04.02.1975
Sameinað þing: 36. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1478 í B-deild Alþingistíðinda. (1294)

314. mál, virkjunarrannsóknir á Dettifosssvæðinu

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Út af ummælum hv. þm. um undirbúning virkjana sunnanlands og norðan vil ég taka undir það með honum, að miklu betur virðist hafa gengið og verði árangursríkara að gera áætlanir um virkjanir sunnanlands, eins og á Sogsvirkjunarsvæðinu á sínum tíma og á Þjórsársvæðinu nú. Má gera ráð fyrir því, að jafnvel fyrir lok þessa árs verði rannsóknum og áætlanagerð varðandi þriðju virkjun á Þjórsársvæðinu, þ.e.a.s. við Hrauneyjarfoss, svo langt komið að unnt sé að taka ákvörðun um hvort í þá virkjun skuli ráðist á næstunni eða ekki. Undirbúningi öllum er það langt á veg komið. því miður verður ekki það sama sagt um virkjunarmöguleikana norðanlands. Ég held að þegar athugaðir eru stærstu virkjunarmöguleikar norðanlands auk Kröflu, sem nú er verið að undirbúa virkjun á, séu þeir einkum fjórir: Dettifoss, Skjálfandafljót, Jökulsá í Skagafirði og Blanda. En því miður er rannsóknum og áætlanagerð það skammt á veg komið, að erfitt virðist eða jafnvel ógerningur að taka ákvarðanir nú alveg á næstunni um neinar þessara virkjana. En ég tel brýna nauðsyn bera til þess og það er ákveðinn vilji fyrir því í iðnrn. að þessum rannsóknum sem ég nefndi um virkjunarmöguleika norðanlands verði hraðað svo sem föng eru á.