04.02.1975
Sameinað þing: 37. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1485 í B-deild Alþingistíðinda. (1307)

99. mál, jafnrétti sveitarfélaga í húsnæðismálum og fyrirgreiðsla vegna bygginga einingahúsa

Flm. (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér á þskj. 112 till. til þál. um jafnrétti sveitarfélaga í dreifbýli og Reykjavíkur í húsnæðismálum og um fjárhagslega fyrirgreiðslu vegna byggingar einingarhúsa. Till. er svo hljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að skipa nefnd til þess að endurskoða lög um Húsnæðismálastofnun ríkisins, nr. 58 frá 30. apríl 1973. Endurskoðun þessari skal þannig háttað að fjármögnun og fyrirgreiðsla ríkisins við byggingu 1000 leiguíbúða sveitarfélaga, þar sem ekki hafa verið byggðar íbúðir samkv. 1. gr. laga nr. 97 22. des. 1965, verði sveitarfélögunum jafn hagkvæm og sú fyrirgreiðsla sem veitt er við þær íbúðir sem byggðar hafa hafa verið af Framkvæmdanefnd byggingaráætlunar ríkisins og Reykjavíkurborgar.

Enn fremur skal þess gætt að veitt verði nægileg fyrirgreiðsla við fjármögnun til byggingar einingarhúsa, enda reynist þau samkeppnisfær um verð og gæði.“

Till. fylgir grg., sem ég mun nú lesa hluta af, með leyfi hæstv. forseta:

„Nokkur undanfarin ár hafa stjórnvöldin stuðlað að framkv. þróttmikillar byggðastefnu. Stórfelld atvinnuuppbygging hefur átt sér stað um land allt. Jafnvel í þeim byggðarlögum, þar sem árstíðabundið atvinnuleysi ríkti og kyrrstaða var í öllum framkvæmdum, hefur nú skipt um til hins betra, stórvirk framleiðslutæki hafa verið keypt og atvinnulíf stendur í blóma.

Fólki fjölgar í dreifbýlinu og það hefur öðlast nýja trú á lífsbjargarmöguleika þar. Þessi þróun má ekki stöðvast. Byggðarlögum er ekki einhlítt að eignast hagkvæm framleiðslutæki. Nauðsynlegt er að sjá einnig fyrir húsnæðisþörf sveitarfélaganna í dreifbýlinu.

Vorið 1973 voru samþ. á Alþ. lög um byggingu 1000 leiguíbúða sveitarfélaga. Þessi lagasetning var þörf og tímabær, svo sem umsóknir hinna ýmsu sveitarfélaga um íbúðarlán bera gleggst vitni um. Þó kemur í ljós við framkvæmd l., að þar njóta sveitarfélögin í dreifbýlinu hvergi nærri jafnhagstæðra kjara og Reykjavík og nágrannasveitarfélög hafa notið hvað varðar byggingar samkv. l. nr. 97 frá 22. des. 1965, um breyt. á l. nr. 19 10. maí 1965, um Húsnæðismálastofnun ríkisins, samkv. reglugerð um íbúðabyggingar ríkisins og Reykjavíkurborgar frá 28. apríl 1967.

Það er skoðun flm. að sveitarfélög í dreifbýli eigi skilyrðislaust að njóta sama réttar og sömu fyrirgreiðslu og ríkisvaldið hefur veitt Reykjavíkurborg við íbúðabyggingar.“

Þannig hljóðaði fyrri hluti grg. Hvert er svo þetta misrétti sem sveitarfélög í dreifbýli verða við að búa samanborið við Reykjavík og nágrannasveitarfélögin? Þetta kemur glöggt í ljós ef bornar eru saman þær reglugerðir sem starfað er eftir. Ég mun nú lesa, með leyfi hæstv. forseta, 1. og 5. gr. reglugerðar um úthlutun lána og byggingu 1000 leiguíbúða sveitarfélaga frá 28. febr. 1974.

1. gr. reglugerðarinnar hljóðar þannig:

„Á árunum 1974–1978 er húsnæðismálastjórn heimilt að veita sveitarfélögum, þar sem ekki hafa verið byggðar íbúðir samkv. 1. gr. l. nr. 97 22. des. 1965 og íbúar þeirra ekki átt kost á íbúðum samkv. því lagaákvæði, lán til byggingar á allt að 1000 leiguíbúðum með þeim lánakjörum sem hér greinir:

a) Lánsfjárhæð nemi allt að 80% af byggingarkostnaði íbúða.

b) Lánstíminn skal vera 33 ár.

c) Lánin skulu vera afborgunarlaus fyrstu 3 árin, en endurgreiðast síðan á 30 árum.

d) Lánakjör skulu að öðru leyti vera hin sömu og E-lánakjör Byggingarsjóðs ríkisins.“

5. gr. hljóðar þannig:

„Sveitarfélög skulu leggja til land án endurgjalds undir íbúðarhús sem byggð eru samkv. þessari reglugerð.

Lán Byggingarsjóðs má nema allt að 80% af kostnaðarverði íbúðanna og er þá miðað við íbúðir fullgerðar, tilbúnar til notkunar. Íbúðirnar skulu byggðar úr varanlegu efni, vandaðar að öllum frágangi, en án íburðar. Húsin skulu vera fullfrágengin að utan, lóðir skulu fullfrágengnar samkv. byggingarskilmálum hvers byggðarlags, en óheimilt er að lána út á bílskúra eða telja kostnað við þá með byggingarkostnaði íbúða sem lán eru veitt til samkv. þessari reglugerð.“

Þannig hljóða þessar reglugerðargreinar um leiguíbúðir sveitarfélaga í dreifbýli. Og nú mun ég lesa, með leyfi hæstv. forseta, 1. og 2. gr. reglugerðar um íbúðabyggingar ríkis og Reykjavíkurborgar frá 28. apríl 1967. 1. gr. þeirrar reglugerðar er svo hljóðandi:

„Á árunum 1966–1970 skulu byggðar 1250 íbúðir í Reykjavík á vegum ríkisins og Reykjavíkurborgar í samvinnu við verkalýðsfélögin, svo sem nánar er lýst í reglugerð þessari.“

2. gr. „Fjármagn til byggingaframkvæmda þessara skal ríkið útvega að 4/5 hlutum, en Reykjavíkurborg að 1/5 hluta, enda verði eignar- og ráðstöfunarréttur á íbúðum þessum í sömu hlutföllum af hálfu hvors aðila.

Þannig hljóða reglugerðarákvæðin um Breiðholtsíbúðirnar í Reykjavík. „Fjármagn til byggingarframkvæmda þessara skal ríkið útvega að 4/5 hlutum, en Reykjavíkurborg að 1/5.“ — Um dreifbýlisíbúðirnar er orðalegið hins vegar: „Heimilt er að veita sveitarfélögum, þar sem ekki hafa verið byggðar íbúðir samkv. 1. gr. l. nr. 97 22. des. 1965“ — þ.e. Breiðholtsfyrirkomulagið — „lán til bygginga.“ Og síðar í staflið a) „Lánsfjárhæð nemi allt að 80% af byggingarkostnaði íbúða.“ — Allt er það orðalag með öðrum svip og loðnara þegar reglugerðin er um skyldur ríkisins við dreifbýlið, sveitarfélögin. Við höfum ekki átt þess kost að fá sömu eða svipaða fyrirgreiðslu og ríkið veitti Breiðholtsframkvæmdunum. Í mínum huga er mikill munur á heimild og skyldu.

Það er gott að Reykjavík hefur fengið sitt Breiðholt. En bæir og þorp úti á landi hefðu líka þurft að fá sín litlu Breiðholt, en því var ekki að heilsa. Setning laga um Breiðholtsíbúðirnar og framkvæmd þeirra stórfelldu áætlunar hafði forgangsfyrirgreiðslu í Byggingarsjóði ríkisins, e.t.v. vegna skylduákvæðisins m.a. Og auðvitað hefur alltaf vantað fé í þennan blessaðan Byggingarsjóð. Lögbundinn forgangur Breiðholts hefur þannig að sjálfsögðu sogað fjármagn frá byggingarframkvæmdum á landsbyggðinni.

Setning laga um leiguíbúðir sveitarfélaga í dreifbýli, nr. 59 frá 20. apríl 1973, var vafalaust hugsuð af hæstv. fyrrv. ríkisstj. sem jafnvægisráðstöfun, rétting á hinum skerta hlut dreifbýlisins, viðurkenning á því að nú væri röðin komin að okkur dreifbýlingum, byggðastefna í húsnæðismálum. Þörfin er brýn fyrir þessar leiguíbúðir. 15, okt. í haust höfðu borist umsóknir um 984 íbúðir. Nú fyrir jólin voru þessar umsóknir komnar upp í hálft 15. hundrað eða því sem næst. Undirbúningi umsókna hefur að vísu sjálfsagt verið áfátt frá hendi einhverra þessara sveitarfélaga, en óeðlileg töf Húsnæðismálastofnunar á því að úrskurða, hverja meðferð ætti að veita umsóknunum og hvaða kjör stæðu sveitarfélögunum til boða, skapaði verulega óvissu og mjög mikið óhagræði sumra þeirra sveitarfélaga sem áttu von á því að fá leyfi til þess að hefja framkvæmdir í vor, en fengu ekki leyfi fyrr en byggingartíma var lokið í haust. Þess háttar frestun á framkvæmdum kom sér mjög illa í ýmsum tilfellum sem ég þekki, enda verðlagsþróunin með þeim hætti í landinu.

Dreifbýlisfólki þykir stundum sem það eigi formælendur fáa hjá stjórn Húsnæðismálastofnunar, þótt ekki séu þar allir undir sömu sök seldir. Ég er þess fullviss að stjórn Húsnæðismálastofnunar er skipuð hinum bestu mönnum og góðviljuðum, en aukin tengsl þeirra við dreifbýlið hygg ég að væri til bóta, og búseta í Reykjavík er ekki að mínum dómi neitt höfuðskilyrði fyrir hæfni til setu í stjórn þeirrar stofnunar.

Um þessa vafninga Húsnæðismálastofnunnar urðu á s.l. sumri snörp og að sumu leyti þörf blaðaskrif. Fjölmargar ályktanir bæjarstjórna, hreppsnefnda og fjórðungsþinga á landsbyggðinni voru gerðar, þar sem úrbóta og jafnréttis var krafist. Ég mun — með leyfi hæstv. forseta — lesa eina örstutta ályktun. Hún er frá samstarfsfundi fjórðungssambanda sem haldinn var á Ísafirði 8. sept. í haust. Þessi samstarfsfundur er fundur forráðamanna allra landshlutasamtaka:

„Samstarfsfundurinn átelur seinagang og stjórnleysi í framkvæmd laga um leiguíbúðir á vegum sveitarfélaga. Ónógur undirbúningur húsnæðismálamálastjórnar hefur komið í veg fyrir að sveitarfélög hæfu framkvæmdir nú í ár. Vill fundurinn að í stað heimildar Byggingarsjóðs til að lána 80% kostnaðarins við leiguíbúðir verði það í lögum skylda hans. Eðlilegt er að sérstök framkvæmdanefnd, sem skipuð sé fulltrúum landshlutasamtakanna, hafi yfirstjórn um framkvæmd áætlunar um byggingu leiguíbúða. Áhrifaríkasta leiðin til að draga úr búsetutilfærslum til Reykjavíkur og Reykjanessvæðis er aukin lánafyrirgreiðsla til íbúðabygginga í dreifbýli.“

Þannig hljóðaði ályktun samstarfsfundar landshlutasamtakanna um leiguíbúðirnar. Loksins komu byggingarleyfin og fyrirheitin um fjármagnsfyrirgreiðslu — nokkur byggingarleyfi — ég held að það hafi verið veitt eitthvað í kringum 100. Sú niðurstaða er þó þakkarverð, því að það er betra seint en aldrei. En þessi saga má ekki endurtaka sig og þetta skapar óþolandi öryggisleysi. Þess vegna verður að breyta lögunum þannig að reglugerðarákvæðin verð samræmd og dreifbýlinu tryggt lögbundið jafnrétti við höfuðborgarsvæðið. Dreifbýlið hefur dregist mjög aftur úr í húsnæðismálum og stórátaks er vissulega þörf. Leiguíbúðahugmyndin er eðlilega lausn á hluta þess húsnæðisvanda sem fólkið í bæjum og þorpum á landsbyggðinni á við að stríða.

Ég vil nefna húsnæðismál á Blönduósi sem dæmi um húsnæðisvanda. Þetta er blómlegt þorp með nokkuð traustu atvinnulífi og vafalaust nokkuð bjarta framtíð fyrir sér sem miðstöð viðskipta, þjónustu, iðnaðar og samgangna í góðu og víðlendu héraði. Á Blönduósi hefur á undanförnum árum vaxið upp margt af duglegu og myndarlegu efnisfólki. Þetta fólk giftist og vill stofna heimili, en til þess að svo megi verða þarf það að byggja yfir sig ef það vill vera kyrrt, en ekki flytja hér suður. Við húnvetningar höfum orðið að sjá á eftir of mörgum suður, þótt sem betur fer hafi margir ráðist í það að byggja fyrir norðan, jafnvel með tvær hendur tómar. Aðkomumenn, sem hafa haft hug á því að setjast að á Blönduósi, hafa orðið frá að hverfa þar sem þeir fengu hvergi inni og þorðu ekki að byggja á ókunnum stað og festa þar fé sitt til frambúðar, ef þeim kæmi svo ekki til með að líka vistin. Þannig höfum við misst suður margar fjölskyldur sem fengur hefði verið að fá í héraðið.

Blönduós er ekkert einsdæmi. Ég fullyrði að svipað ástand er í öllum bæjum og þorpum á Norðurl. v. og sjálfsagt er svo um land allt. Húsnæðisskorturinn stendur þessum þéttbýlisstöðum fyrir þrifum og atvinnuuppbyggingu þeirra.

Þá mun ég ræða nokkuð um síðari lið till., að veitt verði nægileg fyrirgreiðsla við byggingu einingarhúsa, og vil ég nú — með leyfi hæstv. forseta — lesa niðurlag grg. þeirrar sem ég lét fylgja þáltill.:

„Þar sem nú eru að rísa á legg fyrirtæki sem byggja einingarhús í fjöldaframleiðslu og líklegt er að þeir byggingarhættir geti orðið til þess að lækka verulega byggingarkostnað og stytta byggingartíma mjög mikið í framtíðinni, er eðlilegt að sérstök áhersla sé lögð á það að þeir þættir byggingariðnaðar nái að þróast. Núgildandi lánareglur Húsnæðismálastofnunar eru þessum byggingarháttum ekki fullnægjandi þar sem fyrirtæki, sem skila næstum fullbúnum verksmiðjuframleiddum einingarhúsum, svo sem Húseiningar hf. á Siglufirði, verða að festa geysimikið fé í byggingarefni og geta ekki veitt kaupendum langan greiðslufrest þar til lán Húsnæðismálastofnunar greiðist. Flm. telur réttmætt og mjög nauðsynlegt að bundið verði í löggjöf um Húsnæðismálastofnun, hvernig þessi vandi skuli leystur á hagfelldan hátt.“

Hér lýkur grg. og við hana vil ég bæta þessu: Á síðustu árum, þó einkum síðan viðlagasjóðshúsin tóku að flytjast til landsins, hafa augu margra íslendinga opnast fyrir þeirri hagkvæmni, þeim kostum, sem stöðluð verksmiðjuframleiðsla húsa hefði í för með sér. Í stað þess að mæta hinum mikla og sívaxandi kostnaði við módelsmiði einbýlishúsa og tvíbýlishúsa eingöngu með því að setja hverja íbúðina ofan á aðra og upp við aðra, eins og algengt hefur verið, þá hafa nokkur fyrirtæki risið á legg hér á landi og hafið verksmiðjuframleiðslu einingarhúsa. Það hefur sýnt sig og á að sjálfsögðu eftir að sýna sig enn þá gleggra þegar þessir byggingarhættir hafa náð að þróast betur, að hér er fundin sú lausn sem viða getur hentað fólki því sem heldur kýs að búa í einbýlishúsi en í blokk, án þess þó að húsnæðiskostnaður í einbýlishúsi þurfi að verða meiri en ef um íbúð í blokk væri að ræða.

Þessi fyrirtæki, sem framleiða einingar til húsagerðar, haga framleiðslu sinni með ýmsu móti. Sum þeirra framleiða stórar steinsteyptar einingar sem eru hentugar nærri verksmiðju, einkum þar sem völ er á góðum tækjakosti, krönum, vögnum og lyfturum, til uppsetningar. Önnur framleiða smærri einingar og léttbyggðari sem henta mun betur við þær aðstæður sem algengastar eru í dreifbýlinu, þar sem hagkvæmni í flutningum frá verksmiðju á byggingarstað skiptir miklu máli og stórvirk hjálpartæki við byggingar ekki fyrir hendi. Flest þessi fyrirtæki hafa orðið að miða framleiðslu sína við það að skila kaupendum húsunum fokheldum. Þau hafa samið sig að þeim starfsháttum sem Húsnæðismálastofnun hefur haft um lánveitingar, þannig að kaupendur húsanna hafa ekki þurft að snara út við móttöku húss eins miklu fé, og lán þau, er Húsnæðismálastofnun veitir út á fokheld hús, hafa hentað vel til fjármögnunar. Hins vegar hefur kaupandi hússins átt eftir mjög mikinn og kostnaðarsaman hluta verksins og tímafrekan.

Önnur fyrirtæki hafa hins vegar valið þann kost að skila húsunum sem allra mest frágengnum, þannig að heildarbyggingartími hefur verið ótrúlega stuttur og kaupandi fengið strax not af fjárfestingu sinni. Ég er nokkuð kunnugur rekstri eins þess háttar fyrirtækis, þ.e. Húseininga hf. á Siglufirði. Þetta fyrirtæki selur fullbúin timburhús og lætur reisa þau, þannig að kaupandi þarf einungis að gera grunn hússins, en getur síðan flutt inn í fullbúið og vandað einbýlishús að örskömmum tíma liðnum. Kaupandi getur valið um nokkrar teikningar. Verð þessara húsa er mjög lágt miðað við íbúðarverð í dag, en það þarf að borga það. Fyrirtækið getur ekki lánað kaupanda mikinn hluta húsverðsins á meðan hann bíður eftir húsnæðismálastofnunarláni sínu, ef það er veitt samkv. núgildandi reglum og afgreiðslumáta stofnunarinnar. Þetta tímabil frá byggingu hússins og til þess tíma er lán berst verður með einhverjum hætti að brúa. Skoðun mín er sú að þessi framleiðsla, þessi byggingarháttur gefi svo góðar vonir og sé svo álitlegur að einskis megi láta ófreistað til þess að hann nái að þróast og hljóta verðuga útbreiðslu. Menn mega ekki láta vissa ókosti sumra viðlagasjóðshúsanna glepja sér sýn.

Við þau ólánlegu vaxtakjör, sem við búum við í dag, er augljóst að skammur byggingartími er eitt meginatriðið til þess að halda byggingarkostnaði niðri. Enn fremur ber okkur að hafa það í huga að við eigum stórt og gott land, íslendingar. Við eigum að veita okkur þann munað að gefa þeim fjölskyldum, sem þess óska, tækifæri til þess að njóta kosta einbýlishúss án þess að þau þurfi að verða rándýrar byggingar.

Þessi áætlun, 1000 leiguíbúðir sveitarfélaga í dreifbýli, er mikið og fjárfrekt fyrirtæki, 5 milljarðar eða kannske talsvert meira á árunum 1974–1978. Ef tækist að lækka byggingarkostnað,

þó að ekki væri nema um ca. 5%, mundi það nema mjög hárri upphæð, 250 millj. 10% sparnaður mundi nema um 500 millj., 15% 750 millj., 20% sparnaður mundi nema milljarði, þannig að það er eftir nokkru að sækja. Ég er sannfærður um að framleiðsla eins og t.d. Húseininga hf. á Siglufirði mundi henta ýmsum sveitarfélögum mjög vel, enda hafa nokkur sveitarfélög þegar ákveðið að byggja sínar leiguíbúðir í einingarhúsum.

Húsnæðismál — það að hafa þak yfir höfuðið — er ein af frumþörfum okkar íslendinga. Verulegur hluti af tekjum hverrar fjölskyldu fer til þess að standa straum af húsnæðiskostnaði. Mjög verulegur hluti þjóðarteknanna hefur verið notaður í því skyni. Þess hefur enda verið full þörf og meiri þörf hér en víðast mun hjá öðrum þjóðum, þar sem næstum því allt íbúðarhúsnæði þjóðarinnar hefur verið byggt á síðustu 50 árum. Auk þess krefst veðurfar okkar þess að við reisum vandaðar byggingar.

Löggjöf um húsnæðismál hlýtur að vera breytingum undirorpin, eftir því sem ágallar eldri löggjafar koma í ljós. Þáltill., sem ég flyt hér nú, bendir á þau tvö atriði sem gera verður kröfu um að betur verði háttað en núgildandi lög ákveða. Þótt hér séu aðeins talin þau tvö atriði sem mér þykja brýnust til úrlausnar, er ekki þar með sagt að ekki séu mörg fleiri atriði sem nauðsynlegt sé að lagfæra, einkum ef nægilegt fé er fyrir hendi og tiltækt hjá Húsnæðismálastofnuninni.

Nokkru eftir að ég lagði fram þessa þáltill. mína á þskj. 112 báru tveir hv. þm., þeir Kjartan Ólafsson og Lúðvík Jósepsson, fram frv. til l. um breyt. á l. nr. 30 12. maí 1970, um Húsnæðismálastofnun ríkisins, á þskj. 205. Þeir benda þar á nokkur atriði sem þeir vilja breyta, m.a. að gera 80% fjármögnun ríkisins á leiguíbúðum að skyldu, svo sem lagt er til í þáltill. minni, enn fremur hækkun lánsupphæðar, endurbótalán á eldra húsnæði og einnig fjármagn til kaupa á gömlum íbúðum. Enn fremur leggja þeir til aðra tilhögun á láns- og vaxtakjörum til leiguíbúða heldur en gert er í gildandi lögum. Öll eru þessi atriði til bóta fyrir húsbyggjendur að mínum dómi og æskileg þótt ekki vegi þau jafnþungt í mínum huga og þau tvö sem ég benti á í þáltill. minni. Hefðum við bara nóga peninga til ráðstöfunar, þá væru þau öll sjálfsögð, — „ef maður ætti sög,“ sagði Jón Hreggviðsson. Ég hef ekki trú á því að það sé fyllilega raunhæft að tala um 2% vexti nú á þessum missirum, einkum eftir að vextir voru hækkaðir með þessum ódæmum síðla á ráðherraferli hv. flm., Lúðvíks Jósepssonar. En þar fyrir er ég sammála því að þessar leiguíbúðir verða nokkuð dýrar — það verður mjög dýrt að búa í þeim. Það þýðir ekki annað en gera sér grein fyrir því.

Ég vil ljúka máli mínu, herra forseti, með því að segja að ég treysti hv. Alþ. til þess að sjá um það að sveitarfélög í dreifbýli fái skilyrðislaust að njóta jafnréttis við höfuðborgarsvæðið hvað varðar fyrirgreiðslu til húsnæðismála. Þetta er réttlætismál, og það er óviðunandi fyrir okkur landsbyggðarfólk að það nái ekki fram að ganga.

Eftir þessa umr. í dag vil ég gera það að till. minni að málinu verði vísað til athugunar hjá hv. allshn.