03.02.1975
Neðri deild: 38. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1452 í B-deild Alþingistíðinda. (1266)

128. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Tómas Árnason:

Herra forseti. Það leikur ekki á tveim tungum nauðsyn á fjármögnun til uppbyggingar íbúðarhúsa í landinu. En það kann að verða auðveldara um það að tala heldur en í að komast að afla nægilegs fjármagns í þessu skyni, eins og reyndin hefur orðið áður og hefur komið fram í þessum umr. Það hefur aðeins verið minnst á það hér í umr., hvort Byggðasjóður gæti komið til sem fjármögnunaraðili í þessum efnum. Byggðasjóður hefur ekki lánað til íbúðarhúsnæðis eða húsnæðismála fram að þessu, enda ekki haft til þess bolmagn. Það er öllum kunnugt, að fjármagn til Byggðasjóðs hefur verið aukið verulega. Á þessu ári nemur framlag til Byggðasjóðs á fjárl. 877 millj. kr. Ég hef ekki í höndum upplýsingar um það eða mat á því, hvað Byggðasjóður mundi hafa haft til ráðstöfunar af lánsfjármagni ef sú breyting hefði ekki verið gerð á hans högum sem nú hefur verið gerð, en ég gæti trúað að framlag til hans hafi verið aukið um 500–600 millj., ef það væri borið saman sem áður var og nú er. Eigi að síður hefur Byggðasjóður í mörg horn að líta, eins og kom fram hjá hv. 1. flm. málsins. Hann hefur lánað á undanförnum árum til uppbyggingar fiskiskipaflotans í talsverðum mæli, hann hefur lánað til hraðfrystihúsaáætlunarinnar, til vinnslustöðva í sjávarútvegi, hann hefur lánað til iðnaðar, bæði framleiðslu- og þjónustuiðnaðar, og hann hefur lánað nokkuð til sveitarfélaga og hefur farið heldur vaxandi. Það liggur ekki fyrir enn þá, hvað líklegt er að Byggðasjóður þurfi af fjármagni til þess að halda svipaðri lánastefnu á þessu ári og hann hefur gert áður, ef miðað er við það að krónan hefur fallið mjög verulega og allur tilkostnaður í sambandi við framkvæmdir hefur vaxið mjög mikið. Þó er sýnilegt að hann þarf talsvert verulegt fjármagn til þess að geta haldið svipaðri stefnu og verið hefur. Það er mikil spurning, hvort Byggðasjóður, vegna þess að það eru svo mörg verkefni sem hann þarf að sinna, hefur bolmagn til þess að fara í íbúðarhúsalán án þess að afla sérstakra lánveitinga í því skyni. Hér er um að ræða stóran málaflokk, svo stóran að það þarf að mínum dómi sérstaka athugun til þess að komast að raun um hvort Byggðasjóður hefur bolmagn til að koma þar til skjalanna.

Það er starfandi sérstök mþn. í byggðamálum, og þessi mþn. mun hafa gert till. á síðasta þingi, ef ég man rétt, alveg sérstaklega í húsnæðismálum. Var lagt til að tekin yrðu upp örvunarlán svokölluð til íbúðarhúsabygginga úti um landið. Þetta mál var ekki afgreitt á síðasta þingi, en hvort það verður endurflutt á þessu

Alþ. þori ég ekki að segja um. En mín skoðun er sú, að eins og háttar lánastefnu Byggðasjóðs og þeim fyrirætlunum, sem menn helst huga að í því sambandi, til viðbótar við það sem áður hefur verið, eins og t.d. vinnustöðvar í landbúnaði, t.d. gatnagerðarmál, hitaveitur og e.t.v. fleira, þá mundi þurfa að koma til lántaka af hálfu Byggðasjóðs til viðbótar við það ráðstöfunarfé sem hann hefur, ef hann ætti að geta sinnt þessum málum svo að eitthvert lið væri að því.