04.02.1975
Sameinað þing: 36. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1476 í B-deild Alþingistíðinda. (1292)

314. mál, virkjunarrannsóknir á Dettifosssvæðinu

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Rannsóknir við Dettifoss hafa staðið yfir allt frá árinu 1960. Á árunum 1960–1952 var varið fé til rannsóknanna er svarar að nútímaverðgildi 17 millj. kr. Síðan varð hlé á rannsóknum, en á árunum 1972–1974 að báðum meðtöldum var varið til rannsóknanna sem svarar að nútímaverðgildi 14.5 millj. kr. Samtals má því telja að varið hafi verið 31.5 millj. kr. til þessara rannsókna með nútímaverðgildi.

Niðurstöður rannsóknanna eru í stuttu máli á þá leið, að við Dettifoss virðist mega gera hagkvæma vatnsaflsvirkjun, um 165 mw. að afli að áætlun eða mati Orkustofnunar og með um 1200 gwst. árlegri vinnslugetu. Í því sambandi er rétt að taka það fram, að í þessari áætlun er gert ráð fyrir þremur vélasamstæðum. Ekki er gert ráð fyrir skiptingu virkjunarinnar í áfanga umfram það, að fyrsta vélasamstæðan gæti að sjálfsögðu komið í notkun á undan hinum, en langsamlega mestur hluti stofnkostnaðar mundi koma samtímis við virkjunarframkvæmdir.

Rétt er að taka fram, að einnig hafa verið gerðar athuganir hjá Orkustofnun á öðrum virkjunarmöguleikum í Jökulsá á Fjöllum. Kannaður hefur verið möguleiki á að nýta stærri hluta af vatnsorku Jökulsár á Fjöllum í einni virkjun, u.þ.b. tvöfalt stærri en Dettifossvirkjun. „Ástæðan fyrir þessari könnun,“ segir í umsögn Orkustofnunar, „er sú, að verði Dettifoss virkjaður, er hæpið að afgangurinn af vatnsafli Jökulsár verði nýttur yfirleitt og útilokað má telja að nýta hann á hagkvæman hátt. Þessi stóra virkjun kynni að geta gefið álíka orkuverð og Dettifoss, en hún er mjög lítið könnuð enn þá. Henni verður tæplega skipt í áfanga, heldur yrði að gera hana í einu lagi, og hún þarf þannig um tvöfalt stærri orkumarkað en Dettifoss og tilsvarandi stærra fjárhagslegt átak.“

Á þessa lund segir í skýrslu Orkustofnunar um þennan möguleika, sem hefur þó verið lítið kannaður enn þá. En það er rétt að skýra frá öðrum kafla í umsögn Orkustofnunar út af þessum fsp. Þar segir í sambandi við Dettifoss:

„Í ljós hefur komið, að jarðskorpuhreyfingar ættu ekki að hafa áhrif á byggingu stöðvarhúss virkjunarinnar, ef tillit er tekið til þeirra við staðsetningu þess. Á hinn bóginn verður ekki fullyrt, að jarðskorpuhreyfingar geti ekki valdið tjóni á stíflumannvirkjum virkjunarinnar, sem liggja munu þvert á sprungustefnuna. Við hönnun virkjunarinnar er tekið tillit til þessa með því að gera hana þannig úr garði, að hún verði ekki með öllu óstarfhæf, þótt stíflan skemmist.“

Ég vil að endingu taka fram, að þó að undirbúningi að virkjun Dettifoss og rannsóknum á því svæði sé miklu lengra komið en varðandi Skjálfandafljót, sem við ræddum um áðan, skortir enn töluvert á um rannsóknir og áætlanagerð þannig að málið sé tilbúið til ákvarðanatöku. Ég vil segja það sama og ég sagði áðan varðandi fsp. um virkjun Skjálfandafljóts, að ég tel brýna nauðsyn að hraða rannsóknum og áætlanagerð, þannig að mál liggi svo ljóst fyrir varðandi hina miklu möguleika um virkjun Dettifoss, að áður en allt of langur tími líði sé unnt að taka ákvarðanir í því máli.