14.11.1974
Efri deild: 7. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 195 í B-deild Alþingistíðinda. (127)

25. mál, meðferð einkamála í héraði

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér er um að ræða, er einnig um breyt. á l. nr. 85 frá 1936, um meðferð einkamála, og er um breyt. á 71. gr. þeirra l. eða viðauka við hana og varðar heimild til þess að úrskurða bráðabirgðafjárgreiðslu upp í slysabætur jafnhliða dómi um skaðabótaskyldu vegna slysa þegar neytt er heimildar réttarfarslaga til þess að skipta sakarefni þannig að dæmt er um skaðabótaskylduna sér í lagi, en til slíkrar skiptingar er einmitt heimild í þeirri lagagr. sem hér er um að tefla. Bending í þessa átt var gefin í þál. frá 8. febr. 1972 um afgreiðslu skaðabótamála vegna slysa. Dómsmrn. aflaði sér ýmissa grg. og umsagna vegna þál., sem að öðru leyti óskaði reyndar almennrar athugunar á möguleikum til að hraða meðferð skaðabótamála vegna slysa. Ég leyfi mér að vísa til aths. með lagafrv. um þær grg., en taldi ekki ástæðu til að prenta þær með þessu litla frv., þar sem þær varða ýmis og að nokkru leyti mjög almenn atriði um hraða og meðferð dómsmála og mörg þau atriði eru áfram til athugunar, ekki síst í störfum réttarfarsnefndar, almennri endurskoðun á réttarfarslöggjöfinni og dómaskipan. Ég mun hins vegar gera ráðstafanir til að senda þeirri n., sem málið fær til athugunar, grg. til skoðunar.

Sá háttur hefur nú verið hafður á sem sagt að leggja fram hér tvö frv., sem að vísu fjalla um breyt. á sömu l., en um svo fjarskyld efni að réttara þótti að hafa það í tveimur frv. En að sjálfsögðu fær sama n. bæði frv. til meðferðar og getur þá athugað hvort henni þyki hæfa að setja þetta fremur saman í eitt frv.

Með þessu litla frv. átti reyndar og á að fylgja sem fylgifiskur frv. till. um breyt. á l. um vátryggingarsamninga, nr. 20/1954. En því mun nú fyrst hafa verið útbýtt í dag og er þess vegna ekki á dagskrá og verður tekið fyrir á sínum tíma síðar, en þá vænti ég að hv. n. láti það fylgja þessu frv. vegna þess að það getur ekki komið að fullum notum nema jafnframt sé gerð sú breyting, á l. um vátryggingarsamninga, sem þar er lagt til. að gerð sé.

Ég leyfi mér svo, herra forseti, að leggja til, að þessu frv. sé að umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. allshn.