03.02.1975
Neðri deild: 38. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1451 í B-deild Alþingistíðinda. (1265)

128. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Flm. (Kjartan Ólafsson):

Ég vildi aðeins þakka hæstv. félmrh. og hv. 4. þm. Reykv. vinsamlegar undirtektir við það frv., sem ég hef mælt hér fyrir í dag.

Hæstv. félmrh. minntist á, að ekki hefði í upphafi verið leystur sá vandi sem í því felst að fjármagna þær framkvæmdir sem lög um byggingu leiguíbúða sveitarfélaga gera ráð fyrir. Vissulega er rétt að það hefur því miður ekki enn þá verið gengið nægilega tryggilega frá því, eins og ég sagði í dag, að það fjármagn, sem til þarf, verði tryggt. Ég vil í þessu sambandi aðeins minna á sem viti til varnaðar, að þegar verkalýðshreyfingin í Reykjavík gerði á sínum tíma mjög mikilsvert samkomulag um byggingu Breiðholtsíbúðanna með sérstökum kjörum, þá var kveðið þar á um að þessar byggingar skyldu rísa á ákveðnum, afmörkuðum tíma. Ég man nú ekki alveg árafjöldann, ætli það hafi ekki verið 3–4 ár. Þetta samkomulag var gert, annað hvort 1966 eða 1967, en reyndin varð sú að það tók því miður meira en helmingi lengri tíma en ætlað var að tryggja það fjármagn sem til þurfti til að þetta mikilvæga samkomulag á sínum tíma yrði að veruleika. Og það er áreiðanlega í og með með þessa reynslu í huga frá fyrri árum sem sveitarstjórnarmenn og aðrir, sem eru áhugasamir um framkvæmd l. um byggingu leiguíbúða, eru allkviðnir um að það kunni að dragast úr hömlu enn að tryggja fjármagn til þeirra framkvæmda sem þar um ræðir.

Ég vil treysta því að allir hv. alþm. og hæstv. ríkisstj. hafi góðan vilja til að leysa úr þessu máli og að það muni takast. Ég minni á í því sambandi varðandi fjármögnun til íbúðabygginga almennt, þ. á m. leiguíbúðanna, þá er ákaflega mikilvægt að framkvæmd samkomulagsins, sem verkalýðshreyfingin gerði við vinstri stjórnina um ákveðna fjáröflun til húsnæðislánakerfisins, verði undanbragðalaus.

Það kom fram hjá hæstv. félmrh. að hugmyndir væru uppi um að verja nokkru af ráðstöfunarfé Byggðasjóðs í þessu skyni. Vissulega hlýtur það að geta komið mjög til greina. En því miður eru verkefnin ærið mörg hjá Byggðasjóði, eins og hv. alþm. er kunnugt, og enda þótt fjárveiting til Byggðasjóðs hafi hækkað nokkuð á þeim fjárl. sem hér voru samþykkt á lokadögum Alþ. fyrir jól, þá er það svo að af þeirri hækkun, sem Byggðasjóður þar fékk, mundi sjálfsagt ekki veita til að vega á móti þeim niðurskurði á verklegum framkvæmdum almennt úti um landið sem þau fjárlög, sem hér voru samþykkt, gera ráð fyrir. Að sjálfsögðu getur orðið nokkur vandi á höndum um ráðstöfun þess fjármagns, sem Byggðasjóður hefur. Á að ráðstafa því fé til að standa undir framkvæmdum, sem skornar voru niður á fjárl., eða á að verja því að verulegu leyti í sambandi við húsnæðismálin? Ég vil taka undir það með hæstv. félmrh., að ég tel út af fyrir sig eðlilegt að nokkrum hluta af fjármagni Byggðasjóðs verði varið í þessu skyni, en ég efast um að það dugi eitt til.