l. heimila að lánað sé til, og heimildin verði kannske ekki notuð til fulls. Þeir mundu alveg vafalaust fagna því eindregið, ef þarna væri kveðið skýrar á um, þannig að ekki væri aðeins um heimild, heldur um skyldu að ræða.

Það er rétt að láta þess getið, áður en ég lýk máli mínu, að af þessum milli 1400 og 1500 umsóknum, sem fyrir liggja, munu vera rúmlega 100 umsóknir sem hafa verið afgreiddar á jákvæðan hátt nú þegar, sem er ákaflega lítill hluti. Ég endurtek það, að mér er um það fullkunnugt að margir sveitarstjórnarmenn eru mjög óþreyjufullir í þessum efnum. Og ég vil vænta þess að hv. alþm. taki til vinsamlegrar íhugunar þau atriði, sem lögð eru til í þessu frv., og legg til, hæstv. forseti, að frv. verði að umr. lokinni vísað til hv. félmn.