04.02.1975
Sameinað þing: 37. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1492 í B-deild Alþingistíðinda. (1309)

113. mál, öryggisbúnaður flugvalla

Flm. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Á þskj. 138 hef ég leyft mér að flytja till. til þál. um öryggisbúnað flugvalla, er svo hljóðar:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta nú þegar gera athugun á því, hvernig komið verði upp á sem skemmstum tíma nauðsynlegum öryggisbúnaði á flugvöllum landsins.“

Það er kunnara en frá þurfi að segja, hvað flugsamgöngur eru orðinn stór og mikilvægur þáttur í samgöngumálum hér á landi. Flugfloti landsmanna vex ár frá ári. Flogið er víðs vegar um byggðir landsins allan ársins hring. Flutningur er af öllu tagi: fólk, fénaður og hvers konar varningur. Auk þess veitir flugið ákaflega mikla og nauðsynlega þjónustu. Sumar byggðir landsins verða nær eingöngu að treysta á flugferðir, a.m.k. að vetrarlagi og þegar mikið liggur við, svo sem þegar slys og sjúkdóma ber að höndum. Oft hefur verið teflt á tæpasta vaðið í slíkum ferðum, enda aðstæður viða erfiðar og ófullnægjandi.

Till. þessari fylgir skrá um flugvelli. Þeir eru nú hátt í 100 að tölu, stórir og smáir. Sums staðar er um reglubundið áætlunarflug að ræða, svo sem skrá þessi ber með sér. Aðrir flugvellir, einkum hinir smærri, eru ekki notaðir nema í neyð eða brýnni nauðsyn. Víðast er mikilla endurbóta þörf að því er að öryggiskröfum lýtur. Það er sjálfsagt að viðurkenna að margt hefur þokast í rétta átt til aukins öryggis í flugmálum undanfarin ár. Oftast hefur líka sem betur fer giftusamlega til tekist við erfið skilyrði. En betur má ef duga skal í þessum efnum sem öðrum. Undirbúa þarf ný átök í flugöryggismálum.

Þessi till. snýr að öryggisbúnaði flugvalla. Allir, sem eitthvað þekkja til þessara mála, vita að honum er viða ábótavant. Flugmálastjórnin og öryggisnefnd Félags ísl. atvinnuflugmanna hafa gert ýmsar tillögur til úrbóta í þessum efnum á flugvöllum landsins. Er nánar vikið að því í grg., en nefna má sem dæmi að lýsing á flugvöllum er viða ófullkomin eða engin og aðflugstæki og önnur allra nauðsynlegustu öryggistæki eru ekki til staðar. Það er skoðun mín að hér sé um að ræða mjög mikilvægt öryggismál fyrir alla landsmenn, það sé því nauðsynlegt að láta hið allra fyrsta athuga, hvernig best og haganlegast verði að þessum málum unnið á sem skemmstum tíma.

Ég legg til að máli þessu verði vísað til allshn. þegar umr. verður frestað.